Börn og bræðisköst: Hvað er til ráða?
Þú kannt að hafa áhyggjur af því að þú sért að ala upp harðstjóra en ólíklegt er að barnið sé að reyna að stjórna. Það er líklegra að barnið sé að taka kast vegna einhverra vonbrigða eða vanmáttarkenndar.
Claire B. Kopp, prófessor í sálfræði í Claremont Graduate University, Kaliforníuríki, segir að vandinn liggi í mismunandi skilningi á tungumálinu: „Smábörn eru farin að skilja meira af þeim orðum sem sagt er í kringum þau, samt sem áður er þeirra orðaforði takmarkaður.“
Þegar barnið getur ekki orðað hvað það vill eða hvernig því líður svellur upp reiði og vanmáttarkennd.
Hvernig á að höndla bræðisköst: Sjö ráð
Í fyrsta lagi, ekki láta þér bregða.Bræðiskast er vissulega ekkert skemmtilegt að horfa upp á. Barnið getur sparkað, öskrað og stappað niður fótunum og að auki getur það kastað hlutum, slegið frá sér og jafnvel haldið niðri í sér andanum þar til það verður blátt í framan. Þrátt fyrir að þetta sé afar erfitt að horfa upp á, er það í raun eðlileg hegðun hjá barnið sem er að taka bræðiskast. Þegar barnið er í miðju kasti er ekki hægt að koma að góðum ráðum þó það muni svara – þá á neikvæðan hátt! – þegar þú öskrar á það eða hótar því: „Ég áttaði mig á að því meira sem ég gargaði á Brandon að hætta, því trylltari varð hann,“ segir móðir tveggja ára drengs. Það sem virkaði best fyrir hana var að setjast niður hjá honum og bíða þar til kastið liði hjá.
Almennt séð er góð hugmynd að vera hjá barninu meðan það rasar út. Að rjúka út úr herberginu kann að vera freistandi hugmynd, en það gefur barninu þá tilfinningu að það sé yfirgefið. Holskefla tilfinninga sem barnið ræður ekki við getur hrætt það og það vill hafa þig nálægt sér.
Ef þú finnur að þú getur ekki meira ráðleggja sumir sérfræðingar að fara út úr herberginu, rólega, í nokkrar mínútur og koma aftur þegar barnið er hætt að gráta. Með því að vera róleg/ur verður barnið líka rólegra.
Sumir sérfræðingar mæla með að taka barnið upp og halda á því ef það hentar (sum börn berjast of mikið um). Aðrir segja að það sé betra að verðlauna ekki neikvæða hegðun og betra sé að hunsa kastið þar til barnið róast.
Stundum er líka gott að taka smá hlé eða „pásu“ (e. time-out) en öll börn eru misjöfn þannig foreldrar verða að læra hvaða aðgerð hentar þínu barni. Hvernig sem þú kýst að gera það er stöðugleiki lykillinn að árangri.
Mundu að þú ert fullorðni aðilinn
Hversu lengi sem kastið kann að standa skaltu forðast að láta undan óskynsamlegum kröfum barnsins eða að reyna að semja við það eða „múta“ því.
Það kann að vera freistandi að beita slíku, sérstaklega ef þið eruð úti meðal fólks. Reyndu að hafa ekki áhyggjur af hvað öðrum finnst því allir foreldrar hafa reynslu af svipuðu.
Ekki gefa eftir því þá ertu að kenna barninu að taka kast sé góð leið til að fá það sem það vill og gerir hlutina bara erfiðari í framtíðinni. Fyrir utan það er barnið hrætt við að vera svona stjórnlaust. Það síðasta sem það þarf er að þú sért stjórnlaus líka.
Ef köst barnsins þróast á þann hátt að það slær fólk eða gæludýr, kastar hlutum eða öskrar án afláts skaltu taka það upp og bera það á öruggan stað, s.s. svefnherbergi. Segðu því hvers vegna það er þar („Því þú slóst ömmu“), og láttu það vita að þú munir vera hjá því þar til það róast.
Ef þú ert úti á meðal fólks (vinsæll staður fyrir köst!) vertu þá viðbúin/n því að þurfa að fara þar til barnið róast.
„Þegar dóttir mín var tveggja ára brjálaðist hún á veitingastað þar sem spagettíið sem hún pantaði kom með klipptri steinselju yfir. Þó að ég skildi óánægju hennar ætlaði ég mér ekki að eyðileggja matinn fyrir öllum. Við fórum út þar til hún slakaði á.“
Ekki taka hlé nema það sé nauðsynlegt
Að taka barnið úr aðstæðum, má gerast frá 18 mánaða aldri. Það getur hjálpað barninu við að ná betri tökum á tilfinningum sínum þegar það tekur kast. Það getur verið hjálplegt þegar kastið er sérlega slæmt og önnur ráð bregðast. Að fara með barnið á rólegan stað, eða enn betra – leiðinlegan stað – í smástund (ein mínúta fyrir hvert aldursár) getur verið góð lexía í að ná sér sjálfur niður. Útskýrðu hvað þú ert að gera („Mamma ætlar að leyfa þér að taka smá pásu og mamma verður hér rétt hjá þér“), og láttu það vita að þetta sé ekki refsing. Ef barnið vill ekki vera á réttum stað, færðu það aftur á staðinn rólega og gerðu það sem þú sagðist ætla að gera. Passaðu að barnið sé öruggt en ekki eiga samskipti við það eða gefa því athygli í pásunni.
Talið um atvikið eftir á
Þegar stormurinn líður hjá skaltu taka barnið í fangið og ræða það sem gerðist. Notaðu einföld orð og viðurkenndu að þú skiljir vanmátt barnsins. Hjálpaðu því að koma tilfinningum í orð, t.d. „Þú varst reið því maturinn var ekki eins og þú vildir hafa hann.“
Leyfðu barninu að sjá að um leið og það tjáir sig með orðum skiljir þú það betur. Brostu og segðu: „Mér þykir leiðinlegt að ég skildi þig ekki. Nú ertu ekki að öskra þannig ég get skilið hvað þú vilt.“
Leyfðu barninu að finna að þú elskir það
Um leið og barnið þitt er rólegt og þú hefur fengið tækifæri að ræða kastið, faðmaðu það og segðu þú elskir það. Það er nauðsynlegt að verðlauna góða hegðun, til dæmis að barnið geti sest niður og talað um hlutina.
Reyndu að forðast aðstæður sem setja bræðiskast af stað
Veittu þeim aðstæðum athygli sem geta komið kasti af stað hjá barninu, sem „ýtir á takka“ þess. Gerðu ráðstafanir. Ef barnið brotnar niður þegar það er svangt, hafðu alltaf snarl meðferðis. Ef barnið verður pirrað í eftirmiðdaginn, farðu með það fyrr út á daginn. Ef það á erfitt með að breyta til, fara á milli staða svo dæmi sé tekið, láttu það vita áður. Að láta barnið vita að það sé tími til að fara af rólóinum eða að matur sé að koma gefur því tækifæri á að sætta sig við það í stað þess að bregðast bara við.
Ef þú skynjar að kast er á leiðinni skaltu reyna að dreifa athygli barnsins með því t.d. að breyta um stað, gefa því nýtt leikfang, gera eitthvað sem það býst ekki við, með því að gretta þig eða benda á fugl.
Smábarnið þitt er að verða æ sjálfstæðara þannig þú skalt gefa því kosti þegar hægt er. Engum líkar að vera sífellt skipað fyrir! Segðu t.d. „Viltu kartöflur eða hrísgrjón“ í stað þess að segja „Borðaðu kartöflunar þínar!“ Þannig fær barnið þá tilfinningu að það hafi einhverja stjórn. Skoðaðu hvenær þú segir „nei.“ Ef þú gerir það of oft ertu kannski að skapa streitu hjá ykkur báðum. Veldu slagina þína og reyndu að slaka á.
Passaðu að barnið verði ekki of stressað
Þrátt fyrir að dagleg bræðisköst geti verið eðlileg á þessum aldri er ágætt að hafa augun opin fyrir hugsanlegum vanda. Hafa breytingar átt sér stað í fjölskyldunni? Er mikið um að vera, meira en vanalega? Eru samskipti foreldranna strekkt? Allt þetta kann að koma af stað kasti.
Ef köstin eru óvenju mörg eða slæm eða barnið meiðir sig sjálft eða aðra skaltu leita ráða sérfræðinga. Læknirinn þinn getur rætt við þig um þroska barnisins og hversu langt það er komið með þér þegar þú ferð í skoðun með það.
Þessar heimsóknir gefa gott tækifæri til að ræða áhyggjur sem þú kannt að hafa varðandi hegðun barnsins og þannig getur þú útilokað alvarleg vandamál. Læknirinn kann einnig að hafa ráð við slíkum köstum. Einnig skaltu ræða við lækninn ef barnið þitt heldur niðri í sér andanum of oft. Það eru einhverjar líkur á að slíkt geti bent til járnskorts.
Heimild: Babycenter