Hvenær á að færa barnið úr rimlarúmi í stærra rúm?

Það er enginn sérstakur tími heilagur hvenær færa skal barn úr rimlarúmi yfir í venjulegt rúm, þrátt fyrir að flest börn skipti frá aldrinum eins og hálfs til þriggja og hálfs.

Það er oftast best að bíða þar til barnið nálgast þriggja ára aldurinn þar sem mörg lítil hjörtu eru ekki tilbúin í þessa breytingu. Auðvitað þarftu samt að færa barnið þegar það er orðið of stórt eða hreyfir sig of mikið fyrir rimlarúmið.

Margir foreldrar skipta því þeir eru hræddir við að smábarnið klifri eða hoppi úr rimlarúminu – og það getur verið hætta á ferð. Það er samt best að bregðast ekki við klifri eða slíku með einhverri skelfingu.

Ekki flýta þér út og kaupa rúmið í fyrsta sinn er barnið klifrar upp úr rúminu. Það kann að vera að það sé ekki tilbúið að skipta og það gæti skapað hættu ef það er vakandi og á ferðinni þegar aðrir eru steinsofandi. Kauptu þér smá tíma með því að færa dýnuna í neðstu stillingu þannig rimlarnir séu hærri og erfiðara sé að klifra upp úr því.

Önnur ástæða þess að foreldrar vilja skipta yfir í rúm er þegar von er á systkini. Ef þetta er raunin skaltu skipta sex til átta vikum áður en nýja barnið kemur. Þú vilt að smábarnið sé vel vant nýja rúminu áður en það sér systkinið taka yfir „hans“ eða „hennar“ rúm. Það fer auðvitað eftir aldri barnsins en svo væri einnig hægt að bíða með breytinguna þar til nýja barnið er þriggja eða fjögurra mánaða gamalt. Nýja barnið mun hvort eð er sofa í vöggu þannig eldra barnið þarf að venjast líka og það verður þá einfaldara að skipta yfir í stærra rúm þegar það gerist.

Vertu viss um að skipta um rúm þegar barnið er tilbúið frekar en það þurfi að „losa“ rimlarúmið. Margir foreldrar hafa komist of seint að því að einfaldara hefði verið að fá lánað annað rúm eða kaupa heldur en að færa það áður en barnið varð tilbúið í það.

Sum börn eiga mjög auðvelt með þessa breytingu á meðan öðrum finnst það erfiðara. Öll börn eru einstök og engin ein rétt leið. Það er samt ekki óalgengt að fyrsta barn muni vera ósátt við breytinguna. Það kann að vera mjög háð rúminu sínu. Þetta er samt bara eitt af því sem smábarnið þarf að venjast, enda mikið um breytingar á þessu aldri – fara að nota klósett, byrja í leikskóla og fleira.

Ef nýtt barn er á leiðinni gæti eldra barnið verið mjög passasamt um sína hluti, líka rúmið. Ef barnið á eldri systkini finnst því kannski ekkert mál að fara í venjulegt rúm þar sem eldri systkinin eru í slíkum rúmum. Þau eru kannski spennt að færa sig úr „barnarúminu“ í rúm fyrir stóra krakka!

Til að gera breytinguna einfaldari, settu nýja rúm barnsins á sama stað og rimlarúmið var. Kannski viltu hafa teppið úr eldra rúminu í því nýja, það kann að veita barninu öryggi. Ekki gleyma að hafa öryggisgrind á nýja rúminu svo barnið detti ekki úr því.

Þú getur gert barnið spennt fyrir nýja rúminu með því að fara með því í búð að velja rúmið eða sýna því, ef þú færð það notað. Leyfðu barninu að velja sængurföt og hvettu það til að sýna vinum og fjölskyldu nýja rúmið þegar þau koma í heimsókn.

Ef þú sérð að þú hefur skipt of snemma og barnið er í uppnámi, leyfðu því samt að hafa sinn gang í einhvern tíma. Hvettu barnið til að nota rúmið. Ef það er enn í uppnámi eftir einhverja daga, leyfðu því að sofa í rimlarúminu.

Sum smábörn eru bara ekki tilbúin í venjulegt rúm. Það þarf ákveðinn þroska fyrir barnið að átta sig á að það þarf að dveljast í þessu rúmi og má ekki bara fara á flandur. Ef barnið á allt í einu í erfiðleikum með að sofna á kvöldin, þarf oft að fara fram úr, fer á flandur eða annað er það kannski ekki tilbúið fyrir sitt eigið rúm.

Eins og með að venja á kopp er stundum þess virði að taka eitt skref aftur á bak og reyna aftur seinna. Vertu bara viss um að þú kynnir rimlarúmið ekki aftur til sögunnar sem einhver vonbrigði eða refsingu.

Að lokum, mundu að þessi breyting er líka þér mikils virði. Barnið þitt er að stækka! Mundu þegar þú settir barnið í rimlarúmið í fyrsta sinn. Þetta gerist svo hratt – njóttu þess líka.

Pin It on Pinterest

Share This