Einfaldir hollustubitar fyrir sælkera

Einfaldir hollustubitar fyrir sælkera

Einfaldir hollustubitar fyrir sælkera

Mig langaði að deila með ykkur þessari uppskrift að hollustubitum, ég fór að hitta vinkonu um daginn og þá var þessi dásemd á boðstólnum. Ég fékk að sjálfsögðu uppskrift og nesti heim. Ykkur að segja var gotteríið jafnvel betra daginn eftir þegar það var búin að standa sólarhring inní ísskáp. Vinkona mín bar þessa uppskrift  fram í litlu eldfastmóti og bauð uppá þeyttan rjóma með. Þannig er hægt að bera hana fram bæði sem köku eða konfektmola sem er tilvalið að frysta og grípa í þegar hellist yfir mann nammilöngun.

Heilsukonfekt fyrir sælkera

  • 1 bolli sveskjur.
  • 1 bolli döðlur.
  • 1 bolli kókosflögur.
  • 1 poki valhnetur.
  • 1 vel þroskaður banani.
  • 100 gr. 70-85% lífrænt súkkulaði.
  1. Sveskjurnar og döðlurnar eru hitaðar í potti með smá vatni.
  2. Kókosflögurnar og valhneturnar eru létt “steiktar” á pönnu.
  3. Bananinn er stappaður og öllum hráefnunum er blandað saman í skál.
  4. Þar næst er blöndunni hellt í eldfastmót eða búnar til kúlur sem er raðað á ofnplötu.
  5. Súkkulaðið er brætt í vatnsbaði og hellt yfir blönduna, ef þú býrð til kúlur er gott að dýfa þeim í súkkulaðið.
  6. Kælt í ísskáp í ca 20 mínútur.

Njótið!

 

 

„No makeup makeup”, hið náttúrulega lúkk!

„No makeup makeup”, hið náttúrulega lúkk!

„No makeup makeup”, hið náttúrulega lúkk!

„Hvernig er hægt að farða sig án þess að það sé mjög sjáanlegt?” gæti líklega einhver spurt sig. Jú, það er hægt, en það er kúnst! No makeup, makeup væri kannski þýtt yfir á íslensku sem „farði án farða”, en það er sko aldeilis ekki rétt! Það væri kannski öllu nær að segja „förðun án sjáanleika”….eða eitthvað í þeim dúr. Við skulum bara halda okkur við enskuna og sletta aðeins og kalla þetta einfaldlega „no makeup, makeup”!

En hvað er no makeup, makeup ef í því eru notaðar förðunarvörur? Jú, það er lúkk sem gengur út á að undirstrika náttúrulega fegurð viðkomandi. Í því lúkki eru kannski engin sérleg boð eða bönn annað en að til þess það geti kallast no makeup, makeup þarftu að ná að draga fram alla fallegu eiginleikana þína með förðunarvörum án þess að förðunin sé áberandi! Hljómar einfalt…en er samt alveg pínu flókið!

Við ætlum hér að gefa nokkur góð ráð hvernig gott er að gera no makeup, makeup.

Notaðu léttan farða

Notaðu farða sem er léttur og hylur án þess að veita mikla þekju. Það gengur alls ekki að vera með of þykkt lag af farða til að ná þessu lúkki. Okkur finnst t.d. Face and Body farðinn frá MAC mjög góður í NMM eða Shiseido farðinn Synchro Skin Self Refreshing sem er einn af okkar uppáhalds, hann er einstaklega léttur og heldur sér vel yfir daginn. Hann hefur einnig sólarvörn númer 30. Shiseido Synchro skin númer 1.

Notaðu náttúrulega augnskugga

Gott er að hafa skyggingu sem er neutral, beige, brúna tóna sem gefa létta skyggingu.

Mjög vinsælir augnskuggar í no makeup makeup eru kremaugnskugganir Paint Pot frá MAC sem heita „Groundwork” og „Painterly”. Groundwork frá MAC númer 2.

Notaðu létta skyggingu

Það er algjör nauðsyn að skyggja kinnbein og ofan á enni ef ennið er hátt. Því þú vilt alls ekki virka „flöt” í framan. Notaðu sólarpúður eða kremskyggingu til að draga fram falleg kinn- og kjálkabein. Okkar allra uppáhalds um þessar mundir er Chanel kremsólarpúður og stiftið “Glow 2 Go” frá Clarins númer 02. Glow 2 Go stiftið frá Clarins er algjört möst í makeup-kittið, það er hægt að nota það í augnskyggingu, kinnalit, á varir og skyggingu á kinnbein. Clarins Glow 2 go er númer 3.

Náttúrulegar varir með ljósum gloss eða varalit

Glossinn getur þú notað á varirnar, á kinnbeinin og á augnlokin til að fá geggjaðan ljóma. Því þegar leitast er eftir náttúrulegu makeup-i viltu ná fram fallegum æskuljóma! Þú getur líka notað mildan varalit til að ramma inn fallegar varir. Clarins varagloss númer 4.

Fáðu þér gott rakasprey og svo er bara sprey, sprey, sprey on!

Gott rakasprey gerir gæfumun, ef þig langar að ná fram virkilega fallegu náttúrulegu lúkki er æðislegt að eiga gott rakasprey. Það er líka svo þægilegt og frískandi að spreyja framan í sig góðum raka. Hressir, kætir og bætir þreytta húð! 

Nip Fab C-vítamín mistið er einstaklega frískandi og fyrir þær sem fíla góðan sítrusilm er þessi algjört möst í töskuna. Nip Fab C-vítamín sprey númer 5.

Maskari er val!

Það er alls ekki nauðsynlegt að nota maskara í no makeup, makeup en það er algjörlega undir þér komið. Sumir kjósa maskara alltaf, aðrir eru með dökk augnhár og þurfa bara að bretta þau upp með augnhárabrettara og þá er það komið, VOILÁ! 

Ef þú kýst maskara er gott að hafa léttan maskara, alls ekki velja maskara sem þykkir eða lengir augnhárin því þá ertu búin að missa náttúrulega lúkkið. Eins er hægt að nota dökka skyggingu við efri augnháralínu og ramma þannig inn augnumgjörðina án þess að það líti út eins og eyeliner.

Að okkar mati er maskarinn frá Helenu Rubenstein frábær til að ná fram náttúrulegu maskaralúkki. Hann heitir Lash CC og kemur í túpu, einn sá besti fyrir þær sem vilja halda náttúrulegu lúkki augnhára dags daglega. Helena Rubenstein maskari er númer 6.

Þessi færsla er ekki kostuð. Höfundur færslunnar er nemandi í Make-up studio Hörpu Kára.

Ef þú leggur hjarta þitt í verkin þá ganga þau vel

Ef þú leggur hjarta þitt í verkin þá ganga þau vel

Ef þú leggur hjarta þitt í verkin þá ganga þau vel

Þórunn Eva G. Pálsdóttir fékk titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021, hún er gift Kjartani Ágúst Valssyni og saman eiga þau tvo syni Jón Sverrir og Erik Val. Hún er menntaður sjúkraliði og í lokaverkefninu sínu árið 2019 varð Mía Magic til. Kennarinn hennar hvatti hana til þess að taka þessa hugmynd skrefinu lengra og síðan hefur Mía þróast. Þórunn hefur gefið út bók um Míu og næst á dagskrá er að hefja sölu á fallegum Míu bangsa sem unninn er út frá teikningu Bergrún Íris Sævarsdóttir myndlistamans. 

Viltu segja okkur í stuttu máli hugmyndina á bak við Mía Magic, fyrir hvað það stendur og af hverju kviknaði sú hugmynd? 

Hugmyndin á bakvið Mia Magic hefur verið mér ofarlega í huga í mörg mörg ár þannig séð. Þó ég hafi kannski ekki endilega verið með skýra mynd af Mia Magic eins og það er í dag, þá hefur mig alltaf langað til að gera eitthvað hvað sem viðkemur langveikum börn og foreldrum þeirra. 

Þegar ég skrifaði lokaverkefnið mitt í sjúkraliðanáminu vorið 2019 varð Mía til. Lokaverkefnið fékk hæstu einkunn og hvatti Ágústa kennarinn minn mig til að láta verða að því að gefa út bókina MÍA FÆR LYFJABRUNN. Það er mikil þörf fyrir bættari fræðslu í samfélaginu okkar almennt séð og er hún alls ekki minna notuð innan veggja spítalans, fyrir litla fólkið okkar þar. 

Bergrún Íris Sævarsdóttir hjálpaði mér að láta Míu fæðast fyrir lokaverkefnið mitt og síðar teiknaði hún bókina Mía fær lyfjabrunn. Þetta er svona byrjunin á þessu ævintýri. Næst voru það Míuboxin sem fæddust óvænt þann 16. október 2020, nokkrum mánuðum eftir að bókin kom út. Ég fékk þá mjög mikla löngun til þess að færa Söru Natalíu, sem er ung skvísa sem var búin að vera berjast við krabbamein, smá pakka uppá spítala og úr varð fyrsta Míuboxið. Síðan þá höfum við gefið Míubox í hverjum einasta mánuði, bæði til foreldra og barna.

Næst voru það Míuverðlaunin, ég hafði haft þá hugmynd í maganum lengi og þegar ég viðraði hana við Fríðu Björk vinkonu mína í gönguferð þann 4. febrúar 2021 sagði hún bara strax já, gerum þetta. 

Fyrstu verðlaunin  voru síðan veitt í apríl 2021 og þau næstu í október 2021, þriðju verðlaunin fara svo fram í september 2022 og erum við á fullu að undirbúa þau nú þegar. Draumurinn með þessum verðlaunum var í raun og veru bara svo við foreldrar og börn sem sækjum mikið þjónustu í heilbrigðiskerfinu getum þakkað því heilbrigðisstarfsfólki fyrir sem kemur að umönnun og þjónustu barnanna okkar á einn eða annan hátt. 

Mig langaði líka til að gera allt jákvæðara í kringum þennan starfsvettvang því þetta er mjög krefjandi starf. Við erum oft á tíðum ekki í andlegu jafnvægi þegar börnin okkar þurfa á þessum fagaðilum að halda og því kannski ekki beint að þakka þeim fyrir aðstoðina. Við hinsvegar munum eftir þeim sem eru hvað best við okkur á erfiðum tímum og halda utan um okkur þegar enginn annar gerir það. Sama á við með börnin okkar.

Hvað er það mikilvægast við Mía Magic verkefnið?

Fyrir mitt leiti er það held ég að við mismunum engum það eru allir jafnir og það vantar svolítið hérna á íslandi að sameina krafta okkar og gera hlutina saman. Það gerir enginn stórkostlega hluti einn. Það þarf samvinnu til að hlutirnir virki og við gætum aldrei haldið Mia Magic gangandi nema fyrir allt það dásamlega fólk sem hjálpar mér og Fríðu alla daga. Það að einstaklingar og fyrirtæki taki svona vel í að hjálpa okkur að gleðja foreldra og börn á svona krefjandi tímum í lífi þeirra er það allra dýrmætast sem til er. Ef þú leggur hjarta þitt í verkin þá ganga þau vel. Ekki reyna að vera önnur/annar en þú ert. 

Nú eruð þið að fara að selja Míu bangsa, viltu segja okkur frá því skemmtilega verkefni? 

Já það er svo gaman, við fengum styrk hjá Velferðarsjóði Barna fyrir framleiðslu bangsanna. Ég ákvað það um leið og ég sá Míu í fyrsta sinn eftir að Bergrún teiknaði hana að hún yrði einn daginn að bangsa. Nú er það loks að verða að veruleika og er hægt að tryggja sér eintak inná vefversluninni hulan.is í forsölu. Þetta ferli er búið að taka heilt ár. Dimm verslun ætlar að hafa Míu bangsana í verslun sinni en þar hefur bókin okkar átt heimili síðan hún kom út. Það eru allar bækur fríar hjá Mia Magic því fræðsla á ekki að kosta. Bangsarnir koma núna 16.febrúar 2022. 

Hvað er framundan hjá Míu Magic? 

Framundan er hringferð með Míubox þegar aðeins fer að vora, við erum að undirbúa það á fullu en við fengum t.d í fyrra lánaðan bíl frá Öskju og N1 hjálpaði okkur með bensín. Þakklætið til þeirra er gríðarlega mikið því við erum jú bara að byrja og eru aðilar eins og Askja og N1 okkur ofsalega dýrmæt því við viljum halda þessu perósnulegu og færa börnum og foreldrum Míuboxin sín í eigin persónu. Við getum það ekki nema með hjálp. 

Það er bók á leiðinni á þessu ári. Bergrún er að lesa yfir hana í þessum skrifuðu orðum og að teikna smá fyrir mig svo ég geti farið að sýna ykkur og safnað styrkjum svo við getum drifið hana í framleiðslu og í hendurnar á litla fólkinu okkar. 

Það er margt á döfinni hjá okkur. Sumt sem við getum ekki alveg sagt frá strax en núna á næstu vikum segjum við frá hverjir ætla að kynna næstu Míuverðlaun og afhenda þau. Það er alltaf rosa skemmtilegt að deila því! Hæfileikaríka Iistakonan Inga Elín hannar fyrir okkur næstu Míuverðlaun og er það algjörlega tryllt staðreynd. Svo stolt af því að hafa hana með okkur.

Takk fyrir spjallið elsku Þórunn Eva, gangi ykkur allt í haginn með Míu Magic.

Geggjaðir Mocktails fyrir þyrstar mæður!

Geggjaðir Mocktails fyrir þyrstar mæður!

Geggjaðir Mocktails fyrir þyrstar mæður!

Úrvalið yfir vönduðu og spennandi óáfengum drykkjum hefur sjaldan verið jafn mikið. Við höfðum samband við hana Írisi Ann ljósmyndara og eiganda Luna Flórens og Coocoo’s Nest og fengum hana til að gefa okkur uppskriftir af geggjuðum „mocktails” sem hægt er að njóta með góðri samvisku um helgina.
 
„Þessir tveir drykkir eru einfaldir og góðir, eins og áherslan er á Ítalíu – þá er það er hráefnismagnið ekki það sem skiptir máli heldur gæðin, uppskriftin þarf ekki að vera flókin,” segir Íris Ann um þessa drykki.
 
Tveir laufléttir og fallegir drykkir 🍹
 
Óáfengt Prosecco frá Veneto auðvitað gott eitt og sér en einstaklega gott sem Mímósa og bragðast nánast eins og klassíski drykkurinn. Oddbird Prosecco og ferskur appelsínusafi, blanda saman ca 50/50.
 
Óáfengur Spritz með appelsínu- rósmarín líkjör frá Wilfreds blandað í Tonic ( eins og með Gin og Tonic skiptir máli að nota líka gæða Tonic (við mælum með Fever Tree) 1-2 skot af Wilfred blandað í Tonic.
 
„Svo er líka hægt að koma smakka hjá okkur á Luna Flórens og Coocoo’s Nest,” segir Íris að lokum.
 
Sölustaðir: Oddbird – Dimm, Epal, Kjötkompani (Hfj og Granda), Litla Hönnunarbúðin Hfj, Sælkerabúðin Bitruhálsi, Fiskkompaní Ak og Milli fjöru og fjalla Grenivík (auk hótela og veitingastaða). 
Wilfred’s: Krónan (Flatahrauni, Granda, Garðabæ og Lindum) og Fiskkompani Akureyri
 
 
 

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk Jóhannsdóttir er þrítug, gift, þriggja barna móðir og uppalið borgarbarn sem segist vera í smábæjarþjálfun í Grindavík. Katrín segist einnig vera algjört meðalljón þegar kemur að húsfreyjustöfum og að ritstörfin eigi mun betur við hana.
Ég hitti hana í Elliðadal ásamt börnunum hennar þremur og smellti nokkrum myndum af þeim saman enda eiga, að hennar eigin sögn, börnin stóran þátt í skrifum hennar. Katrín ber það augljóslega með sér að vera glaðlind og hvatvís. En í spjalli okkar um daginn og veginn sagðist hún vera mjög hvatvís manneskja að eðlisfari en taldi hún það jafnframt vera einn af sínum bestu kostum og eflaust væri hún ekki þar sem hún er stödd í dag ef það væri ekki fyrir þessa skemmtulegu hvatvísi.

Katrín segist hafa skrifað mikið sem barn, bæði sögur og ljóð og að það hefði verið hennar fyrsti og stærsti draumur að verða rithöfundur. En það var samt ekki fyrr en nýverið að hún áttaði sig á því að hún lifir í rauninni þeim draumi.

“Ég hef alltaf vitað að ég vildi reka mitt eigið fyrirtæki og stofnaði ég þó nokkur sem barn ásamt vinkonum mínum sem létu alls konar hugmyndir eftir mér, má þar nefna glasaskreytingaþjónustu fyrir matarboð nágrannanna, video-leigu í tjaldi, en aðeins bróðir minn verslaði við okkur og á enn eftir að greiða reikningin og hundagöngu” segir Katrín og hlær. “Það gleður mig því mjög að eiga Óskar-Brunn útgáfu en það er vettvangur fyrir mínar bækur, vörur sem eru tengdar þeim og allt annað sem mér dettur í hug að skapa! Þetta haust var besti tíminn til þess að stökkva út í þessa laug en ég hafði nægan tíma eftir að hafa misst vinnuna vegna fröken kórónu” segir Katrín.

Skrifaði bók ætlaða börnum með skilaboðum hvað er mikilvægast í lífinu
“Mömmugull bókin er algjörlega “platínan” mín, þó að Karólína könguló sé auðvitað ofboðslega krúttleg, litrík og skemmtileg. Ég er svo stolt af Mömmugull bókinni og hún á svo sérstakan stað í hjarta mínu en persónan er teiknuð upp eftir lýsingu á dóttur minni og svo hef ég ætíð kallað börnin mín Mömmugull.” Katrín segist hafa skrifað bókina því hana langaði að koma þeim skilaboðum á framfæri til barna að það skiptir ekki máli þó að þau eigi ekki það nýjasta, stærsta, dýrasta og besta af öllu.

“Það sem skiptir mestu máli er að eiga góða fjölskyldu og góða vini. Það er lífsins dýrmætasti fjársjóður og gefur okkur mesta ríkidæmið.”

Við búum í hröðum heimi sem staldrar sjaldan við, það þýðir að það er stöðugt streymi af nýjum vörum sem allar eiga að vera betri en sú síðasta. Okkar samfélag hér á Íslandi hefur svo í gegnum tíðina verið uppfullt af samkeppni og fólk stöðugt í samanburði en það er svo mikill streituvaldur. Mér þykir alltaf svo leitt að heyra af atvikum þar sem börn hafa t.d. lent í stríðni fyrir það eitt að eiga ekki nýjasta Iphone símann eða klæðast ekki merkjavörum. Ég vona að gildi Mömmugulls muni hafa áhrif á hugarfar lesenda og festa sig í minni barnanna sem taka það með sér inn í framtíðina” segir Katrín.

“Bókin mun svo fá tækifæri til þess að gera það sama úti í Ameríku, en ensk útgáfa af Mömmugulli kemur út þar á þessu ári undir heitinu “Mommy’s treasure”. Það var stór sigur fyrir mig að fá þann samning og sannaði enn betur fyrir mér hversu dásamleg bókin er, þó ég segji sjálf frá” segir Katrín frá.

Næst á dagskrá hjá Katrínu er að kynna fyrir þjóðinni nýju bókina sína “Ef ég væri ofurhetja” sem er einlæg bók sem beinir sjónum skólabarna að þeim skólasystkinum sem eiga erfitt. Ekki vegna eineltis eða stríðni, heldur vegna skorts á sjálfsöryggi sem veldur því að þau ná ekki tengingu við önnur börn.

“Ég skrifaði þá sögu því þetta er svo algengt, en oft mjög ósýnilegt. Einelti fær iðulega stærra sviðsljós og það er mikilvægt að sú vinna sem unnin er gegn einelti haldi áfram, en önnur félagsleg vandamál mega ekki týnast alveg bak við þykku sviðstjöldin” segir Katrín. “Það má segja að ég fái innblástur frá börnunum mínum, en ekki endilega því sem þau segja og gera. Ég hugsa um hvernig heim, umhverfi, samfélagi og menningu ég sjálf vil að þau alist upp í og upplifi. Hvernig hugsunarhátt vil ég að þau hafi og fái frá öðrum” segir Katrín með sannfæringu.

“Ef ég væri ofurhetja beinir ljósi á félagslegt vandamál sem fáir átta sig á að sé til, sérstaklega börn. Einelti fær yfirleitt meira sviðsljós, enda stórt vandamál, en svona félagsleg forðun og einangrun virðist stundum gleymast og kannski ekki talið vera raunverulegt vandamál af því að það er ekki sýnileg stríðni og enginn að gera á hlut þessarra barna” segir Katrín alvarleg.

“Ég trúi á mikilvægi sögunnar, sem ég lofa að er líka skemmtileg og framkallar bros! 
Ég vona að lesendur taki henni opnum örmum og að með hverju barni sem les bókina, fæðist ofurhetja. Það læddist að vísu mjög spennandi leyniverkefni með í þessarri sendingu sem ég hef stór áform fyrir og er yfir mig spennt fyrir. En það er svo ótrúlega mikilvægt og áhrifamikið verkefni að það á skilið sína eigin umfjöllun, svo þið verðið bara að splæsa í annað samtal við mig! Segir Katrín að lokum og hlær.

Það er virkilega gaman að fylgjast með hvað þessi unga kona er skapandi & mikill frumkvöðull og bíðum við spennt eftir því sem framundan er hjá Katrínu Ósk.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um bækur Katrínar inn á vefsíðu hennar www.oskarbrunnur.is einnig er hægt að versla bækur hennar í verslunum Pennans.

Pin It on Pinterest