Ef þú leggur hjarta þitt í verkin þá ganga þau vel
Þórunn Eva G. Pálsdóttir fékk titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021, hún er gift Kjartani Ágúst Valssyni og saman eiga þau tvo syni Jón Sverrir og Erik Val. Hún er menntaður sjúkraliði og í lokaverkefninu sínu árið 2019 varð Mía Magic til. Kennarinn hennar hvatti hana til þess að taka þessa hugmynd skrefinu lengra og síðan hefur Mía þróast. Þórunn hefur gefið út bók um Míu og næst á dagskrá er að hefja sölu á fallegum Míu bangsa sem unninn er út frá teikningu Bergrún Íris Sævarsdóttir myndlistamans.
Viltu segja okkur í stuttu máli hugmyndina á bak við Mía Magic, fyrir hvað það stendur og af hverju kviknaði sú hugmynd?
Hugmyndin á bakvið Mia Magic hefur verið mér ofarlega í huga í mörg mörg ár þannig séð. Þó ég hafi kannski ekki endilega verið með skýra mynd af Mia Magic eins og það er í dag, þá hefur mig alltaf langað til að gera eitthvað hvað sem viðkemur langveikum börn og foreldrum þeirra.
Þegar ég skrifaði lokaverkefnið mitt í sjúkraliðanáminu vorið 2019 varð Mía til. Lokaverkefnið fékk hæstu einkunn og hvatti Ágústa kennarinn minn mig til að láta verða að því að gefa út bókina MÍA FÆR LYFJABRUNN. Það er mikil þörf fyrir bættari fræðslu í samfélaginu okkar almennt séð og er hún alls ekki minna notuð innan veggja spítalans, fyrir litla fólkið okkar þar.
Bergrún Íris Sævarsdóttir hjálpaði mér að láta Míu fæðast fyrir lokaverkefnið mitt og síðar teiknaði hún bókina Mía fær lyfjabrunn. Þetta er svona byrjunin á þessu ævintýri. Næst voru það Míuboxin sem fæddust óvænt þann 16. október 2020, nokkrum mánuðum eftir að bókin kom út. Ég fékk þá mjög mikla löngun til þess að færa Söru Natalíu, sem er ung skvísa sem var búin að vera berjast við krabbamein, smá pakka uppá spítala og úr varð fyrsta Míuboxið. Síðan þá höfum við gefið Míubox í hverjum einasta mánuði, bæði til foreldra og barna.
Næst voru það Míuverðlaunin, ég hafði haft þá hugmynd í maganum lengi og þegar ég viðraði hana við Fríðu Björk vinkonu mína í gönguferð þann 4. febrúar 2021 sagði hún bara strax já, gerum þetta.
Fyrstu verðlaunin voru síðan veitt í apríl 2021 og þau næstu í október 2021, þriðju verðlaunin fara svo fram í september 2022 og erum við á fullu að undirbúa þau nú þegar. Draumurinn með þessum verðlaunum var í raun og veru bara svo við foreldrar og börn sem sækjum mikið þjónustu í heilbrigðiskerfinu getum þakkað því heilbrigðisstarfsfólki fyrir sem kemur að umönnun og þjónustu barnanna okkar á einn eða annan hátt.
Mig langaði líka til að gera allt jákvæðara í kringum þennan starfsvettvang því þetta er mjög krefjandi starf. Við erum oft á tíðum ekki í andlegu jafnvægi þegar börnin okkar þurfa á þessum fagaðilum að halda og því kannski ekki beint að þakka þeim fyrir aðstoðina. Við hinsvegar munum eftir þeim sem eru hvað best við okkur á erfiðum tímum og halda utan um okkur þegar enginn annar gerir það. Sama á við með börnin okkar.
Hvað er það mikilvægast við Mía Magic verkefnið?
Fyrir mitt leiti er það held ég að við mismunum engum það eru allir jafnir og það vantar svolítið hérna á íslandi að sameina krafta okkar og gera hlutina saman. Það gerir enginn stórkostlega hluti einn. Það þarf samvinnu til að hlutirnir virki og við gætum aldrei haldið Mia Magic gangandi nema fyrir allt það dásamlega fólk sem hjálpar mér og Fríðu alla daga. Það að einstaklingar og fyrirtæki taki svona vel í að hjálpa okkur að gleðja foreldra og börn á svona krefjandi tímum í lífi þeirra er það allra dýrmætast sem til er. Ef þú leggur hjarta þitt í verkin þá ganga þau vel. Ekki reyna að vera önnur/annar en þú ert.
Nú eruð þið að fara að selja Míu bangsa, viltu segja okkur frá því skemmtilega verkefni?
Já það er svo gaman, við fengum styrk hjá Velferðarsjóði Barna fyrir framleiðslu bangsanna. Ég ákvað það um leið og ég sá Míu í fyrsta sinn eftir að Bergrún teiknaði hana að hún yrði einn daginn að bangsa. Nú er það loks að verða að veruleika og er hægt að tryggja sér eintak inná vefversluninni hulan.is í forsölu. Þetta ferli er búið að taka heilt ár. Dimm verslun ætlar að hafa Míu bangsana í verslun sinni en þar hefur bókin okkar átt heimili síðan hún kom út. Það eru allar bækur fríar hjá Mia Magic því fræðsla á ekki að kosta. Bangsarnir koma núna 16.febrúar 2022.
Hvað er framundan hjá Míu Magic?
Framundan er hringferð með Míubox þegar aðeins fer að vora, við erum að undirbúa það á fullu en við fengum t.d í fyrra lánaðan bíl frá Öskju og N1 hjálpaði okkur með bensín. Þakklætið til þeirra er gríðarlega mikið því við erum jú bara að byrja og eru aðilar eins og Askja og N1 okkur ofsalega dýrmæt því við viljum halda þessu perósnulegu og færa börnum og foreldrum Míuboxin sín í eigin persónu. Við getum það ekki nema með hjálp.
Það er bók á leiðinni á þessu ári. Bergrún er að lesa yfir hana í þessum skrifuðu orðum og að teikna smá fyrir mig svo ég geti farið að sýna ykkur og safnað styrkjum svo við getum drifið hana í framleiðslu og í hendurnar á litla fólkinu okkar.
Það er margt á döfinni hjá okkur. Sumt sem við getum ekki alveg sagt frá strax en núna á næstu vikum segjum við frá hverjir ætla að kynna næstu Míuverðlaun og afhenda þau. Það er alltaf rosa skemmtilegt að deila því! Hæfileikaríka Iistakonan Inga Elín hannar fyrir okkur næstu Míuverðlaun og er það algjörlega tryllt staðreynd. Svo stolt af því að hafa hana með okkur.
Takk fyrir spjallið elsku Þórunn Eva, gangi ykkur allt í haginn með Míu Magic.