Frábær ráð til sjálfsræktar fyrir uppteknar mömmur!

Að setja sig sjálfa í fyrsta sæti þarfnast stundum ákvörðunar (sérstaklega fyrir þær mömmur sem hafa lítinn tíma) jafnvel þó það þýði að þú þurfir að stíga út fyrir þægindarammann. Þrátt fyrir að þú lifir uppteknu lífi getur þú samt verið heilbrigð, hugað að andlegri og líkamlegri heilsu, átt yndislegt líf og litið vel út, allt á meðan þú átt fjölskyldu og frama.

Hver er lykillinn?

Jú, að hanna líf sem er í jafnvægi, með ákvörðunum teknum sem sinna líkama, huga og sálu. Það er samt auðveldara að segja það en framkvæma…eða hvað?

Julie Burton, höfundur bókarinnar The Self-Care Solution: A Modern Mother’s Must-Have Guide to Health and Well-Being,  þekkir þessa baráttu allt of vel: „Flestar mömmur finna þennan þrýsting – að vinna eða vera heima og næstum allar mömmur, sama hver staða þeirra er, finna fyrir sektarkennd þegar þær taka tíma frá börnunum til að sinna sjálfum sér,“ segir hún, en hún á fjögur börn á aldrinum 12-22 ára. „Mömmur hafa kílómetralangan lista með öllu því sem þarf að gera og ósjálfrátt fara þær sjálfar alltaf í neðsta sæti.“

Julie átti sjálf í baráttu með þetta jafnvægi, ánægjuna og móðurhlutverkið þannig hún rannsakaði meira en 400 mömmur og spurði þær ráða varðandi jafnvægi og sjálfsást á meðan þær ólu upp börn. Velgengni þeirra sem og hraðahindranir rötuðu því í bókina.

Algengasti samnefnarinn var þó sá að ekki er hægt að neita sér um sjálfsrækt af einhverju tagi: „Um leið og þú verður mamma og skuldbindur þig til að hugsa um barnið skaltu innprenta hjá þér: Ég mun heiðra og virða sjálfa mig með því að hugsa um þarfir mínar reglulega. Þetta gerir mig ánægðari og færari að sjá um fjölskylduna.“

Julie heldur áfram: „Sem mömmur höfum við frábært tækifæri að vera fyrirmyndir fyrir börnin okkar með því að hugsa um okkur og vera góðar við okkur, og í staðinn, hvernig á að vera góður við aðra. Eins og sagt er, við getum ekki hellt úr tómum bolla.“

En hvernig á að byrja ef þú hefur lengi verið á botninum á listanum, svo að segja?

„Settu þig aftur á listann,“ segir Julie. „Byrjaðu á 10 mínútum á dag, bara fyrir þig. Vertu þolinmóð, haltu draumunum lifandi og komdu fram við sjálfa þig af sömu ástúð og samkennd og þú kemur fram við aðra.“

Einbeittu þér að einhverju eftirfarandi:

Hreyfðu þig

Hvort sem þú þarft að hreyfa þig oftar eða vilt hrista upp í rútínunni þinni, kjóstu eitthvað sem hvetur þig til að hreyfa þig áfram. Æfðu fyrir Reykjavíkurmaraþonið, prófaðu nýjan jógatíma, Tai Chi, Pilates. Julie ráðleggur líka skemmtun t.d. að fara á skauta eða settu tónlist á í stofunni svo þið getið öll dansað.

Nærðu þig

Góður matur gefur líkamanum orku, þannig ekki borða „drasl“ heldur veldu vandlega næringuna: „Það er eðlilegt að hugsa frekar um börnin en þig. Þú verður samt að nærast á heilbrigðan hátt, það er gott fyrir börnin að sjá þig hugsa vel um líkama þinn.“ Hugmyndir að heilsusamlegum reglum: Hafið kjötlausan dag einu sinni í viku, borðið lífrænan mat, eldið oftar frá grunni, drekktu vatn í stað goss, skipulagðu innkaupin.

Hafðu samband

Passaðu upp á að heimilislífið láti þig ekki detta úr sambandi við fjölskyldu og vini. Ef þú getur ekki hitt þau einu sinni í viku, reyndu að skipuleggja einhvern tíma í mánuði. Fyrsti föstudagur í mánuði ferðu og hittir vinkonurnar, til dæmis, eða á sunnudagsmorgnum farið þið í bröns til mömmu.

Passaðu upp á heilsuna

Þú myndir aldrei láta undir höfuð leggjast að fara með börnin í reglubundna læknisskoðun, þannig þú átt ekki gera það við þig heldur. Julie segir að allt of margar vinkonur hennar hafi trassað að leita læknis og hafi endað með alvarlega heilsufarskvila. Skipulagðu reglulegar heimsóknir til kvensjúkdómalæknis, krabbameinsskoðanir og þessháttar. Ekki gleyma tannlækninum!

Settu svefninn í forgang

Mömmur festast oft í hugarfarinu „að gera hluti þegar börnin eru farin að sofa/áður en þau vakna.“ Mömmur ættu samt ekki að gefa afslátt af svefninum: „Ónógur svefn getur haft alvarleg áhrif: Fólk sem sefur minna en sex klukkustundir á nóttu hafa aukna matarlyst sem getur orsakað þyngdaraukningu og þunglyndi, hjartavanda og sykursýki 2,“ segir Alon Y. Avidan hjá UCLA Sleep Disorders Center.

Hann ráðleggur einnig fyrir svefn að forðast eigi áfengi, mat, nikótín, erfiðar samræður og koffíndrykki. Hann segir einnig að reglulegur svefntími sem fari fram í rólegheitum sé nauðsynlegur og svefnherbergið sé eingöngu fyrir svefn, kynlíf og veikindi.

Tengstu sjálfri þér

Sem mamma er auðvelt að gleyma sér í daglegri rútínu, að skutla og sækja, þvo þvott, elda, borga reikninga, þrífa og þessháttar. Áður en þú veist af eru 10 ár liðin og þú ert bara skelin af sjálfri þér. Ráðleggingar? Finndu þér áhugamál eða ræktaðu þau. Haltu dagbók. Hugleiddu. Hvaðeina sem færir þér gleði: „Við erum að þróast í gegnum allt lífið og að vera í sambandi við okkar innra sjálf og það sem hvetur okkur áfram er það sem heldur okkur lifandi og glöðum,“ segir Julie að lokum.

Heimild: Lisa Bench/Parents.com

Pin It on Pinterest

Share This