Það er ekkert verra en að horfa á barnið sitt rembast og þjást og vita ekki nákvæmlega hvað er að hrjá það. Oft er orsökin einfaldlega mataræði þitt en þó er alls ekkert einfalt að finna út hvað má og hvað má ekki. Að hafa barn á brjósti er full vinna og held ég að margir geri sér enga grein fyrir hversu flókin brjóstagjöf getur verið og hversu miklar pælingar liggja á bakvið hana. Börn eru mismunandi og misviðkvæm og hvað móðir getur borðað til þess að viðhalda mjólkurframleiðslu getur verið mikill hausverkur. Ég er ein þessara mæðra sem þarf að spá í allt sem fer ofan í mig og hef þurft að gera með öll mín börn. Þrátt fyrir að vera nýbúin að eignast barn númer þrjú þá er þetta alltaf sami hausverkurinn, enda alls ekki algilt að það sem fór illa í eitt barn fari illa í annað. Það eru þó alltaf svipaðar fæðutegundir sem ég þarf að forðast og ef ég passa mig  á að vera á frekar hreinu og einföldu fæði þá gengur allt svo miklu betur. Ég ákvað að deila með ykkur þeim fæðutegundum sem eru á algjörum bannlista hjá mér en einnig aflaði ég mér upplýsinga á netinu og sá þar að aðrar mæður  hafa svipaðan lista og ég.

  • Laukur, rauðlaukur, hvítlaukur, blaðlaukur eða allt sem heitir LAUKUR! Ef ég borða eitthvað með lauk í þá þýðir það andvökunótt hjá mér og barninu með tilheyrandi gráti og rembingi. Þó hefur verið í lagi að prufa mig áfram með eldaðan lauk (laukur í mat) þegar barnið er byrjað að borða.
  • Hvítkál
  • Jarðarber
  • Sítrusávextir og -safar: Appelsínur, sítrónur, lime og grape
  • Kíví
  • Ananas
  • Vínber
  • Sterk krydd t.d. karrý og chili
  • Tómat pure / paste
  • Egg
  • Gos (þá sérstaklega appelsín)

Aðrar fæðutegundir sem ég fann sem geta farið illa í börnin eru:

  • Súkkulaði
  • Kál, blómkál, spergilkál, agúrkur og paprika
  • Ávextir með hægðalosandi áhrifum t.d. kirsuber og plómur

Mér finnst mjög gott að fá mér einn og einn kaffibolla yfir daginn en ég passa mig þó á að drekka mikið vatn með, ekki er mælt með að innbyrða mikið koffín meðan þú ert með barn á brjósti.

 Þetta eru helstu fæðutegundirnar sem ég forðast. Ég er líka mjög dugleg að gera allt frá grunni sem ég fæ mér og veit ég því nákvæmlega hvað ég set ofan í mig. Það  auðveldar mér að finna út hvort ég borða eitthvað “rangt” ef lillan mín er óróleg og bæti því þá á listann minn.

Það kemur að því að ég geti byrjað að “borða” aftur en þangað til þá ætla ég og lillan mín að njóta brjóstagjafarinnar.

Elsa Kristinsdóttir

 

 

 

 

Pin It on Pinterest

Share This