Í Eyjarfjarðarsveit, ca 10 kílómetra frá Akureyri, er að finna skemmtilegt fjölskyldurekið kaffihús. Einar Örn bóndi á Garði rekur, ásamt fjölskyldu sinni, einkar vel skipulagt mjólkurbú og á efri hæð fjóssins er skemmtilegt kaffihús, Kaffi kú, með útsýni yfir búið. Á Kaffi kú er flott leikaðstaða fyrir börnin og stórkostleg upplifun fyrir þau að fylgjast með starfsemi mjólkurbúsins með góðri yfirsýn yfir það sem þar fer fram en ég get alveg sagt ykkur að upplifun okkar fullorðna fólkisins var ekki síður skemmtileg og lærdómsrík.
Á matseðlinum hjá þeim er ýmislegt girnilegt að finna, maðurinn minn fékk sér nautaborgara, beint frá býlinu sjálfu, og þess má geta að hamborgarabrauðið hjá þeim er sykurlaust. Ég fékk mér ristað súrdeigsbrauð með birkireyktum silungi sem veiddur var og reyktur á Ólafsfirði. Í eftirrétt deildum við unaðslegri sykurlausri hráfæðisköku með örugglega besta rjóma sem ég hef smakkað!
Fjósið er opið fyrir gesti og gangandi og hægt er að fara niður og klappa kúm og kálfum.
Þau eru nú einstaklega fyrirhyggjusöm eigendur Kaffi kú og borgarstelpunni í hvítu Nike strigaskónum voru afhentar skóhlífar áður en haldið var af stað inn í fjósið. Ég hvet alla sem eiga leið norður að gera sér ferð á Kaffi kú. Þar er nú opið allt árið um kring, alla daga. Skemmtileg upplifun í Eyjafjarðardal en hér má finna meira um, www.kaffiku.is