Hinar ómögulegu kröfur sem lagðar eru á mæður

Konur og sérstaklega mæður eru undir miklu álagi að standa sig, hvar sem er, hvenær sem er. Alla daga krefst samfélagið þess að við lítum vel út og hegðun okkar er dæmd (hvort sem við viðurkennum það eður ei).

Dr. Caitlin Zietz skrifaði frábæran pistil um móðurhlutverkið, sem kannski margir hafa lesið, en fellur alls ekki úr gildi. Hún útskýrir hið ómögulega verkefni hvernig það væri að reyna að þóknast öllum hvernig ala eigi upp börnin og vera móðir.

Vertu ólétt. Eignastu börn. En ekki of snemma. Og ekki of seint. Einhversstaðar milli 27-35 ára er fínt. 25 er svo ungt að eignast börn. Yfir 35 er bara öldrunarmeðganga. Eignastu barnið á eðlilegan hátt. Það ætti að verða auðvelt. Allir verða óléttir einhverntíma.

Misstirðu barn? Ekki hafa áhyggjur, það gerist. Þessu var ekki ætlað að gerast. Þetta er eðlilegt. Þú eignast annað og gleymir þessu öllu. Ekki fara í uppnám. Ekki vera reið. Næst skaltu ekki láta neinn vita fyrr en 12 vikur eru liðnar. Njóttu næstu meðgöngu. Ekki vera kvíðin. Allt verður í lagi.

Betra er að vera í formi þegar þú ert ólétt. Ekki samt í of góðu formi, þú gætir meitt barnið. Borðaðu grænmeti. Borðaðu kjöt. Taktu vítamín. Ekki þessi, heldur þessi. Bættu á þig. Ekki samt of mikið, þú átt svo erfitt með að grennast eftir að þú ert búin að eiga. Ekki drekka kaffi. Drekktu meira vatn. Ekki stressa þig, það meiðir barnið. Ertu ekki stressuð? Fæðing er ógnvekjandi.

Veistu kynið? Ég trúi ekki að þú „verðir ekki að vita það“. Eruð þið búin að velja nöfn? Ekki velja nafn fyrr en þú hittir barnið. Ertu með fyrsta flokks vöggu, bílstól, rassakrem, bleyjupoka? Af hverju eyddirðu svona miklu? Minna er meira.

Fæddu á eðlilegan hátt. Pottþétt fáðu þér mænudeyfingu. Fórstu í keisara? Voru ekki aðrar leiðir? Gefðu barnið brjóst, það er best. Barnið þitt er of stórt. Barnið þitt er of lítið, þú þarft að gefa því þurrmjólk, það nærist ekki nóg. Barnið þitt grætur mikið. Notaðu snuddu. Ekki nota snuddu, það truflar brjóstagjöfina. Barnið þitt ætti að sofa meira. Þú ættir að sofa meira. Sofið saman. Bíddu, ekki gera það. Láttu barnið gráta þar til það sofnar. Ekki láta barnið gráta þar til það sofnar, það er hættulegt.

Ekki hlusta á innsæið. Þú ert of þreytt. Sofðu þegar barnið sefur. En náðu að gera þetta allt í dag. Það eru sex vikur síðan þú áttir. Þú ættir að „ná í líkamann þinn aftur.“ Farðu í ræktina. Ekki í þessa rækt, það er hættulegt. Elskaðu líkamann þinn. Slitnaðirðu?

Þú ættir að vera glöð. Af hverju ertu leið? Þú ert svo heppin að eiga barn. Af hverju ættirðu að vera kvíðin? Ekki öskra. Vertu róleg. Þú ert of róleg. Agaðu barnið þitt. Hlustaðu á barnið þitt.

Byrjaðu að gefa mat snemma. En bíddu þar til eftir sex mánaða. Maukaðu matinn. Það er betra fyrir þroskann og reynsluna. Barnið þitt gæti kafnað. Byrjaðu á banana. Banani er of sætur. Byrjaðu á einhverju sem er minna sætt. Ekki nota salt. Ekki nota krydd. Barnið þitt vill ekki borða því það er ekkert bragð af matnum.

Hafðu börnin heima. Þau eru lítil í svo stuttan tíma. Þú ættir að vera að vinna. Hvernig komist þið af þegar þú ert ekki að vinna? Pabbinn er heima? Það er nýtt.

Gefðu brjóst í tvö ár. Notaðu pumpu. Hvernig hefurðu tíma til að nota pumpu? Hefurðu ekkert að gera.

Þú virðist hafa þetta allt á hreinu! Þú lítur út fyrir að þurfa hjálp. Það er ekkert mál að vera mamma. Hlustaðu á innsæið.

Þetta er andlegt áreiti sem lagt er á mæður í nútímasamfélagi sem veit gersamlega „allt.“

Heimild: Mother.ly

 

 

Pin It on Pinterest

Share This