Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Yrja Kristinsdóttir er 36 ára þriggja barna mamma og eigandi fyrirtækisins Dafna, sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf fyrir foreldra og börn. Einnig rekur Yrja Vellíðunarsetrið sem staðsett er í Urriðaholti í Garðabæ. Blaðakona Mamman.is hitti Yrju yfir kaffibolla í Vigdísarhúsi sem var einkar vel við hæfi enda Yrja hæfileikarík kona og augljós leiðtogi í sér, líkt og Vigdís. Þegar blaðakona rakst á Instagramreikning Döfnu vakti upp forvitni hver stæði á bak við síðuna. Þar var mikið fjallað um foreldrakulnun og að það sé eðlilegt sem foreldri að upplifa allskonar tillfinningar, ekki bara eintóma gleði. Við byrjuðum því eðlilega á því að spyrja, hver er konan á bak við Dafna?  

„Ég heiti Yrja Kristinsdóttir og er eigandi Dafna sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf og rek einnig Vellíðanarsetrið sem er staðsett í Urriðaholti, Garðabæ. Dafna sérhæfir sig í börnum, unglingum og fullorðnum sem vilja auka vellíðan sína og ná betra jafnvægi. Ég vinn út frá aðferðum jákvæðrar sálfræði og markþjálfunar. Þar er lögð áhersla á þætti á borð við jákvæðar tilfinningar, styrkleika og hugarfar sem eiga þátt í því að einstaklingurinn blómstrar, vex og dafnar. Auk þessa er ég að vinna að verkefni ásamt Marit Davíðsdóttur, sem ber nafnið Gleðiskruddan. Gleðiskruddan er dagbók fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og er tilgangur hennar að auka sjálfsþekkingu, trú á eigin getu, bjartsýni og vellíðan,” segir Yrja og bætir við: „Gleðiskruddan er bæði á Instagram og á Facebook og þar er að finna bæði fræðslu og fróðleik sem nýtist fólki á öllum aldri. Einnig höfum við opnað vefsíðuna Glediskruddan.is en þar má finna upplýsingar um dagbókina, námskeið og fyrirlestra sem eru í boði,” segir Yrja. 

Hefur mikla ástríðu að aðstoða einstaklinga við að efla vellíðan

„Ég hef fjölbreytilega menntun en þar má nefna: BA. í félagsráðgjöf, MA. í uppeldis-og menntunarfræði með áherslu á lífsleikni, sjálfsmynd og farsæld, diplóma í djáknafræðum, diplóma í jákvæðri sálfræði á meistarastigi, dáleiðslutækni og markþjálfun. Ég er einnig að klára framhaldsnám í markþjálfun í maí og verð þar að auki vottaður NBI þjálfi,” segir Yrja. „Ég hef mikla ástríðu fyrir að aðstoða einstaklinga við að efla andlega heilsu, vellíðan og auka hamingju. Ég vinn mikið með foreldrum, þá sérstaklega mæðrum sem eru að koma úr fæðingarorlofi og/eða eru að finna jafnvægið á milli móðurhlutverksins, vinnu og þess að vera þær sjálfar. Ég legg mikla áherslu í mínu starfi á að þær fái aðstoð við að aðlaga móðurhlutverkið að sér, í stað þess að aðlaga sjálfa sig að móðurhlutverkinu,” segir Yrja sannfærandi. 

En hvað er foreldrakulnun? 

„Foreldrahlutverkið er margslungið, það er krefjandi, skemmtilegt, erfitt, yndislegt, gefandi og fjölbreytilegt. Foreldrar eru orðnir hreinskilnari og opnari í umræðunni um upplifun á streitu, kvíða og ójafnvægi í foreldrahlutverkinu. Það er jákvæð þróun því að foreldrakulnun (e. parental burnout) er staðreynd og er afleiðing af langvarandi þreytu og streitu í krefjandi aðstæðum,” segir Yrja. 

“Foreldrakulnun lýsir sér þannig að foreldrahlutverkið verður einstaklingnum bæði líkamlega og tilfinningalega ofviða og getur valdið efasemdum um getu til að vera gott foreldri og/ eða tilfinningalegri fjarveru.” 

Einkenni foreldrakulnunar eru meðal annars: Foreldrar upplifa kvíða og áhyggjur. Mikil þreyta. Foreldrar eiga erfitt með að vera meðvitað til staðar og njóta þess að eiga tíma með fjölskyldunni. Foreldrar geta upplifað efasemdir um að að vera gott foreldri og því fylgir sektarkennd. 

Er þetta eðlilegt ástand? 

„Það er eðlilegt að upplifa streitu, þreytu, ójafnvægi og allskonar tilfinningar þegar maður er foreldri, en að lenda í kulnun getur haft skaðleg áhrif. Það er því mjög mikilvægt að vera meðvitaður um öll þau einkenni sem eru til staðar til að geta leitað sér aðstoðar áður en foreldri upplifir foreldrakulnun,” segir Yrja. 

Hvaða hópur foreldra er líklegastur til að upplifa foreldrakulnun? 

„Samkvæmt rannsóknum á foreldrakulnun eru ákveðnir hópar foreldra í áhættuhóp en það eru þeir sem a) eiga erfitt með tilfinningastjórn og streitu, b) skortir stuðning frá maka og/eða hinu foreldri, c) skortir uppeldisfærni, d) eiga börn með sérþarfir og e) vinna hlutavinnu eða eru heimavinnandi.“. 

Hvert er hægt að leita sér eftir aðstoð? 

„Allir foreldrar geta upplifað einhver af þessum einkennum og þess má geta að það er fullkomlega eðlilegt að upplifa einhver af þeim án þess að lenda í kulnun. Ef að einkennin verða langvarandi er ráðlagt að leita sér aðstoðar. Það er án efa hægt að leita til margvíslegra meðferðaraðila sem geta aðstoðað foreldra sem eru að upplifa þessi einkenni en markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er ein þeirra leiða,” segir Yrja og bætir við: „Aðferðir jákvæðrar sálfræði bjóða uppá möguleika til að koma á jafnvægi, draga úr álagi og auka vellíðan á þessu sviði en meðal rannsóknarefna innan greinarinnar eru vellíðan, jákvæðar tilfinningar, hamingja, þrautseigja, sambönd, hugarfar, tilgangur og hvað fær fólk til að vaxa og dafna í lífinu. Í jákvæðri sálfræði eru rannsakaðir þeir þættir sem hafa jákvæð áhrif á einstaklinga og fá þá til að blómstra. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jákvætt viðhorf er verndandi þáttur fyrir sálræna og líkamlega heilsu. Það hafa jafnframt verið rannsakaðar aðferðir og æfingar sem rækta með okkur jákvæðar tilfinningar, hegðun og hugsanir og kallast þær jákvæð inngrip,” segir Yrja og bætir við að lokum: „Markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er því tilvalin fyrir skipulag, sjálfsþekkingu, markmiðasetningu, aukið jafnvægi og ná að vera í núinu og njóta eða vera til staðar með vakandi athygli. Semsagt aukin vellíðan, jafnvægi og hamingja. Eins og oft er talað um þá þurfum við að setja á okkur súrefnisgrímuna áður en við getum aðstoðað aðra.” 

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast inn á vefsíðu dafna.is einnig er hægt að senda Yrju tölvupóst á dafna@dafna.is Við hvetjum alla þá sem tengja við einkenni kulnunar að leita sér aðstoðar.

 

Pin It on Pinterest

Share This