Átta góð ráð til að halda ró sinni sem foreldri

Átta góð ráð til að halda ró sinni sem foreldri

Átta góð ráð til að halda ró sinni sem foreldri

Að vera foreldri er streitufullt og það er varla augnablik þar sem hægt er að slaka algerlega á. Hugurinn er á sífelldu iði og einhver þarf alltaf eitthvað frá okkur. Stundum virðist sem foreldrar hafi ofurkrafta miðað við allt sem þeir koma í verk, en það er samt ekki svo.

Þegar foreldrahlutverkið reynir virkilega á, slæmur dagur á sér stað getur skapið fokið út í veður og vind.

Þegar við finnum að slæma skapið er á leiðinni er það oftast því hlutirnir gengu ekki alveg eins og áætlað var. Kannski var það í okkar valdi, kannski ekki. Verum bara hreinskilin – fullt getur farið úrskeiðis á degi hverjum!

Barnið er að taka bræðiskast…aftur

Þið eruð of sein í skólann…aftur

Enginn hlustar…enn og aftur

Barnið hreytti í þig ónotum…aftur

Þið sjáið mynstrið hér, enda þekkja þetta allir foreldrar. Suma dagana viljum við bara öskra, fara aftur upp í rúm eða keyra á ókunnan stað og byrja upp á nýtt! Þessir dagar eiga sér stað, og það er eðlilegt. Þú ættir samt ekki að þurfa að þjást því geðheilsan þín skiptir fjölskylduna miklu máli og hvernig þú átt við streitu er stór hluti andlegrar vellíðanar. Breyttu sjónarhorninu og eigðu þessi ráð í „verkfæratöskunni“ upp á að hlaupa.

1. Settu mynd á

Ef dagurinn virðist vera á leið með að verða óstöðugur er engin skömm í því að setja bara mynd í tækið. Ef foreldrar hefðu getað, hefðu þeir líka gert það á öldum áður. Láttu alla vera sammála ef hægt er og þá verða allir ánægðir og gleyma sér. Ef þig langar ekki að sjá myndina geturðu laumast í burt og notið einverunnar.

2. Búðu til heitan drykk

Sumir foreldrar lifa á kaffi. Ef þú átt slæman dag, gerðu þér dagamun og búðu til kakó eða kauptu bolla á kaffihúsi. Andaðu að þér ilminum og njóttu. Auka koffín gerir oft gæfumuninn og getur breytt deginum fyrir þig. Stoppaðu allt sem er í gangi og hugsaðu um þig í nokkrar mínútur.

3. Gefðu knús

Nei, ekki bara til hvers sem er, heldur faðmaðu krakkana og fjölskylduna! Eitt einfalt faðmlag sleppir endorfíni til heilans og þú verður rólegri og glaðari. Ef þú ert að verða reið/ur og í slæmu skapi, taktu börnin í fangið. Þú ert foreldrið og þau vilja sjá þig sýna ástúð fremur en reiði. Knúsið hjálpar ykkur báðum og breytir skynjuninni.

4. Slepptu tökunum

Stór hluti foreldrahlutverksins snýst um stjórnun. Þú stjórnar heimilinu og krökkunum. Þú fylgist með athöfnum, keyrir til og frá með þau, þarft að muna hvað hverjum finnst gott að borða, og það sem mamma eða pabbi segir, það á að standa. Ef þú ert leið/ur eru allir leiðir. Ef dagurinn er ekki að fara samkvæmt áætlun, taktu djúpan andardrátt, slakaðu á öxlunum og slepptu tökum á stjórninni. Þú stjórnar kannski ekki deginum en þú getur stjórnað hvernig þú bregst við honum. Bregstu við af reisn og hógværð.

5. Farið út

Erfiðasta sem foreldrar ganga í gegnum þegar þeir eiga slæman dag er að komast úr þessu vonda skapi. Það er stundum erfitt inni á heimilinu. Breyttu því um umhverfi og farið út úr húsinu. Það getur hreinlega bjargað deginum. Þó það sé bara að fara út í garð, skiptir það samt máli. Krakkarnir hlaupa um og ferskt loft hjálpar öllum.

6. Leggðu þig

Þegar þú ert með litla krakka er kannski erfiðara en að segja það að leggja þig. Ef þú ert samt heima með makanum, vinkonu eða eldra barni er kannski sniðugt að leggjast inn í rúm, þó það sé ekki nema 20 mínútur. Leggstu niður, lokaðu augunum og ýttu á „reset“ takkann! Taktu djúpa andardrætti, hægðu á önduninni.

7. Jóga

Ef þú kannt jóga er það alger snilld. Settu myndband á YouTube og fáðu krakkana með, ef þeir geta. Teygðu þig og fáðu blóðflæðið í gang. Yogi Approved hefur allskonar hreyfingar fyrir upptekna foreldra að gera með börnunum sínum. Þannig breytirðu andrúmsloftinu á heimilinu og það hjálpar líka við þennan bakverk! Þú getur losnað við heilmikið af streitu með jógaæfingum.

8. Biðstu afsökunar

Það er mjög gott fyrir foreldra að biðja börnin hreinlega afsökunar ef þeir hafa gengið of langt. Þó að þú hafir ekki verið að garga, útskýrðu fyrir þeim að þú eigir slæman dag og þú viljir ekki að það bitni á þeim. Skap foreldranna hefur áhrif á alla á heimilinu og getur hangið eins og þrumuský yfir öllu. Biddu þau afsökunar og kenndu þeim að það er í lagi að eiga slæman dag, en ekki taka tilfinningarnar út á öðrum.

 

 

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Fyrir meira en tveimur áratugum síðan var algengast að konur ólu upp börnin ásamt því að sinna öllum heimilisstörfum. Kynjahlutverk foreldra breyttust lítið, hvort sem mæður unnu utan heimilis eður ei. Í dag er þetta afar lítið breytt. Mömmur ala enn upp börnin. Mömmur sinna oftast eldamennskunni, þrifum, þvotti og svo framvegis. Á síðastliðnum árum hafa mæður farið að upplifa kulnun, þó þær eigi maka, þær eyða meirihluta tíma síns í að sinna börnum, heimilum og mökum, á meðan þær reyna að sinna öllu hinu líka.

Því miður er það svo að karlmenn sinna minnihluta þessara athafna og sannleikurinn er sá að við höfum ekki gert nægilega mikinn skurk í að breyta því að húsverkin séu kvennanna að sinna.

Þegar Covid-19 faraldurinn fór að herja á heiminn í fyrra fór álagið á mæður hins vestræna heims aukandi. Fjölskyldur fundu fyrir auknum húsverkum þar sem flestir í fjölskyldunni eyddu heilu dögunum heima. Það þurfti að kaupa meira inn, gæta þurfti að sóttvörnum, meira þurfti að elda heima og fleiri diskar fóru í uppþvottavélina. Herbergi urðu skítugri og börnin þurftu meiri hjálp við heimavinnuna. Fólk í vinnu þurfti að sinna fjarfundum. Og mömmur þurftu að skipuleggja þetta allt saman og meira til.

Eftir ár af þessu kapphlaupi eru mæður alveg búnar á því. Og við erum bara að tala um þessa vinnu sem maður sér.

Tilfinningaleg vinna

Við vitum af þessum praktísku hlutum, að halda heimilinu gangandi er ekkert grín. En það er önnur vinna sem tekur jafn mikið á, ef ekki enn meira. Tilfinningaleg vinna, ef við getum kallað hana svo, er að taka að sér allt tilfinningatengt sem tengist fjölskyldulífinu. Barnið er ósátt við að missa af leik, danssýningu, æfingu eða útskrift og mömmur þurfa að útskýra, hugga og vera til staðar. Mömmur eru í sambandi við þá sem eru einmana, syrgjandi, óttaslegnir og svo framvegis. Makar þurfa líka „umönnun“ – atvinnumissir, reiði, kvíði eða annað.

Mæður lenda því miður oft í því að stilla af tilfinningarnar á heimilinu – einhver á í erfiðleikum, einhverjir rífast, einhver er að missa þolinmæðina, einhver þarf einveru, einhver þarf á meðferð að halda. Þetta er eitthvað sem verður að taka með í reikninginn.

Að halda heimilinu saman tilfinningalega er meira en að segja það. Það tekur á og mæður bera oftast þungann.

Breyting á feðrahlutverkinu

Feður eru meiri þátttakendur í lífum barna sinna en oft áður. Þeir eru til staðar, mæta á leiki, styðja börnin, mæta í foreldraviðtöl og eru almennt mun „aktífari“ en feður hér á áratugum áður.

Þeir hafa samt, oftar en ekki, skilning á því hlutverki sem mamman sinnir. Oft eru áhyggjur kvennanna taldar minna mikilvægar eða óþarfar.

Það er ekki það sama að maðurinn vinni kannski heima og konan sé að sjá um allt uppeldið og heimilið, og sé jafnvel líka að afla tekna annars staðar. Mæður bera ábyrgð á of mörgu.

Feður geta gert mikið til að dreifa álaginu, og til þess þarf að spyrja mæðurnar. Það þarf að deila þessari ábyrgð, hún er allt of oft talin „sjálfsögð“ af mæðrum.

Það er mjög sniðugt að gera einhverskonar áætlun, hvað þarf að gera á hverjum degi, vikulega, mánaðarlega. Finnið jafnvægi sem virkar fyrir ykkur bæði, ekki bara vegna faraldursins, heldur í framtíðinni líka. Þetta er mikilvægt.

Það er kominn tími til að karlmenn auki við tilfinningagreindina, þannig þeir geti líka tekið á sig þessa tilfinningavinnu sem á sér stað á heimilinu. Til að kenna þeim það þurfa þeir að geta talað og borið kennsl á tilfinningar sínar. Allir þurfa að hlusta betur, með víðsýnni huga.

Við þurfum líka að bera kennsl á tilfinningalegt álag sem við kunnum að leggja á börn og maka.

Konur og kulnun

Allt of oft gleyma konur að sinna sér sjálfum þegar mikið er um að vera á heimilinu. Vinnan endar aldrei, hvorki heimilisverkin né tilfinningavinnan. Konur þurfa að vera skýrar – hvað þær þurfa og þær þurfa að fá tíma fyrir sig á hverjum degi, hvernig sem því er háttað. Þær þurfa að leyfa börnunum að fara og vera með föður sínum eða öðrum fjölskyldumeðlimum á meðan þær hlaða batteríin. Þær ættu að setja tíma daglega til að næra andann, hugann og líkamann. Það þarf að setja það í forgang, því það er eins og með súrefnisgrímuna, fyrst á þig, svo á barnið.

Það þarf kannski einhvern aðlögunartíma, en mæður ættu ekki að gefa neinn afslátt af þessum tíma fyrir sig á degi hverjum. Hinir verða að aðlagast þeim.

Mæður eru alltaf hjartað í fjölskyldunni og ólíklegt er að það breytist á næstunni. Þessvegna er það enn mikilvægara að þær fái tíma til að rækta sig sjálfar til að þær geti hreinlega verið til staðar í öll þessi ár til viðbótar.

Heimild: CNN/John Duffy

 

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Að treysta barninu einu heima í húsinu með öllu sem því fylgir er stórt skref, sérstaklega milli aldursins 9-12 ára – barnið er ekki barn lengur en ekki orðið unglingur.

Það hefur vissulega sína kosti að skilja barnið eftir heima að sjálfsögðu, eða láta það gæta yngri systkina. Þarna ertu að treysta barninu og það lærir ábyrgð. Það gæti líka verið huggulegt að komast út að borða með vinkonunum eða makanum barnlaus, svona til tilbreytingar!

Þannig – hvenær er í lagi að skilja barnið eftir eitt heima? Hvenær eru börn tilbúin að passa? Sérfræðingar segja að svörin við þessum spurningum velti á þroska barnsins og aðstæðum ykkar.

Hér eru nokkur atriði sem hafa ber í huga áður en þessi ákvörðun er tekin:

Fullorðinsmælikvarðinn

Engin lög eru á Íslandi um hvenær börn „mega“ vera ein heima. Ákvörðunin er foreldranna. Það er augljóst að þú skilur ekki fimm ára barn eftir eitt heima..en hvað með 11 eða 12 ára barn?

Flestir sérfræðingar eru sammála um að aldurinn 10-11 ára sé í lagi, að skilja barnið eftir í stuttan tíma í senn (minna en klukkustund) að degi til, svo lengi sem barnið upplifir ekki ótta og þú telur að það sé orðið nægilega þroskað.

Svo gætu liðið eitt eða tvö ár þar til barnið er eitt heima að kvöldi til.

Hvar þið búið getur líka haft áhrif á þetta. Búið þið í rólegu íbúðarhverfi eða annasömu?

Eruð þið með þjófavarnarkerfi? Kann barnið á það?

Getur barnið fylgt einföldum reglum og skilur það þær, s.s. að læsa dyrum og opna ekki fyrir ókunnugum?

Telur þú barnið þitt hafa góða dómgreind í öðrum kringumstæðum?

Eru vinir, nágrannar eða fjölskyldumeðlimir í nágrenninu sem gætu brugðist við, komi eitthvað upp á?

Er barnið þitt ábyrgðarfullt? T.d. klárar það heimavinnu án þess að vera ýtt á það, gerir það einföld húsverk?

Hvað finnst barninu sjálfu um að vera eitt heima?

Húsreglur

Ef þú hefur svarað flestum eða öllum spurningum ofangreindum játandi gæti barnið þitt verið tilbúið að vera eitt heima.

Áður en þú ferð í fyrsta skipti skaltu búa til reglur varðandi eftirfarandi atriði:

Hvað á að gera ef dyrabjallan hringir? Síminn hringir?

Hversu lengi má barnið vera í tölvunni eða horfa á sjónvarpið?

Að láta barnið passa yngri systkini

Sum börn hafa þroska til að passa önnur börn frá 11-13 ára aldri. Stundum er betra að bíða ef maður er ekki viss.

Áður en þú lætur barnið þitt passa, skaltu spyrja sömu spurninga og þú myndir spyrja manneskju sem ekki væri barnið þitt.

Allar barnfóstrur þurfa að vera:

  • Ábyrgar
  • Fullorðinslegar
  • Geta tekið góðar ákvarðanir
  • Fylgja reglum
  • Höndla vel valdið án þess að misnota það
  • Geta höndlað óvænt atvik án æsings
  • Best væri einnig að barnið kynni fyrstu hjálp, en barnfóstrunámskeið eru mjög góð og í boði.

Húsið tilbúið

Hafðu húsið í standi og eins barnvænt og hægt er til að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur þegar þú ferð út.

Til dæmis er gott að búa til símanúmeralista með þínu númeri, náinna ættingja, nágranna og auðvitað 1-1-2.

Einnig er gott að ræða við unglinginn hvað hann myndi gera ef upp kæmi neyðartilfelli s.s. eldsvoði. Láttu hann vita hvar sjúkrakassinn er og kenndu honum á hann.

Hafðu hollan mat handhægan. Ef þarf að nota eldavél eða örbylgjuofn skaltu vera viss um að unglingurinn kunni á þau tæki.

Áður en þú leyfir unglingnum að passa eða vera einn heima er ágætt að fara yfir þau atriði sem huga þarf að – t.d. ef einhver ókunnugur bankar upp á, ef systkinið tekur bræðiskast eða önnur atriði sem þér finnst vert að taka fram.

Farðu í fyrsta sinn eitthvert stutt, um hálftíma eða svo. Ræddu svo hvernig gekk. Ef allt gekk vel má lengja tímann í hvert skipti.

Passaðu að þegar þú ferð út sé síminn handhægur. Ef þig langar að „tékka inn“ skaltu hafa símtöl og skilaboð í lágmarki til að sýna unglingnum að þú treystir honum og getir notið þess að vera að heiman.

Heimild: WebMD

Leiðarvísir: Hvernig á að tala um erfið mál við börn á aldrinum 2-15 ára

Leiðarvísir: Hvernig á að tala um erfið mál við börn á aldrinum 2-15 ára

Leiðarvísir: Hvernig á að tala um erfið mál við börn á aldrinum 2-15 ára

Eitt það erfiðasta við foreldrahlutverkið er að tala við börnin sín um alvarleg mál. Það er nógu erfitt að útskýra fyrir þeim ef þvottavélin étur uppáhalds bangsann þeirra, eða þegar eineltisseggur ríkir í skólanum. Það kann að vera nær óyfirstíganlegt að ræða eitthvað enn erfiðara, s.s. ofbeldi, mismunun eða dauðsfall.

Á þessum tímum erum við nær beintengd öllu sem er að gerast í gegnum netið, YouTube, fréttir og hvaðeina. Börn fara ekki varhluta af þessu öllu og það er mjög mikilvægt fyrir foreldra að takast á við þessa áskorun.

Að takast á við og ræða erfið mál lætur börnunum þínum líða betur, þau verða öruggari, það styrkir tengslin ykkar á milli og það kennir þeim ýmislegt um heiminn. Og þegar þú kennir þeim að verða sér úti um upplýsingar og túlka þær, spyrja spurninga og athuga fleiri en eina heimild, verða þau gagnrýnin í hugsun. Það er alltaf erfitt að ræða málefni heimsins sem ekki hefur tekist að leysa. En með því að byggja upp kunnáttu, samkennd og persónuleika barnanna okkar gefum við þeim verkfærin sem þau þurfa til að takast á við hlutina.

 Þegar börnin þín fá vitneskju um eitthvað ógnvænlegt eða óþægilegt kemur það foreldrunum oft úr jafnvægi. Það er samt alltaf góð hugmynd að nota þroskastig og aldur barnsins til viðmiðunar hvernig hefja á samræður, því þau melta upplýsingar á mismunandi hátt eftir þeim þáttum.

Að skilja lítillega hvernig börn skilja heiminn á hverju þroskaskeiði fyrir sig hjálpar þér að upplýsa þau á réttan hátt. Að sjálfsögðu er hvert barn einstakt og hefur sína viðkvæmni, skap og reynslu, eins og allir aðrir. Þú skalt nota þína bestu dómgreind til að melta hvernig barnið tekur inn upplýsingar þegar þú ákveður hversu mikið þú ætlar að segja.

 Hér eru leiðir til viðmiðunar eftir aldursflokkum:

2-6 ára

Ung börn hafa ekki þá lífsreynslu til að skilja þá þætti sem felast í flóknum og erfiðum málum. Þau hafa heldur ekki skilning á huglægum hugtökum eða samspili aðgerða og afleiðinga. Heimur þeirra snýst um ykkur – foreldrana, systkinin, afa og ömmu, meira að segja hundinn ykkar. Þannig einbeita þau sér að því hvernig hlutirnir hafa áhrif á þau sjálf.

Þau eru mjög næm á tilfinningaástand foreldranna og geta haft áhyggjur af því að eitthvað hafi komið fyrir ykkur, eða þið séuð reið af því að þau gerðu eitthvað af sér. Þetta allt gerir það erfitt að útskýra erfið mál.

Þú getur sem betur fer stjórnað net- og sjónvarpsnotkun ágætlega á þessum aldri þannig passaðu að þau horfi ekki á eitthvað sem er ekki við hæfi.

Notaðu bæði orð og athafnir:Segðu: „Þú ert örugg/ur. Mamma og pabbi eru örugg. Fjölskyldan okkar er örugg.“ Þau vilja líka knús og það gerir mjög mikið.

Talaðu um tilfinningar – þínar og þeirra. Segðu: „Það er allt í lagi að vera hrædd/ur, leið/ur eða ringluð/aður. Þessar tilfinningar eru eðlilegar og við höfum öll þessar tilfinningar.“ Þú getur líka sagt: „Ég er reið/ur / leið/ur en ekki út af þér.“

Reyndu að komast að því hvað barnið veit. Það getur verið að barnið skilji ekki ástandi. Spurðu fyrst hvað barnið haldi að hafi gerst áður en þú ferð í lýsingar.

Hlutaðu vandann í einföldu máli. Fyrir eitthvað ofbeldisfullt getur þú sagt: „Einhver notaði hníf til að meiða fólk.“ Ef um mismunun er að ræða geturðu prófað: „Það eru hópar af fólki sem fá ekki rétta málsmeðferð eða réttlæti.“

 Passaðu málfarið hjá þér.

Segðu „maður“, „kona“, „stelpa“, „strákur“ en ekki „feitur gaur“, „sæt stelpa“ eða álíka. Passaðu að lýsa ekki manneskju eftir litarhætti, þyngd, kynhneigð, fjárhag, eða öðru því tengdu nema það sé afar nauðsynlegt. Notaðu orðaforða, hugmyndir og sambönd sem þau þekkja. Mundu eftir einhverju dæmi úr þeirra lífi sem þau geta tengt við. Segðu: „Maður sem stal einhverju. Manstu þegar einhver tók nestisboxið þitt?“

Notaðu einföld orð á borð við „reiður“, „leiður“, „hræddur“ og „hissa.“ Ung börn skilja tilfinningar, en þau skilja ekki t.a.m. geðsjúkdóma. Þú getur sagt að einhver hafi orðið of reiður eða of ringlaður og þurfti auka hjálp. Passaðu að nota ekki orð eins og „klikkast“ eða „gekk af göflunum.“

Tjáðu að einhver sé að sjá um málið. T.d. „Mamma og pabbi passa að ekkert slæmt komi fyrir okkur.“ Eða: „Löggan nær bófanum.“

 7-12 ára

Börn. Á þessum aldri kunna að lesa og skrifa og þ.a.l. geta þau komist í tæri við efni sem er ekki ætlað þeirra aldri. Yngri börnin í þessum hópi eru samt ekki alveg með á hreinu hvað er leikið og hvað er alvöru, svo eitthvað sé nefnt. Þarna fara börn að geta hugsað huglægt og þau hafa ákveðna reynslu af heiminum og hafa getuna til að tjá sig, leyst erfið verkefni og geta séð hluti út frá sjónarhorni annarra.

Börn sem eru ekki krakkar og ekki orðnir táningar eru á skeiði þar sem þau skilja sig frá foreldrunum, eru að verða kynþroska og eru sjálfstæðari að nota ýmsa miðla. Þau sjá ofbeldisfulla tölvuleiki, klám, fréttir sem geta komið þeim úr jafnvægi og heyra ljótt orðbragð. Það verður að geta rætt þessa hluti án skammar og vandræðalegheita.

Bíddu eftir rétta augnablikinu

Á þessum aldri eru krakkarnir líklegir til að leita til þín ef þau hafa heyrt um eitthvað skelfilegt. Þú getur þreifað fyrir þér hvort þau vilja ræða eitthvað, en ef þau ræða það ekki að fyrra bragði reyndu ekki að veiða það uppúr þeim.

Reyndu að komast að því hvað barnið veit

Spyrjið börnin hvað þau hafa heyrt, eða ef vinirnir í skólanum hafa verið að tala um eitthvað. Svaraðu spurningum þeirra einfaldlega og blátt áfram en passaðu að ofur-útskýra ekki hlutina því það gæti gert þau hræddari.

Búðu til öruggar aðstæður fyrir spjall

Segðu eitthvað á borð við: „Það er erfitt að ræða þessa hluti, meira að segja fyrir fullorðna. Við skulum bara tala. Ég verð ekki reið/ur og ég vil að þú getir spurt mig um hvað sem er.“

Veittu yfirsýn og samhengi

Krakkar þurfa að skilja kringumstæðurnar í kringum atburði til að ná utan um hlutina. Ef einhver fremur voðaverk er hægt að segja: „Manneskjan sem gerði þetta var með vandamál í heilanum sem ruglaði hugsanirnar.“ Ef mismunun er vegna húðlitar eða kynþáttar er hægt að segja: „Sumir halda að fólk með ljósa húð sé betra en fólk með dekkri húð. Það er ekki rétt hjá þeim. Þau hafa ekki réttar upplýsingar.“

Vektu forvitni

Ef barnið þitt sér fullorðinsefni á netinu gæti það boðið upp á tækifæri til að læra meira um t.d. hvernig fólk fjölgar sér. Þú getur sagt við barnið ef það sér óvart klám: „Klám á netinu er eitthvað sem fullorðið fólk horfir á. En það er ekki um ást eða rómantík og það getur gefið þér ranga mynd af kynlífi. Ef þú vilt læra meira um kynlíf getum við fundið fræðsluefni fyrir þig og við getum rætt þetta ef þú hefur einhverjar spurningar.“

Ef barnið hefur áhuga á fréttatengdu efni og vill kanna það betur getur þú fundið fréttastöðvar sem einbeita sér að efni fyrir yngra fólk.

Taktu mark á tilfinningum barnsins og geðslagi

Þú munt ekki vita fyrirfram hvað kemur barninu þínu í uppnám. Tékkaðu inn með því að segja hvernig þér líður og spyrðu svo hvernig því líður. Segðu: „Ég verð reið þegar ég þekki einhvern sem varð meiddur. Hvernig líður þér í svoleiðis aðstæðum?“

Hvettu til gagnrýninnar hugsunar

Spyrðu opinna spurninga til að fá börn til að hugsa nánar um alvarleg málefni. Spurðu: „Hvað heyrðir þú?“ „Hvað fannst þér þá?“ og „Af hverju finnst þér það?“
Leitaðu að því jákvæða

Reyndu að sjá hið jákvæða í öllu. T.d. „Það voru mjög duglegir slökkviliðsmenn að slökkva eldinn,“ eða „við skulum finna leið til að hjálpa til.“

Táningar (12+)

Á þessum aldri nota unglingar mikið samfélagsmiðla og nálgast efni á netinu með því að lesa og bregðast við á gagnvirkan hátt. Þau búa jafnvel til eigið efni til að deila áfram. Þau heyra oft um erfið mál á netinu og annarsstaðar, í spjalli t.d. án þess að þú vitir endilega af því.

Þau hafa meiri áhuga á að heyra hvað vinunum finnst eða öðru fólki á netinu heldur en þér og oft „skrolla“ þau að enda greinarinnar án þess að lesa alla söguna. Þau geta orðið fúl ef þú heldur fyrirlestur yfir þeim því þeim finnst þau vita allt. Hvettu unglinginn til að finna efni á netinu sem eykur við þekkingu hans og spurðu spurninga sem fær hann til að hugsa.

Hvettu til beinna og opinna samskipta

Táningar þurfa að vita að þeir „megi“ spyrja spurninga, athuga hvort vel sé tekið í skoðanir þeirra og þau geti tjáð sig frjálslega án afleiðinga. Segðu: „Við erum kannski ekki sammála um allt, en ég vil heyra hvað þú hefur að segja.“

Spyrðu opinna spurninga og hvettu hann til að hafa skoðun

Spurðu til dæmis: „Hvað finnst þér um lögregluna og ofbeldi sem hún beitir?“ „hvað veistu um málið?“ „Hverjum heldurðu að sé um að kenna?“ og „Af hverju finnst þér það?“

 Viðurkenndu að þú vitir ekki eitthvað

Það er í lagi þegar unglingar vita að foreldrarnir vita ekki allt! Það er í lagi að segja: „Ég veit það ekki, finnum út úr því í sameiningu.“

Fáðu unglinginn til að skoða allar hliðar erfiðra mála

 Félagsmál, stjórnmál, menning og hefðir – í kringum allt þetta eru bæði vandamál og góðir hlutir sem geta valdið unglingnum heilabrotum.

Spurðu: „Af hverju er svo erfitt að leysa glæpamál, ofbeldi, nauðganir?“ „Hvernig er hægt að laga ákveðna hluti, svo sem fátækt?“ „Ættum við að sætta okkur við málamiðlanir þegar kemur að leysa vandamál eða eigum við að fara fram á harðari aðgerðir?“

 Deildu gildum þínum

Leyfðu táningnum að sjá hvar þú stendur varðandi einhver mál og útskýrðu af hverju þú lætur þig málið varða. Ef þú vilt að táningurinn þinn virði aðra og skaltu segja honum af hverju þér finnst mikilvægt að umbera aðra og viðurkenna þá.

 Talaðu um fréttirnar „þeirra“

Ræddu um Facebook, Insta, Snap og TikTok og fáðu þau til að segja þér hvað þeim finnst um hitt og þetta. Hvernig fær fólk annað fólk til liðs við sig? Eru þetta áreiðanlegar fréttir? Hvað eru áhrifavaldar?

 Spurðu hvað unglingurinn myndi gera í erfiðum aðstæðum

Unglingar eru að finna hverjir þeir eru á þessum aldri og geta sótt í áhættu. Gerðu þeim ljóst að hættan getur birst án viðvörunar og spyrðu hvað þau myndu gera í ákveðnum aðstæðum.

 Hugsa í lausnum

Táningar geta verið kaldhæðnir, en líka raunsæir. Ef hlutirnir eiga að batna er þetta komandi kynslóðin til að gera það. Sýndu þeim að þú treystir þeim. Spurðu: „Ef þú værir með völd, hvað myndirðu leysa fyrst og hvers vegna? Hvernig myndirðu gera það?“

 

 

Pin It on Pinterest