Heiðdís Halla: „Helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu“

Heiðdís Halla rekur hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og heldur úti vefsíðunni www.artless.is þar sem hún selur sína fallegu hönnun. Mamman var að skrolla á Instagram, eins og svo oft áður, í leit að skemmtilegum viðmælendum þegar hún rakst á reikninginn hennar Heiðdísar Höllu. Við fengum að senda á hana nokkrar spurningar og hér situr hún fyrir svörum. 

Hver er Heiðdís Halla?

„Ég er helmingsblanda af heimsborgara og sveitatúttu. Ég er fljótfær með fullkomnunaráráttu. Mamma segir að ég sé „fegurðarsjúklingur”, það er líklega rétt hjá henni. Ég trúi því að maður eigi að gera það sem mann langar, fylgja hjartanu, það gerir það enginn fyrir mann þó svo gott fólk geti stutt mann áfram,” segir Heiðdís og heldur áfram.

„Ég er uppalin á Egilsstöðum, farin að heiman sextán ára með fiðrildi í maganum. Hef búið síðan á Akureyri, í París, Kaupmannahöfn, Reykjavík, og er nýlega flutt aftur heim í faðm fjölskyldunnar á Egilsstöðum og verð hér þangað til annað kemur í ljós.

Ég hef tekið að mér allskonar verkefni og hef unnið á mörgum stöðum. Flugfreyja, þjónustufulltrúi í banka, hótelstýra, ræstitæknir, afgreiðsludama í sjoppu og verslunarstjóri í tískubúð, kennari svo eitthvað sé nefnt. En ég er með stúdentspróf af málabraut Menntaskólans á Akureyri, með BA próf í frönsku og diplóma í kennslufræði. Ég elska að kenna. Ég er líka menntaður grafískur hönnuður. Ástríða mín er að skapa og hanna. Ég held að minn kaótíski lífstíll og stefna hafi gefið mér skilning og næmni á alls konar fyrirbæri og fólk sem nýtist mér í minni sköpun,” segir Heiðdís. 

„Í dag rek ég mitt eigið hönnunarfyrirtæki á Egilsstöðum og vefverslunina www.artless.is þar sem ég sel mína eigin hönnun.“

Segðu okkur frá artless:

„artless er vörumerkið mitt. Ég valdi nafnið þegar ég ákvað að opna vefverslun með minni eign hönnun. Mig langaði að skapa eigið nafn/vörumerki án þess að hafa eiginnafnið mitt á öllu og á bak við allt. Ég er með fullt af hugmyndum um hvert ég vil fara með vefverslunina og ætla mér að þróa hana áfram.

Mér fannst enska orðið artless ná vel utan um vörumerkið og  hönnun mína. Artless þýðir í raun; laus við tilgerð, einfalt, náttúrulegt en það getur líka þýtt laust við list og mér finnst það kallast skemmtilega á við að ég vinn flest mín verk í tölvu.“

Þegar Heiðdís Halla byrjaði í myndlistarskólanum á Akureyri var hún fyrst skráð í fagurlistadeild en fann fljótlega að önnur deild heillaði hana meira: „Ég byrjaði í fagurlistadeild en eftir einhverja mánuði fann ég mjög sterkt að ég var ekki endilega á réttum stað og fékk að skipta yfir í grafíska hönnun sem ég er mjög þakklát fyrir. Ég fann það strax að ég hafði breytt rétt og hef alltaf verið sátt við að hafa skipt milli deilda. En það er svolítið undarlegt að í grafískri hönnun leitast ég mest í að skapa list, og nálgun mín er líklega blönduð nálgun af grafík og list.”


Ljósmynd/Sigga Ella

Heiðdís Halla opnaði artless.is á afmælisdaginn sinn, 4. september 2020, svo vefverslunin er ekki orðin ársgömul: „Móttökurnar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum og gefið mér byr undir báða vængi til að halda áfram að skapa, hlusta á innsæið og framkvæma. Maður á að framkvæma ef mann langar til þess. Maður þarf að bera virðingu fyrir ferlinu og leyfa hlutunum að þróast. Ég er rosalega óþolinmóð og ég vil alltaf gera allt strax en ég er orðin betri í að muna að góðir hlutir gerast hægt. Ég er með margar hugmyndir og mörg járn í eldinum en ætla að leyfa mér að hafa tímalínuna á mínum forsendum þar sem ég sé um allt sjálf innan fyrirtækisins, nema að ég er reyndar með bókara í vinnu sem sér um pappírana, annars væri allt í rugli,” segir Heiðdís Halla og hlær.

Hvað veitir þér innblástur í þinni hönnun?

“Ég held að ég sé alltaf að leita að innblæstri og ég horfi og pæli mikið í litum og litasametningum. Ég tek myndir af áhugaverðum litasamsetningum, fjöllum og því sem vekur áhuga minn hverju sinni og styðst oft við þær myndir ef mig vantar kraft eða innblástur. Ég les mikið af hönnunarblöðum og skoða hönnunarsíður á netinu og er voða mikið með hausinn stilltan á innblásturs- og hugmyndaleit alla daga. Ég elska líka að keyra ein. Bara keyra og horfa. Þá koma oft hugmyndirnar bara sjálfkrafa til mín.”

Upplifir þú það hamlandi eða styrkjandi að koma hönnun þinni og verkum á framfæri búandi í litlu bæjarfélagi út á landi?

„Þetta er frábær spurning. Nefnilega bæði! Það er klárlega jákvæðni og kraftur sem ég fæ frá fólkinu í kringum mig hér úti á landi og fólk er mjög reiðubúið til að aðstoða og styðja mig og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég vil líka nýta þá þjónustu sem er í boði á svæðinu við framleiðslu á vörunum þá er ég að  hugsa um vistsporið sem framleiðslunni og flutningunum fylgir og um að styrkja atvinnulífið á svæðinu,“ segir Heiðdís Halla.

„En það er nú bara þannig að ég fæ ekki næstum því allt sem mig vantar hér. Hvorki þjónustu né hráefni og því þarf ég að sækja margt til Reykjavíkur eða Akureyrar. Það er líka mjög dýrt að fá hluti senda og þegar ég kaupi textíl, plakathólka, sérstakan pappír, prentun á ál og allskonar þjónustu. Kostnaðurinn er alltaf miklu hærri út af flutningskostnaði sem hægt væri að sleppa við ef ég byggi í Reykjavík. Það munar helling. Þar að auki get ég ekki skotist með pakkana sjálf í heimkeyrslu í borginni, en þangað fara langflestar vörurnar, allt fer með póstinum suður. Stundum þarf ég líka að leggja allt mitt traust á einhvern í símanum sem segir mér hvernig eitthvað muni koma út eða muni virka og svo vona ég bara það besta, það getur líka verið dýrt spaug þó það gangi líka oft upp. Ég þarf að vera þolinmóð og anda því hlutirnir taka bara hreinlega lengri tíma vegna alls konar flækjustiga. En ég er orðin sjóuð í að gera lista og gjörnýti allar mínar ferðir til að skoða og ná í það sem mig vantar. Þannig að þessi frábæra spurning er með allskonar svör. Ég gæti eflaust framkvæmt hraðar og meira ef ég byggi enn í borginni. Það þýðir ekkert að hugsa bara um það og gera ekkert. Maður nýtir það sem maður hefur og nær í hitt, þó það taki lengri tíma og sé dýrara, þá er það bara það sem þarf að gera til að framkvæma það sem mann langar til!” segir Heiðdís Halla að lokum.

Ljósmyndir Auðunn Nilsson og í einkaeigu.

Smellið á hnappana að neðan til að skoða Facebook- og Instagramsíður Artless.

Pin It on Pinterest

Share This