Hvernig kenna skal börnum samkennd

Mannfólkið er í grunninn samúðarfullt og finnur fyrir hluttekningu, þ.e. það skynjar hvað aðrir ganga í gegnum. Samt sem áður eru börn þarna undantekning, enda ekkert skrýtið við það! Þau þurfa að læra það hjá foreldrunum.

Ef barnið þitt lemur systur sína er hægt að segja: „Það meiðir þegar þú slærð frá þér. Svona á að snerta á góðan hátt. Finnurðu hvernig þér líður vel?“ Þetta tekur tíma að ná í gegn, en er þess virði.

Hvað hægt er að gera til að kenna samkennd?

Nefndu tilfinninguna

Með því að nefna hlutina réttum nöfnum, s.s. hegðun barnsins ertu að kenna því að bera kennsl á tilfinningar sínar. Segðu: „Alex, þú ert svo góður,“ ef hann kyssir á „bágtið“ þitt. Hann lærir frá viðbrögðum þínum að gæska hans er vel metin og eftir góðri hegðun er tekið.

Það þarf einnig að kenna börnum neikvæðar tilfinningar þannig ekki hika við að benda rólega á þegar þau sýna ekki góðvild. Reyndu að segja eitthvað á borð við: „Bróðir þinn varð mjög leiður þegar þú tókst bílinn hans af honum. Hvað gætir þú gert til að láta honum líða betur?“

Fagnaðu góðri hegðun

Þegar barnið þitt hegðar sér vel og sýnir góðvild, segðu því hvað það gerði rétt. Reyndu að vera eins nákvæm/ur og hægt er: „Þú varst mjög góð/ur að deila bangsanum þínum með litlu systur þinni. Það gerði hana mjög glaða. Sérðu brosið hennar?“

Hvettu barnið til að tala um tilfinningar sínar – og þínar

Láttu barnið vita að þú hlustir á það þegar það talar um tilfinningar sínar. Horfðu í augu þess þegar það talar og umorðaðu það sem það segir. Ef barnið hrópar: „Húrra!“ til dæmis, skaltu segja: „Ó, þú ert glöð í dag!“ Þó það svari ekki eða viti ekki hvernig á að bregðast við mun það ekki eiga í erfiðleikum með að ræða um að því líður vel.

Þú skalt líka deila þínum tilfinningum með barninu: „Ég er leið því þú slóst mig. Við skulum finna aðra leið til að þú getir sagt mér frá því að þú viljir ekki vera í þessum skóm.“ Barnið lærir þá að athafnir þess hafa áhrif á aðra, sem er dálítið stór hlutur fyrir barn að átta sig á.

Bentu á hegðun annarra

Kenndu barninu þínu að taka eftir þegar aðrir sýna góðmennsku. Segðu t.a.m. „Manstu eftir konunni í búðinni sem hjálpaði okkur að taka upp matinn þegar ég missti pokann minn? Hún var mjög góð við okkur og hún lét mér líða betur þegar mér leið illa.“

Með því að benda barninu á slíkt, ýtir þú undir skilning barnsins á hvernig gjörðir annarra hafa áhrif á okkur tilfinningalega. Bækur eru líka góðir kennarar, ef einhver týnir hundinum sínum í sögunni getið þið rætt hvernig honum eða henni kunni að líða, og þú getur spurt barnið hvernig því myndi líða lenti það í svipuðum aðstæðum.

Svona samtöl munu hjálpa barninu að læra um annara manna tilfinningar og samsama sig með þeim.

Kenndu barninu kurteisi

Góðir siðir eru sígild leið til að sýna umhyggju gagnvart öðrum. Um leið og barnið getur tjáð sig á mæltu máli er sjálfsagt að kenna því „má ég“ og „takk fyrir“. Útskýrðu að þú viljir frekar hjálpa því þegar það er kurteist og þér finnist vont þegar barnið skipar þér fyrir. Og að sjálfsögðu setur þú fordæmið sem foreldri með því að þakka fyrir þig og sýna almenna kurteisi!

Þannig lærir barnið að slík hegðun er hluti mannlegra samskipta, bæði heima sem og annars staðar.

Ekki nota reiði sem stjórnunartæki

Þrátt fyrir að erfitt sé að hemja reiðina þegar barnið þitt gerir eitthvað mikið af sér er það mjög nauðsynlegt. Þú verður að kenna með fordæmi og leiðbeiningum, það er mun öflugra tæki. Ef þú segir við barnið: „Ég er mjög reið/ur út í þig“ getur barnið bakkað og lokað á þig. Þess í stað skaltu sýna barninu samkennd. Róaðu þig niður og segðu ákvðið: „Ég veit þú varst reið, en þú ættir ekki að slá bróður þinn. Það meiddi hann og ég er leið. Vinsamlega biddu hann afsökunar.“

Gefðu barninu lítil verkefni

Rannsóknir sýna að börn sem læra að taka ábyrgð læra einnig að bera umhyggju fyrir öðrum og ósérplægni. Litlar manneskjur elska að leysa af hendi lítil verkefni, s.s. að gefa gæludýrinu að borða. Svo elska þau líka að fá hrósið! „Sjáðu hvað Krummi er glaður að fá að borða! Hann dillar skottinu! Þú ert svo góð/ur við hann. Hann er mjög glaður að þú sért að gefa honum að borða.“

Vertu góð fyrirmynd

Að sýna góðvild, kærleika og umburðarlyndi er besta leiðin til að kenna barni samkennd. Taktu barnið með þegar þú ert að færa veikum vini eða ættingja mat eða einhver í kringum þig eignast barn. Leyfðu barninu að hjálpa þér að pakka niður dóti sem þú ætlar að gefa í nytjamarkað. Þú getur útskýrt í leiðinni að stundum sé fólk veikt eða hafi ekki nóg af mat eða fötum þannig þú leggir þitt af mörkum til að hjálpa náunganum.

Heimild: BabyCenter Australia

Pin It on Pinterest

Share This