Gleðiskruddan: Hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði fyrir börn

Gleðiskruddan er dagbók fyrir börn á aldrinum 6-15 ára sem byggir á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði. Það er mikilvægt fyrir börn og ungmenni að hafa tækifæri til að efla sjálfsþekkingu sína sem hjálpar þeim um leið að takast á við verkefni og áskoranir daglegs lífs. Aðferðir innan jákvæðrar sálfræði geta stuðlað að persónulegum vexti og bjóða upp á möguleika fyrir einstaklinga að blómstra. Svokölluð jákvæð inngrip eða gleðiverkfæri hafa reynst áhrifarík í að viðhalda hamingju og öðrum jákvæðum tilfinningum ásamt því að minnka einkenni þunglyndis og kvíða.

Upphaflega var bókin lokaverkefni Maritar Davíðsdóttur og Yrju Kristinsdóttur úr diplómanámi í jákvæðri sálfræði á meistarastigi. Þær fengu svo góð viðbrögð frá foreldrum þar sem bókin bæði jók hamingju og vellíðan barnanna sem og samveru barns og foreldris. Þær fundu að það væri sannarlega þörf fyrir bók af þessu tagi og héldu því áfram að stækka bókina og fór hún frá því að vera hefti í að vera 176 blaðsíðna bók. Þær fengu til liðs við sig Helgu Valdísi Árnadóttur sem myndskreytti og Matthildi Lárusdóttur til að sjá um umbrotið. Bókina gáfu þær sjálfar út í júní 2021 og hafa viðtökurnar og salan farið fram úr þeirra björtustu vonum. Fyrsta upplag Gleðiskruddunnar seldist upp á skömmum tíma og eru þær komnar langt á leið með annað upplagið.

Yrja & Marit á góðri stundu

Yrja & Marit á góðri stundu

Dagbókin telur 100 daga þar sem jákvæða inngripið þrír góðir hlutir eru í forgrunni. Þar skráir barnið niður þrjá góða hluti sem áttu sér stað þann daginn. Dögunum er skipt upp í 21 þema; tilfinningar, styrkleika, hamingju, bjargráð við streitu og kvíða, gróskuhugarfar, trú á eigin getu, sjálfstal, sjálfsvinsemd, markmið, seiglu, svefn, hreyfingu, útiveru, núvitund, öndun, að njóta, flæði, þakklæti, góðvild, bjartsýni og von. Hvert og eitt þessara þema er útskýrt á einfaldan hátt til að auðvelt sé að nýta þau í daglegu lífi.

Á hverjum degi má einnig finna gleðimola eða gleðifræ dagsins sem tengist þemanu hverju sinni í formi hugleiðinga, tilvitnana, áskorana og æfinga.

Markmið Gleðskruddunnar er að efla sjálfsþekkingu, trú á eigin getu og þrautseigju, ásamt því að auka jákvæðar tilfinningar, bjartsýni og vellíðan.

Gleðiskruddan hefur vaxið ansi hratt á fáum mánuðum og bjóða Yrja og Marit einnig upp á námskeið fyrir börn og ungmenni, bæði helgarnámskeið og lengri námskeið. Einnig bjóða þær upp á örnámskeið fyrir grunnskólanemendur sem og fyrirlestra fyrir foreldra og þá sem vinna með börnum og ungmennum. Innan skamms verða sumarnámskeiðin hjá Gleðiskruddunni auglýst en þar er lögð áhersla á gleði og að hafa gaman og er blandað saman fræðslu og leik. Ef veður leyfir er einnig farið út í náttúruna.

Nánari upplýsingar um Gleðiskrudduna og tengda starfsemi er hægt að finna á glediskruddan.is.

Gleðiskruddan er einnig á Facebook og á Instagram:

 

Pin It on Pinterest

Share This