Framkoma foreldra við vini barnanna skiptir miklu máli
Alma Rut skrifar: Þegar ég var lítil átti ég góða vinkonu. Við kynntumst þegar við vorum sex ára og við vorum saman í skóla. Vinkona mín átti mömmu sem var alveg ótrúlega góð við mig. Ég man svo vel eftir því hvernig mér leið heima hjá þeim og í kringum þau. Ég var alltaf svo velkomin og ég fann það. Ég í alvöru fann það.
Einu sinni þegar ég átti níu ára afmæli tóku vinkona mín og mamma hennar sig saman og komu mér á óvart með afmælisgjöf. Gjöfin var samverustund með þeim, dagur þar sem ég og þær vorum að gera eitthvað skemmtilegt saman. Dagur sem fór í að njóta, verja tíma saman, gleðjast og hafa gaman. Afmælisgjöfin var ekki dót, ekki föt, ekki hlutur heldur tími, minningar, samvera, leikur og gleði.
Mamma vinkonu minnar var perla, algjör perla. Hún átti það til að sitja heilu stundirnar og horfa á okkur sýna leikrit eða tískusýningu. Það var mikið umstang í kringum þessar sýningar og föt út um allt, en mamma vinkonu minnar var með fókusinn á okkur, gleðinni sem fylgdi því sem við vorum að gera og í hennar augum skiptu fötin sem lágu á gólfinu eftir okkur ekki máli heldur við. Tvær litlar stelpur að hlæja, brosa og leika sér.
Mamma vinkonu minnar var mjög dugleg að taka mig með út um allt og ekki var ég fyrirferðarlítil! Ég fór stundum með þeim í ferðalög. Ég man að í eitt skipti þegar við vorum í ferðalagi ákváðu þau að taka ljósmynd í fallegri fjöru með svörtum sandi. Ljósmynd sem þau ætluðu svo að stækka í ramma. Þegar í fjöruna var komið þá fundu þau stað og vinkona mín stillti sér upp fyrir myndatöku. En þegar hún var búin þá var komið að mér. Þannig var þetta alltaf, ég var alltaf með, ég var alltaf líka. Seinna fengum við vinkonurnar stækkaða mynd af okkur í sitthvoru lagi, brosandi sælar í svörtum sandi.
Mér þykir svo mikið vænt um hvernig þau voru við mig, hvernig þau létu mér líða og hvernig þau tóku mér. Mér þykir lika svo vænt um hvað þau gáfu mér mikið af skemmtun, gleði og hamingju inn í lífið og fullt af dásamlegum minningum.
Vinir barnanna okkar skipta okkur máli, og skipta börnin okkar máli. Það hvernig við tökum á móti þeim og hvernig við erum þegar þeir eru inni á okkar heimili skiptir lika máli. Ég held í alvöru að ein af ástæðunum, og bókað ein stærsta ástæðan fyrir því að ég hef alltaf verið mjög dugleg að bjóða vinum minna barna heim til okkar og með okkur sé út af mömmu vinkonu minnar, því ég man hvað það skipti mig miklu máli.
Alma Rut heldur úti síðunni Leikum okkur sem snýst um samveru með börnunum okkar og hvað er sniðugt að gera.
Smelltu á samfélagsmiðlahnappana að neðan til að fara inn á Instagram og Facebooksíður Ölmu!