Yndislegar handprjónaðar peysur frá NóNa
NóNa er fallegt íslenskt hönnunarmerki sem er í eigu Sifjar Vilhjálmsdóttur en hún á heiðurinn af allri hönnun og handverki undir merki NóNa. Sif stundar fullt nám í Háskóla Íslands og bíður þar að auki eftir komu fyrsta erfingjans. Á milli verkefna og prófa grípur hún í prjónana til að anna pöntunum og til að eiga lager því peysurnar hennar og fylgihlutir hafa svo sannarlega átt velgegni að fagna.
Ég var búin að dást af peysum Sifjar í dágóðan tíma áður en ég, eða réttara sagt Eric litli 2ja ára snúllinn minn, eignaðist slíka og maður minn hvað við erum ánægð með peysuna! Peysurnar og fylgihlutirnir hjá Sif er allt handprjónað úr Merino ull sem er bæði mjúk og hlý og umfram allt þá stingur hún ekki sem mér finnst vera lykilatriði. Peysurnar koma í nokkrum stærðum og litum og hægt er að panta trefla og húfur í stíl.
Ég spurði Sif aðeins út í hvað varð til þess að hún fór að hanna og prjóna peysur og fylgihluti svona samhliða fullu námi og hvaðan nafnið NóNa er komið?
“Ég hef alltaf verið mikil prjónakona og langaði að hanna mína eigin línu svo ég ákvað að slá til. Það var hellings vinna í kringum þetta, spá í garni, stærðum, merkingum og fleira en alveg þess virði. Nafnið NóNa kemur frá ömmu minni, Jóneu, sem var alltaf kölluð Nóna og var mikil prjónakona svo mér fannst nafnið alveg tilvalið. Þar sem allt er handprjónað er þetta svolítið púsluspil með skólanum en ég gríp alltaf í prjónana þegar ég hef lausan tíma. Væri voða gott að vera með aukahendur stundum”, segir Sif kímin.
Núna í Október rennur 10% af söluandvirði af bleikum flíkum beint til Ljóssins. Allar upplýsingar er hægt að nálgast á Facebook síðu NóNa.
Auður Eva