Erum mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra

Fyrir “nokkrum” árum þótti ekki mikið tiltöku mál ef fólk var að eignast sín fyrstu börn um tvítugt. Móðir mín átti mig nokkrum dögum eftir 18 ára afmælisdaginn sinn og pabbi var nýorðinn tvítugur. Það þótti nú lítið merkilegt. En á síðasta áratug eða svo hefur mikið breyst, barneignaraldurinn hefur færst aftar. Margar kunningjakonur mínar eru t.d að eignast sitt fyrsta barn eftir 35 ára aldur. Ég sjálf var talin nokkuð ung móðir en ég eignast mitt fyrsta barn 21 árs og var svo tilbúin á þeim tíma til að takast á við þetta fallega hlutverk, að vera móðir.

Perla Steingrímsdóttir og Brynjar eru nýorðin tvítug og eignuðust nýverið sitt fyrsta barn, hana Maríu Erlu gullfalleg lítil stelpuskotta. Perla kláraði lokaár sitt í Verslunarskóla Íslands á síðasta þriðjung meðgöngunar og var gengin 30 vikur á útskriftinni sinni, Brynjar útskrifaðst á sama tíma úr Fjölbraut í Garðabæ. Mamman.is fékk Perlu til að svara nokkrum spurningum um ástina, meðgönguna og foreldrahlutverkið.

Hvernig kynnust þið?

Við vorum bæði í samkvæmisdansi og urðum danspar fyrir 5 árum. Eftir átta æfingar á viku hver í þrjá klukkutíma þá leið ekki langt þangað til að við urðum kærustupar. Sökum dansins fengum við það tækifæri að ferðast um heiminn og teljum við okkur svo heppin að hafa séð svo mikið af heiminum saman. Fyrir ári síðan trúlofuðum við okkur á gondola undir Bow bridge í Central Park. Það var yndislegt móment sem okkur þykir svo vænt um.

Nú eru kannski nokkrir sem velta því fyrir sér þegar ungt fólk eignast börn, hvort að barnið “sé planað” hafið þið oft fengið þá spurningu?

Það kom engum á óvart þegar ég varð ólétt því við höfðum ákveðið löngu áður að okkur langaði að eignast barn fljótlega eftir stúdentspróf. Þannig þetta barn kom planað í heiminn og því enginn laumufarþegi. Við fáum þessa spurningu eiginlega alltaf frá fólki í einhverri útgáfu, en svo eru aðrir sem búast við því að barnið hafi verið óplanað og eru því mjög hissa þegar annað kemur í ljós.  Við erum bæði mikið barnafólk og við vorum farin að skoða barnaföt í keppnisferðum erlendis nokkrum árum áður og töluðum oft um hvenær og hversu mörg börn okkur langar í.

Hvernig voru fyrstu viðbrögðin þegar þið komust að því að þið ættuð von á barni?

Við vorum ótrúlega glöð. Við vorum svo spennt að fá að vita hvort þetta hafi virkað hjá okkur. Vorum þannig séð búin að búa okkur undir það að verða ófrísk gæti tekið svolítin tíma en þetta gerðist allt svo fljótt, sem okkur fannst bara enn yndislegra. Þannig fyrstu viðbrögðin var mikil gleði en einnig alveg gífurlegur spenningur. Vorum eiginlega ekki að trúa því að eftir 9 mánuði myndum við verða foreldrar.

Hvernig tóku foreldrar og vinir þeim fréttum að þið ættuð von á barni?

Þetta kom foreldrum okkar nú eiginlega ekkert á óvart og þau í raun farin að bíða eftir barninu. Þau sýndu okkur rosalega mikinn stuðning og alveg ómetanlegt að eiga svona flott sett af ömmum og öfum. Vinir okkar urðu glöð, hissa, spennt og pínu hrædd. Sumir jafnaldrar okkar gátu ekki ímyndað sér að vera í okkar sporum en aðrir með mikið ,,baby-fever” ef mér leyfist að sletta. Þannig við höfum fengið liggur við allan skalann af móttökum. Ekkert slæmt samt.

Hvernig gekk meðgangan?

Ég var mjög heppin að upplifa góða meðgöngu. Það var smá morgunógleði í byrjun og það sem var að hrjá mig hvað mest var að ég gat alls ekki borðað kjöt á þessum tíma. En var samt sjúk í mjólk. Ég var dugleg að hreyfa mig og fór í bumbutíma í WorldClass sem voru mjög skemmtilegir. Ég var að klára Verzló þegar ég var ólétt og fannst mér það bara hjálpa mér að hafa smá heilaleikfimi.

Hvernig gengur foreldrahlutverkið, er eitthvað sem kemur ykkur á óvart?

Foreldrahlutverkið er yndislegt. Við bjuggumst hreinlega ekki við því að geta þótt svona ótrúlega vænt um einhvern eins og okkur þykir um Maríu Erlu. Væntumþyggja náði semsagt nýjum hæðum hjá okkur. Að sjálfsögðu er þetta ekki bara göngutúr í garði og það fylgja tímar þar sem þetta tekur á. En saman getum við þetta og erum góð í að styðja við hvort annað.

Það sem kemur okkur kannski mest á óvart við þetta nýja hlutverk, er allt dótið sem fylgir því.

Við erum kannski að fara í heimsókn og þá fyllum við skottið í bílnum af dóti sem allt er auðvitað nauðsynlegt…svona eins og ferðatösku af fötum og ca 50 bleiur… bara til að vera viss. Nýja starfið er mjög gefandi og erum við mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra.

 Finnst þér þú mæta einhverjum fordómum sökum ungs aldurs, þ.e.a.s að fólk efist um færni ykkar sem foreldrar vegna aldurs?

Við höfum ekki ennþá upplifað neina fordóma. Þeir hafa þá alveg farið framhjá okkur ef einhverjir voru. Enda er engin ástæða til að hlusta á eitthvað svoleiðis. Við vorum tilbúin í að eignast barn og fylgdum hjartanu. Allir hafa sýnt okkur mikinn stuðning og voru kennarar og starfsfólk í Verzló mjög hjálplegir og áhugasamir á meðgöngunni. Við vonum innilega að fordómar gegn ungum foreldrum muni deyja út. Ef einhver hefur áhyggjur af því hversu ungir foreldrarnir eru, er ekki betra bara að bjóða þeim hjálp í stað þess að vera með einhver hortugheit… nei ég segi bara svona.

Hver eru framtíðarplönin hjá litlu fjölskyldunni?

Við erum bæði í háskólanámi núna. Brynjar er að reyna við tannlækninn og ég var að byrja á hugbúnaðarverkfræði. Það voru margir sem héldu að við myndum hætta við háskólanám og myndum fara að vinna eftir að við komumst að því að við værum að verða foreldrar. En við ætlum að halda í okkar drauma og ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Litla dúllan okkar fær bara að taka þátt og gerir leiðina bara svo miklu betri.

Eitthvað sem ykkur langar að taka fram að lokum?

Að lokum langaði okkur nú bara að segja að maður verður bara að hlusta á sjálfan sig. Við vorum tilbúin að eignast barn og tilbúin í það hlutverk og þá ábyrgð sem því fylgir. Það eru allir mismunandi og því tilbúnir til barnseigna á mismunandi aldri. En það er akkurat svo fallegt.

Við þökkum Perlu kærlega fyrir að svara spurningum okkar og óskum fjölskyldunni velfarnaðar um ókomna framtíð. Til að halda áfram að fylgjast með litlu fjölskyldunni og þeirra lífi þá bendum við á Instagramreikning Perlu en hann er perlast97.

Auður Eva Ásberg

 

Pin It on Pinterest

Share This