Hugurinn er magnað fyrirbæri og máttur hans er mun meiri en margir átta sig á. Hvað ef að með breyttri hugsun og jákvæðara viðmóti gagnvart sjálfum okkur og umhverfinu gætum við upplifað meiri hamingju, velgengni og vellíðan í daglegu lífi.

Flestir upplifa erfiðleika einhvern tíma á lífsleiðinni þar sem stöðugar áskoranir dynja á okkur og allt getur stundum gengið á afturfótunum. Einhverjir kannast líklega við að hugsa „ooh! ég er svo óheppinn“ eða  „týpískt, alltaf lendi ég í svona aðstæðum“.

Allar hugsanir okkar um okkur sjálf og umhverfi okkar eru staðfestingar. Með hugsunum okkar staðfestum við okkar eigin tilveru. Þá er átt við að allar hugsanir eða innra tal um okkur sjálf eða nærumhverfi séu stöðugt flæði staðfestinga. Við notum hugsanir hvert einasta augnablik hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Við erum í raun að staðfesta og skapa okkar eigin lífsreynslu og tilveru með hverri hugsun og orði.

Ef allar hugsanir okkar og innra tal byggist á neikvæðni verður viðhorf okkar gagnvart okkur sjálfum og nærumhverfi ósjálfrátt neikvætt. Þú ert það sem þú hugsar! Þannig mætti segja að orð séu álög. Þess vegna er mikilvægt að temja okkur jákvætt hugarfar.

skilid-alla-ast

Að ná stjórn á hugsunum okkar

En hvernig náum við stjórn á hugsunum okkar, hvernig breytum við neikvæðri hugsun yfir í jákvæða? Að fylla líf sitt af jákvæðum staðhæfingum getur gert kraftaverk í daglegu lífi. Þær geta með smá æfingu breytt neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Með því að einbeita sér að því að leiðrétta daglegar hugsanir geta hin erfiðustu verkefni orðið mun viðráðanlegri. Smám saman upplifum við meiri hamingju, meiri velgengni og vellíðan.

Fyrir um tveimur árum þegar ég var með yngstu dóttir mína nokkurra vikna gamla stóð ég á tímamótum sem voru ekki sérlega velkomin. Í einni morgungöngunni ákvað ég að koma við á bókasafninu og þar rakst ég á bókina „Ég get það“ og ákvað að fá hana lánaða. Ég sé sko aldeilis ekki eftir því að hafa fengið þess bók heim því hún kenndi mér á einfaldan hátt að ná betri stjórn á hugsunum mínum og hvernig hægt væri að nota jákvæðar staðhæfingar til að breyta lífi sínu.

Bókin er metsölubók eftir Louise L. Hay, en Louise er einn vinsælasti fyrirlesari og lífsráðgjafi Bandaríkjanna. Hún hefur gefið út fjölda bóka sem fjalla um sjálfstyrkingu þar á meðal metsölubókina „Sjálfstyrking Kvenna“

Í bókinni talar Louise um staðfestingar almennt, en einnig eru staðfestingarnar flokkaðar eftir sérstökum þáttum lífsins. Hún útskýrir á einfaldan hátt hvernig hægt er að bæta til dæmis samskipti, heilsu, efnahag og ástarlíf með því að hafa stjórn á hugsunum sínum og nota jákvæðar staðfestingar.

besta-skilid

Hvernig getum við notað staðfestingar til að breyta lífi okkar

Samkvæmt Louise þá eigum við að byrja á okkur sjálfum, þ.e. að bæta samband okkar við okkur sjálf. Í kjölfarið fara önnur sambönd, eða samskipti sem við eigum í, sjálfkrafa batnandi. Fyrst og fremst þurfum við að vera sátt við okkur sjálf í núinu og kjósa hugsanir sem láta okkur líða vel á þessari stundu.

Hér koma nokkrar vel valdar staðhæfingar úr bókinni „Ég get það

 • Ég elska sjálfa mig
 • Lífið er yndislegt og ég á allt það besta skilið
 • Ég á skilið allt það besta og ég meðtek það núna
 • Ég á skilið alla þá ást sem alheimurinn færir mér
 • Lífið styður við mig á allan mögulegan hátt
 • Öllum mínum þörfum og löngunum hefur nú þegar verið mætt
 • Dagurinn minn byrjar og endar með þakklæti og gleði
 • Tækifærin streyma til mín
 • Innkoma mín fer stöðugt vaxandi
 • Ég hagnast á öll því sem ég tek mér fyrir hendur
 • Allt sem ég leita eftir er þegar innra með mér
 • Ég kýs að sleppa tökum á öllum sársauka og allri gremju
 • Ég er fullkomin eins og ég er
 • Ég er svo þakklát fyrir líkama minn

Þrátt fyrir að ég hafi alltaf verið þessi Pollýönnutýpa þar sem frasinn „Þetta reddast“ hefur mjög reglulega verið notaður og mögulega ofnotaður, þá getur verið erfitt að halda uppi stöðugu jákvæðu viðmóti, sérstaklega þegar áskoranir dynja á okkur. Oft og tíðum endum við á því að detta í sjálfsásökunarpakkann með því að brjóta sjálf okkur niður, gagnrýna og bölva með hugsunum okkar og innra tali.

Hins vegar er enginn annar sem ræður yfir hugsunum okkar, aðeins við sjálf gerum það. Reyndar eru þær það eina sem við höfum vald yfir í þessum heimi. Að sama skapi höfum við í raun enga stjórn á hugsunum annarra. Það er gott að hafa hugfast hversu öflug hugsunin er, við getum svo sannarlega öðlast stjórn á okkar eigin hugsunum.

„Það sem þið ákveðið að hugsa um er einmitt það sem lífið veitir ykkur. Ég hef kosið að hugsa hamingjuríkar þakklætishugsanir og það getið þið líka gert.“

– Louise L. Hay

dagurinn

Virka þessar jákvæðu staðfestingar?

Það eru ekki allir á sama máli um það. Sumir segja að þær virki ekki, en það eitt er í raun staðfesting í sjálfu sér. Þess vegna er mikilvægt að kunna að nota þær á réttan hátt. Það dugar skammt að nota jákvæða staðfestingu og hugsa annað, eins og til dæmis: „Efnahagur minn fer síbatandi,”  en hugsa svo samtímis: “Úff, þetta er heimskulegt, ég veit að þetta mun aldrei virka.” Hugur þarf að fylgja orði. Neikvæða staðfestingin verður oftar en ekki ofan á þar sem hún er líklega hluti af gamalli vanabundinni hugsun um lífið.

Að sjálfsögðu þarf aga og æfingu til þess að ná tökum á því að tala og hugsa alltaf jákvætt í eigin garð en það er vel hægt með stöðugum æfingum. Með tímanum er hægt að bæta lífsgildi sín og viðhorf með mætti jákvæðra staðfestinga.

Um leið og við lærum að skilja og ná tökum á eigin hugsunum opnast okkur leið að innri sátt og hamingju. Auk þess sem lífið verður betra og auðveldara.


“Ef við viljum bæta lífsgildi okkar og viðhorf þurfum við að þjálfa hugann og vera jákvæðari í tali. Staðfestingar eru lykillinn. Þær eru byrjunin á leið okkar til breytinga.”

                                                            – Louise L. Hay

tækifæri

Heimildir:

Hay, L. L. (2012). Ég get það!: hvernig hægt er að nota staðfestingar til að breyta lífi sínu. (Margrét Sölvadóttir). Carlsbad, CA: Hay House. (upphaflega gefið út 2004)

Höfundur

Margrét Rós Einarsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This