Kenndu leikskólabarninu þínu þessi 10 orð og líf þitt verður auðveldara!

Oft og mörgum sinnum höfum við sagt við börnin: „Þú verður að segja hvað þú vilt!“ Töfrar eru nefnilega fólgnir í að setja kringumstæður í orð. Allt í einu getum við sett nöfn á hluti og þetta hjálpar heilanum að þroskast og geyma upplýsingar, að búa til andleg skemu í heilanum.

Fyrir leikskólabörn breytir það lífi þeirra að koma hlutunum í orð. Að kenna börnum þessi orð tekur tíma, en þegar þau hafa náð merkingunni er þetta ómetanlegur fjársjóður.

Hér eru 10 orð og orðasambönd sem gera foreldrahlutverkið einfaldara

Hollt/heilsusamlegt

Þetta orð er afar nauðsynlegt á svo marga vegu. Þegar barnið fer að biðja um sykrað nammi, gos eða bakkelsi alla tíma dagsins er þetta orð sem þau þurfa að skilja. Krakkar ættu að læra á þessum aldri hvað sé hollt fyrir líkamann og hvað ekki, sérstaklega hvað framtíðina varðar. Og þegar þú þarft að neita barninu og segja því að þetta sé ekki hollt, skilja þau ástæðuna að baki neituninni.

Næði/einkalíf/einrúm

Mamma fimm ára stráks segir: „Þegar við fórum að kenna syni mínum á klósettið átti hann í erfiðleikum með…um, áhorfendur í baðherberginu. Ég kenndi honum að biðja um næði og það var frábært orð fyrir hann. Núna þegar ég er að klæða mig eða nota baðherbergið og ég vil vera ein, þarf ég bara að biðja um næði og hann veit nákvæmlega hvað það þýðir.“ Kenndu þetta orð snemma og notaðu það oft!

Einkastaðir

Það er aldrei of snemmt að hefja þessar samræður hvað varðar viðeigandi snertingu við börn. Þó þú teljir að barnið geti ekki skilið þig, skaltu samt segja hvað sé í lagi og hvað ekki. Að benda á svæði líkamans sem eru „einkastaðir“ eða hvaða annað orð þú vilt nota, er mjög mikilvægt fyrir börn til að setja merkimiða á það og koma auga á hvað er viðeigandi snerting og hvað ekki. Einnig er gott að þið hafið sett nöfn á þessa staði ef barnið hefur einhverjar spurningar eða áhyggjur af heilsunni.

Hvíld

Stundum þurfa mamma og pabbi bara að HVÍLAST. Það þýðir ekki endilega að sofna, en bara að vera róleg og kyrr: „Sonur minn var þriggja þegar ég sagði fyrst þetta orð og ég áttaði mig á að ég hefði átt að hafa kennt honum það fyrir lööööngu. Í hans huga var bara að leika eða sofa, enginn millivegur. Nú skilur hann þetta og veit að ég er ekki að biðja um að fara að leggja mig, ég þarf bara að hvílast.“ – strákamamma.

Leiktími

Að nota orð á borð við „leiktíma“ eða álíka, þýðir að barnið á að leika sér eitt inni í herbergi (sem getur verið ógnvænlegt fyrir sum börn!). Mamma segir: „Ég þurfti að læra þetta á erfiða háttinn. Það var ekki fyrr en ég var ólétt að mínu öðru barni að ég fór að segja: „Hey, af hverju ferðu ekki og leikur þér sjálf?“ Ég hefði alveg eins getað sett sírenu og blá blikkandi ljós af stað. Þetta var RANGT orðaval fyrir þriggja ára dóttur mína. Þess í stað lærði ég af vini mínum að skipa „leiktíma“ á hverjum degi,“ segir mamma tveggja stúlkna. Þetta er best að hefja snemma, en aldrei of seint að byrja samt. Búðu til skemmtilegan tíma fyrir barnið þitt að leika eitt inni í herbergi, stutt fyrst og bættu svo við tímann.

Blíðlega

Að gera hlutina blíðlega er leikskólabörnum oftast ekki eðlislægt! Þetta er orð sem þarf að endurtaka oft… Finndu leið til að fá börnin til að æfa sig að gera hlutina blíðlega. Kannski þýðir það að hitta kött nágrannans eða að snerta viðkvæma hluti með leyfi, sem færir okkur að næsta orði:

Brothætt

Börn og leikskólabörn skilja augljóslega ekki af hverju þau mega ekki halda á og snerta allt: „Um leið og ég fór að útskýra fyrir syni mínum að hlutir væru brothættir, sá ég bara ljós kvikna í kollinum á honum. Þetta var mjög sterkt og kraftmikið orð og ég nota það oft þegar við erum að versla eða í heimsókn einhversstaðar.

Nei takk!

Það er mun kurteisara fyrir börn að segja „nei, takk“ heldur en „nei, ekki!“ Það gefur börnum einnig stjórn og yfirvegun í samskiptum.

Frjósa

Hversu oft hefurðu kallað á barnið þitt „stoppaðu!“ þegar það hleypur langt á undan þér. Það er annað orð sem getur frekar fengið það til að hlýða og það er „frjósa“ (e. freeze). Það er hægt að leika stólaleikinn og hlaupa um, svo er kallað „frjósa!“ og þá þurfa allir að vera kyrrir. Hægt er að æfa þetta oft og nota síðan orðið á þessi yndislegu, virku börn í öllum aðstæðum!

Mitt svæði

„Ég áttaði mig ekki á mikilvægi þessa orð – eða hversu erfitt það væri að kenna það – þar til ég átti seinna barnið mitt,“ segir tveggja barna móðir. „Þegar ég var að reyna að gefa dóttur minni brjóst, klifraði sonur minn upp á mig (í alvöru, ég var eins og tré), auðvitað til að ná athygli og ég áttaði mig á að ég þyrfti að kenna honum um persónulegt svæði manns. Ég vildi ég hefði kennt honum það fyrr, en betra er seint en aldrei!“

 

Heimild: BabyCenter.Com  

Pin It on Pinterest

Share This