Félagsfælni unglinga: Góð ráð og fróðleikur
Þeir sem finna fyrir tilfinningum félagsfælni þurfa samt að vita að lífið er ekki búið. Það eru bjargráð og verkfæri sem hjálpa þeim að eiga við félagslegar aðstæður og hægt er að njóta lífsins á ný.
Hvað er félagsfælni?
Félagsfælni er órökréttur, öflugur og þrálátur ótti við ákveðinn hlut, athöfn eða félagslegt ástand sem fólk forðast eða pínir sig til að þola með afskaplegum kvíða og streitu.
Sumir táningar upplifa slíkt, þá sérstaklega í ákveðnum aðstæðum, t.d. að tala fyrir framan fólk eða að hefja samræður. Aðrir eru mjög kvíðnir eða hræðast allar félagslegar aðstæður.
Félagsfælni hrjáir um 5,3 milljón manna í Bandaríkjunum einum. Algengast er að ungmenni frá 11-19 ára aldri finni fyrir þessari fælni.
Hver eru einkenni félagsfælni?
Einkennin eru m.a.:
- Að vera afar sjálfsmeðvitaður (e. self-conscious) í félagslegum aðstæðum sem lýsir sér í mikilli feimni, magaverk, auknum hjartslætti, svima eða gráti
- Að hafa stöðugan, öflugan, krónískan ótta að aðrir séu að horfa á sig eða dæma
- Að verða feiminn og líða óþægilega þegar aðrir horfa á mann (t.d. ef verið er að kynna eitthvað í skólanum, tala fyrir framan hóp eða koma fram í leiksýningu eða álíka)
- Að vera hikandi að tala við bekkjarfélaga eða liðsfélaga (forðast augnsamband, sitja einn í hádegishléi, vilja ekki tjá sig þegar hópverkefni eru unnin)
- Líkamleg viðbrögð við kvíða (ógleði, hjartsláttartruflanir, aukin svitamyndun, roðna, að finna fyrir skömm eða niðurlægingu)
Hvað er hægt að gera?
Ef félagsfælnin er á því stigi að hún hindrar unglinginn að gera það sem hann langar að gera, eða kemur í veg fyrir að hann eignist vini eða viðhaldi vinasamböndum er vert að athuga hvort meðferð kæmi að gagni.
Að ræða ótta sinn og kvíða við lækni eða sálfræðing sem hefur reynslu af félagsfælni getur hjálpað gríðarlega. Sérfræðingar geta sagt þér hvort þú sért að upplifa „eðlilega“ félagsfælni eða hvort hjálpar sé þörf.
Hvernig er félagsfælni meðhöndluð?
Það eru tvenns konar leiðir sem hafa reynst öflugar: Lyf og atferlismeðferð. Hægt er að taka báðar leiðir á sama tíma.
Lyf: Fyrir suma unglinga er nóg að taka lyfseðilsskyld lyf við félagsfælni. Þau vinna á þann hátt að þau minnka óþægindin og vandræðaleg einkenni. Margir læknar uppáskrifa beta-blokkara til að minnka kvíða. Í sumum tilfellum er það nóg til að minnka félagsfælnina eða hún hverfur jafnvel. Sumir finna ekkert fyrir áhrifum lyfjanna og þau gera ekki neitt. Það er engin leið til að vita fyrirfram hvort lyf muni virka eður ei. Stundum þarf að gera tilraunir til að finna rétta lyfið. Læknir gæti gefið lyf á borð við Zoloft, Paxil eða Effexor, sem lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt til meðferðar við félagsfælni. Þrátt fyrir að þessi lyf teljist hentug getur læknirinn uppáskrifað aðrar lyfjategundir sem geta einnig hjálpað.
Ókosturinn við lyfin hinsvegar eru þau að þau eiga bara við einkennin. Ef notkun þeirra er hætt getur félagsfælnin birst á ný. Svo hafa lyf oft aukaverkanir á borð við höfuðverk, ógleði, svefnleysi og magaverk. Einnig geta lyf af þessu tagi aukið sjálfsvígshugsanir tímabundið, þannig vakta þarf ungt fólk sem er yngra en 24 ára. Stundum er það metið svo að kostirnir við lyfjagjöf séu fleiri en gallarnir. Þetta er eitthvað sem ungmennið, foreldrarnir og læknirinn þurfa að komast að í sameiningu.
Þeir sem taka slík lyf þurfa strax að hafa samband við lækni ef depurðar eða annara aukaverkana gerir vart við sig. Aldrei má snögghætta á lyfjum án þess að ráðfæra sig við lækni, því það getur verið hættulegt.
Atferlismeðferð: Atferlismeðferð á borð við hugræna atferlismeðferð hefur reynst vel við félagsfælni. Einnig hefur meðferð sem kallast á ensku exposure theraphy reynst vel en þá eru tekin lítil skref í átt að félagslegum aðstæðum sem eru óþægilegar og beðið þar til það verður bærilegra. Á meðan meðferðinni stendur er verið að „endurforrita“ heilann að læra að félagslegar aðstæður sem voru áður ógnvænlegar eru ekki það slæmar. Margir þerapistar sem nýta sér aðferðina hefja hana með litlum skrefum eins og áður sagði, svo er tekist á við erfiðari aðstæður smám saman. Kosturinn við þessa meðferð er að verið er að ráðast á undirliggjandi vandann, ekki bara einkennin. Þannig ef meðferð er hætt er ólíklegra að einkennin birtist á ný.
Hvenær skal ræða við lækni vegna félagsfælni?
Í fyrsta lagi er ekkert að þeim unglingum sem hafa félagsfælni. Margir hafa leitað sér aðstoðar vegna fælninnar og hún er læknanleg. Ef þú finnur fyrir mjög miklum ótta og kvíða vegna félagslegra aðstæðna, talaðu opinskátt við lækninn þinn. Hann er bundinn trúnaði og vill bara hjálpa þér. Ef ekkert er gert í félagsfælni getur það leitt til þunglyndis, misnotkunar áfengis eða lyfja, vanda í vinnu og skóla og lífsgæði versna.
Heimild: WebMd