Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu
Katrín Ósk Jóhannsdóttir er þrítug, gift, þriggja barna móðir og uppalið borgarbarn sem segist vera í smábæjarþjálfun í Grindavík. Katrín segist einnig vera algjört meðalljón þegar kemur að húsfreyjustöfum og að ritstörfin eigi mun betur við hana.
Ég hitti hana í Elliðadal ásamt börnunum hennar þremur og smellti nokkrum myndum af þeim saman enda eiga, að hennar eigin sögn, börnin stóran þátt í skrifum hennar. Katrín ber það augljóslega með sér að vera glaðlind og hvatvís. En í spjalli okkar um daginn og veginn sagðist hún vera mjög hvatvís manneskja að eðlisfari en taldi hún það jafnframt vera einn af sínum bestu kostum og eflaust væri hún ekki þar sem hún er stödd í dag ef það væri ekki fyrir þessa skemmtulegu hvatvísi.
Katrín segist hafa skrifað mikið sem barn, bæði sögur og ljóð og að það hefði verið hennar fyrsti og stærsti draumur að verða rithöfundur. En það var samt ekki fyrr en nýverið að hún áttaði sig á því að hún lifir í rauninni þeim draumi.
“Ég hef alltaf vitað að ég vildi reka mitt eigið fyrirtæki og stofnaði ég þó nokkur sem barn ásamt vinkonum mínum sem létu alls konar hugmyndir eftir mér, má þar nefna glasaskreytingaþjónustu fyrir matarboð nágrannanna, video-leigu í tjaldi, en aðeins bróðir minn verslaði við okkur og á enn eftir að greiða reikningin og hundagöngu” segir Katrín og hlær. “Það gleður mig því mjög að eiga Óskar-Brunn útgáfu en það er vettvangur fyrir mínar bækur, vörur sem eru tengdar þeim og allt annað sem mér dettur í hug að skapa! Þetta haust var besti tíminn til þess að stökkva út í þessa laug en ég hafði nægan tíma eftir að hafa misst vinnuna vegna fröken kórónu” segir Katrín.
Skrifaði bók ætlaða börnum með skilaboðum hvað er mikilvægast í lífinu
“Mömmugull bókin er algjörlega “platínan” mín, þó að Karólína könguló sé auðvitað ofboðslega krúttleg, litrík og skemmtileg. Ég er svo stolt af Mömmugull bókinni og hún á svo sérstakan stað í hjarta mínu en persónan er teiknuð upp eftir lýsingu á dóttur minni og svo hef ég ætíð kallað börnin mín Mömmugull.” Katrín segist hafa skrifað bókina því hana langaði að koma þeim skilaboðum á framfæri til barna að það skiptir ekki máli þó að þau eigi ekki það nýjasta, stærsta, dýrasta og besta af öllu.
“Það sem skiptir mestu máli er að eiga góða fjölskyldu og góða vini. Það er lífsins dýrmætasti fjársjóður og gefur okkur mesta ríkidæmið.”
Við búum í hröðum heimi sem staldrar sjaldan við, það þýðir að það er stöðugt streymi af nýjum vörum sem allar eiga að vera betri en sú síðasta. Okkar samfélag hér á Íslandi hefur svo í gegnum tíðina verið uppfullt af samkeppni og fólk stöðugt í samanburði en það er svo mikill streituvaldur. Mér þykir alltaf svo leitt að heyra af atvikum þar sem börn hafa t.d. lent í stríðni fyrir það eitt að eiga ekki nýjasta Iphone símann eða klæðast ekki merkjavörum. Ég vona að gildi Mömmugulls muni hafa áhrif á hugarfar lesenda og festa sig í minni barnanna sem taka það með sér inn í framtíðina” segir Katrín.
“Bókin mun svo fá tækifæri til þess að gera það sama úti í Ameríku, en ensk útgáfa af Mömmugulli kemur út þar á þessu ári undir heitinu “Mommy’s treasure”. Það var stór sigur fyrir mig að fá þann samning og sannaði enn betur fyrir mér hversu dásamleg bókin er, þó ég segji sjálf frá” segir Katrín frá.
Næst á dagskrá hjá Katrínu er að kynna fyrir þjóðinni nýju bókina sína “Ef ég væri ofurhetja” sem er einlæg bók sem beinir sjónum skólabarna að þeim skólasystkinum sem eiga erfitt. Ekki vegna eineltis eða stríðni, heldur vegna skorts á sjálfsöryggi sem veldur því að þau ná ekki tengingu við önnur börn.
“Ég skrifaði þá sögu því þetta er svo algengt, en oft mjög ósýnilegt. Einelti fær iðulega stærra sviðsljós og það er mikilvægt að sú vinna sem unnin er gegn einelti haldi áfram, en önnur félagsleg vandamál mega ekki týnast alveg bak við þykku sviðstjöldin” segir Katrín. “Það má segja að ég fái innblástur frá börnunum mínum, en ekki endilega því sem þau segja og gera. Ég hugsa um hvernig heim, umhverfi, samfélagi og menningu ég sjálf vil að þau alist upp í og upplifi. Hvernig hugsunarhátt vil ég að þau hafi og fái frá öðrum” segir Katrín með sannfæringu.
“Ef ég væri ofurhetja beinir ljósi á félagslegt vandamál sem fáir átta sig á að sé til, sérstaklega börn. Einelti fær yfirleitt meira sviðsljós, enda stórt vandamál, en svona félagsleg forðun og einangrun virðist stundum gleymast og kannski ekki talið vera raunverulegt vandamál af því að það er ekki sýnileg stríðni og enginn að gera á hlut þessarra barna” segir Katrín alvarleg.
“Ég trúi á mikilvægi sögunnar, sem ég lofa að er líka skemmtileg og framkallar bros! Ég vona að lesendur taki henni opnum örmum og að með hverju barni sem les bókina, fæðist ofurhetja. Það læddist að vísu mjög spennandi leyniverkefni með í þessarri sendingu sem ég hef stór áform fyrir og er yfir mig spennt fyrir. En það er svo ótrúlega mikilvægt og áhrifamikið verkefni að það á skilið sína eigin umfjöllun, svo þið verðið bara að splæsa í annað samtal við mig! Segir Katrín að lokum og hlær.
Það er virkilega gaman að fylgjast með hvað þessi unga kona er skapandi & mikill frumkvöðull og bíðum við spennt eftir því sem framundan er hjá Katrínu Ósk.
Hægt er að nálgast allar upplýsingar um bækur Katrínar inn á vefsíðu hennar www.oskarbrunnur.is einnig er hægt að versla bækur hennar í verslunum Pennans.