Makaleit kvenna: Að finna nálina í heystakkinum
Jennie Young var fimmtug þegar hún ákvað að hún vildi láta reyna á stefnumótaöpp til að finna sér maka: „Ég var uppfull af hryllingi. Kvöld eftir kvöld fann ég hvað ég var að missa kjarkinn, flettandi í gegnum „match-in“ mín og samræðurnar með öllum klisjunum sem ég hafði heyrt um en vissi í raun ekki að væri raunveruleikinn. Mennirnir með fiskana, „seiðandi“ baðherbergissjálfurnar og svo allir mennirnir sem voru giftir og voru að „kanna markaðinn,““ segir hún í viðtali við Huffpost.
Jennie var ekki í leit að skyndikynnum þannig henni virtist ómögulegt að finna mann við hæfi og taldi aldurinn ekki vera að vinna með sér: „Ég hélt þetta yrði allt í lagi því giftu vinkonur mínar sögðu mér að ég liti vel út þrátt fyrir aldur, en það sem ég fattaði ekki var að menn á mínum aldri vildu ekki vera í sambandi með konu á mínum aldri. Þeir vildu þrítugar konur.“
Jennie gafst samt ekki upp strax, það hlutu nú að vera álitlegir, almennilegir menn sem vildu bara eina konu og vildu það sama og hún í lífinu. „Mér hlaut að yfirsjást eitthvað augljóst með þessi stefnumótaöpp, þetta gat ekki verið allt svona. Ekkert af þeim ráðum sem ég fletti upp á netinu gerðu nokkurt gagn í að finna nálina mína í heystakkinum.“
Þannig Jennie gafst ekki upp og eitt kvöldið þegar hún var orðin rangeygð af „svæpi“ og „skrolli“ gúglaði hún í gamni: „Hvernig finnur maður nál í heystakki?“
Hún segir: „Ég var nú bara að grínast en þegar ég sá svarið rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Svarið var – til að finna nál í heystakki þarftu að brenna heyið. Það sem eftir er, er bara nálin, því nálin er úr málmi og brennur því ekki.“
„Ég vissi að þetta hlyti að vera lykillinn,“ segir Jennie. „Að pikka út strá og strá til að finna eina nál er yfirgnæfandi stórt og tímafrekt verkefni. Mér skilst að yngri konur noti Tinder eins og hobbý eða leik, og þær eru ekki alltaf að leita að „hinum eina rétta.“ Mér fannst ég ekki hafa þannig tíma. Ég vildi brenna heystakkinn og finna nálina mína.“
Þannig Jennie bjó til örfáar, einfaldar reglur fyrir leitina sem, að hennar sögn, breyttu öllu: „Ég varð mjög hörð á því hvað ég vildi og hvern ég vildi tala við þannig 100% af mínum tíma fór í að tala einungis við menn sem höfðu sömu gildi og markmið og ég.“
Fimm dögum seinna fann Jennie „nálina“ sína: „Við lokuðum bæði öllum stefnumótaöppunum okkar eftir fyrsta stefnumót (kannski ekki ráðlegt, en hvað get ég sagt, þannig var það). Hann var allt sem ég vildi: fyndinn, góður, stabíll, fjölskyldumaður, góður í sínu fagi og algerlega til í að vera bara með einni konu. Við vorum í sambandi í tvö ár og af ástæðum sem eru of flóknar til að fara út í hér gekk sambandið ekki upp. Hann er samt einn af mínum bestu vinum og ég myndi ekki vilja skipta þessari reynslu út fyrir nokkuð annað.“
Jennie langaði samt enn í maka. Þegar hún fór aftur af stað í makaleitina ákvað hún að móta aðferðina betur og deila henni með öðrum: „Þetta var svona mín femíniska bylting og smá í anda Ghandi að „vera breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.“ Einnig vildi ég opna augu fólks fyrir því að fólk á miðjum aldri kann ekkert að haga sér í þessum skelfilega heimi stefnumótaappanna. Konur af okkar kynslóð kunna að sjálfsögðu að nota netið og öpp en við erum með of skarpan heila til að falla fyrir nokkru kjaftæði.“
Þannig varð Facebookhópurinn „Burned Haystack Dating Method” til þar sem nú eru fleiri hundruð konur, flestar yfir fertugu að gefa hverri annarri ráð.
10 reglur aðferðarinnar:
Við tölum bara við menn sem komast vel að orði og tala ekki einhverja vitleysu
Þeir vísa í prófílinn okkar (að þeir hafi í raun og veru lesið hann)
Menn sem átt í raunverulegum samræðum fram yfir „hey sæta, hvað segist“
Menn sem eru að borga fyrir aðganginn að appinu*
Við neitum að vera pennavinir
Neitum að rífast við menn eða eyða tíma og orku í skammir eða álíka (þó þeir eigi það kannski skilið, marga konur verða fyrir áreiti og jafnvel ofbeldi á þessum öppum)
Í staðinn BLOKKUM við þá bara
Ef samræður eru ekki á leiðinni neitt, þrátt fyrir að þær séu ágætar og ekki er möguleiki á hittingi innan viku eða tveggja vikna blokkum við þá
„Block to burn“ er orðin einskonar mantra í hópnum þar sem blokkun á stefnumótaöppum er eini möguleikinn til að hætta samskiptum og þú þarft ekki að sjá aftur þá sem þú hefur afgreitt. Þannig þarf appið einnig að sýna nýja menn í staðinn.
Jennie segir: „Að nota þessa aðferð er virkilega að borga sig. Við erum allt í einu að hitta menn sem sýna okkur virðingu og hafa alvöru samband í huga og við erum í alvöru að fara á mjög góð stefnumót. Auðvitað þarf gagnkvæm hrifning að myndast milli þessara tveggja einstaklinga, það er sennilega engin aðferð til að tryggja slíkt. En reglurnar tryggja að þó að við höfum ekki endilega hitt sálufélagann erum við að hitta frábæra menn og njótum þess.“
Ef eitthvað virkar ekki eru allskonar konur í hópnum, vel menntaðar og geta oft gefið góð ráð. Hópurinn er meira sjálfshjálparhópur með öðrum og oft er mikið fjör að fylgjast með umræðum. Konur eru konum bestar að þeirra mati og þar má finna samansafn kvenna af ýmsum þjóðernum sem eru hoknar af lífsreynslu og tala af reynslu. Þær byggja upp vinskap, skiptast á skoðunum og hlæja mikið.
„Markmiðið er í raun að gefa ráð sem allir geta nýtt sér. Við erum miðaldra konur á stefnumótamarkaðnum en reglurnar eru eitthvað sem allir í makaleit ættu að gera nýtt sér, burtséð frá aldri, kyni eða kynhneigð. Að fylgja þessum reglum lætur okkur hægja á okkur, nýta okkur núvitund, vera heiðarlegar og almennilegar – bæði við fólk sem við hittum og líka okkur sjálfar. Það er líka valdeflandi, við verðum sterkari og verjum okkur sjálfar á þá vegu sem er skapandi og heilandi. Að gera þetta í hóp ýtir enn frekar undir þessi jákvæðu áhrif, að sjálfsögðu,“ segir Jennie að lokum.
Jennie Young er rithöfundur og prófessor við háskólann í Wyomingríki í Bandaríkjunum.
Klikkaðu á samfélagsmiðlamerkin hér fyrir neðan til þess að sjá Instagram og Facebook síður Jennie.