Átta góð ráð til að halda ró sinni sem foreldri

Að vera foreldri er streitufullt og það er varla augnablik þar sem hægt er að slaka algerlega á. Hugurinn er á sífelldu iði og einhver þarf alltaf eitthvað frá okkur. Stundum virðist sem foreldrar hafi ofurkrafta miðað við allt sem þeir koma í verk, en það er samt ekki svo.

Þegar foreldrahlutverkið reynir virkilega á, slæmur dagur á sér stað getur skapið fokið út í veður og vind.

Þegar við finnum að slæma skapið er á leiðinni er það oftast því hlutirnir gengu ekki alveg eins og áætlað var. Kannski var það í okkar valdi, kannski ekki. Verum bara hreinskilin – fullt getur farið úrskeiðis á degi hverjum!

Barnið er að taka bræðiskast…aftur

Þið eruð of sein í skólann…aftur

Enginn hlustar…enn og aftur

Barnið hreytti í þig ónotum…aftur

Þið sjáið mynstrið hér, enda þekkja þetta allir foreldrar. Suma dagana viljum við bara öskra, fara aftur upp í rúm eða keyra á ókunnan stað og byrja upp á nýtt! Þessir dagar eiga sér stað, og það er eðlilegt. Þú ættir samt ekki að þurfa að þjást því geðheilsan þín skiptir fjölskylduna miklu máli og hvernig þú átt við streitu er stór hluti andlegrar vellíðanar. Breyttu sjónarhorninu og eigðu þessi ráð í „verkfæratöskunni“ upp á að hlaupa.

1. Settu mynd á

Ef dagurinn virðist vera á leið með að verða óstöðugur er engin skömm í því að setja bara mynd í tækið. Ef foreldrar hefðu getað, hefðu þeir líka gert það á öldum áður. Láttu alla vera sammála ef hægt er og þá verða allir ánægðir og gleyma sér. Ef þig langar ekki að sjá myndina geturðu laumast í burt og notið einverunnar.

2. Búðu til heitan drykk

Sumir foreldrar lifa á kaffi. Ef þú átt slæman dag, gerðu þér dagamun og búðu til kakó eða kauptu bolla á kaffihúsi. Andaðu að þér ilminum og njóttu. Auka koffín gerir oft gæfumuninn og getur breytt deginum fyrir þig. Stoppaðu allt sem er í gangi og hugsaðu um þig í nokkrar mínútur.

3. Gefðu knús

Nei, ekki bara til hvers sem er, heldur faðmaðu krakkana og fjölskylduna! Eitt einfalt faðmlag sleppir endorfíni til heilans og þú verður rólegri og glaðari. Ef þú ert að verða reið/ur og í slæmu skapi, taktu börnin í fangið. Þú ert foreldrið og þau vilja sjá þig sýna ástúð fremur en reiði. Knúsið hjálpar ykkur báðum og breytir skynjuninni.

4. Slepptu tökunum

Stór hluti foreldrahlutverksins snýst um stjórnun. Þú stjórnar heimilinu og krökkunum. Þú fylgist með athöfnum, keyrir til og frá með þau, þarft að muna hvað hverjum finnst gott að borða, og það sem mamma eða pabbi segir, það á að standa. Ef þú ert leið/ur eru allir leiðir. Ef dagurinn er ekki að fara samkvæmt áætlun, taktu djúpan andardrátt, slakaðu á öxlunum og slepptu tökum á stjórninni. Þú stjórnar kannski ekki deginum en þú getur stjórnað hvernig þú bregst við honum. Bregstu við af reisn og hógværð.

5. Farið út

Erfiðasta sem foreldrar ganga í gegnum þegar þeir eiga slæman dag er að komast úr þessu vonda skapi. Það er stundum erfitt inni á heimilinu. Breyttu því um umhverfi og farið út úr húsinu. Það getur hreinlega bjargað deginum. Þó það sé bara að fara út í garð, skiptir það samt máli. Krakkarnir hlaupa um og ferskt loft hjálpar öllum.

6. Leggðu þig

Þegar þú ert með litla krakka er kannski erfiðara en að segja það að leggja þig. Ef þú ert samt heima með makanum, vinkonu eða eldra barni er kannski sniðugt að leggjast inn í rúm, þó það sé ekki nema 20 mínútur. Leggstu niður, lokaðu augunum og ýttu á „reset“ takkann! Taktu djúpa andardrætti, hægðu á önduninni.

7. Jóga

Ef þú kannt jóga er það alger snilld. Settu myndband á YouTube og fáðu krakkana með, ef þeir geta. Teygðu þig og fáðu blóðflæðið í gang. Yogi Approved hefur allskonar hreyfingar fyrir upptekna foreldra að gera með börnunum sínum. Þannig breytirðu andrúmsloftinu á heimilinu og það hjálpar líka við þennan bakverk! Þú getur losnað við heilmikið af streitu með jógaæfingum.

8. Biðstu afsökunar

Það er mjög gott fyrir foreldra að biðja börnin hreinlega afsökunar ef þeir hafa gengið of langt. Þó að þú hafir ekki verið að garga, útskýrðu fyrir þeim að þú eigir slæman dag og þú viljir ekki að það bitni á þeim. Skap foreldranna hefur áhrif á alla á heimilinu og getur hangið eins og þrumuský yfir öllu. Biddu þau afsökunar og kenndu þeim að það er í lagi að eiga slæman dag, en ekki taka tilfinningarnar út á öðrum.

 

 

Pin It on Pinterest

Share This