Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch 28 ára er framkvæmdastjóri Platome Líftækni og aðjúnkt í lífeindafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur síðustu ár þróað, ásamt Dr. Ólafi E. Sigurjónssyni, nýjar leiðir til að rækta frumur á rannsóknarstofum með því að nýta útrunnar blóðflögur frá Blóðbankanum. Sandra er gift Þór Friðriksson, læknir og M.Sc. í heilbrigðisverkfræði og saman eiga þau dótturina Birtu 2ja ára. Sandra varð fyrst íslenskra kvenna til að hljóta aðalverðlaun á alþjóðlegri hátíð kvenna í nýsköpun, EIWIIN/GWIIN (Global women inventors and innovators network), sem Kvenfrumkvöðull ársins 2017. Hátíðin fór fram á Ítalíu í lok júní. Fyrr á árinu var Sandra einnig valin sem Ungur og efnilegur vísindamaður ársins á sviði lífvísinda auk þess að vera tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur af JCI Ísland síðasta haust. Fyrirtækið hennar, Platome Líftækni, hefur einnig hlotið fjölmörg verðlaun en fyrirtækið var valið Sprotafyrirtæki ársins af Viðskiptablaðinu og var á lista Frjálsrar Verslunar yfir áhugaverðustu sprotanna í fyrra.  Þá hefur fyrirtækið hlotið styrki úr tækniþróunnarsjóði.  Rannsóknir sem Sandra hefur unnið að ásamt samstarfsfólki sínu koma til með að stuðla að framförum í læknisfræði, og þá sérstaklega á sviði stofnfrumulækninga. Hópurinn hefur unnið að þróun á tækni og aðferðum sem gera vísindamönnum kleift að rannsaka og rækta stofnfrumur án þess að nota dýrafurðir. Markmiðið er að bæta núverandi aðferðir og flýta fyrir þróun á stofnfrumumeðferðum sem geta gagnast sjúklingum. Í starfi sínu sem aðjúnkt við Háskóla Íslands kennir Sandra erfðafræði og vísinda- og teymisvinnu auk þess að sitja í námsbrautarstjórn í Lífeindafræði. Sandra á einnig sæti í stjórn hvatningarsjóðs Félags lífeindafræðinga. Hún er eftirsóttur fyrirlesari og talar fyrir vísindum, nýsköpun og frama ungs fólks bæði innanlands og erlendis. Hennar næsta verkefni er að verja doktorsrannsókn sína en vörnin mun fara fram við Háskóla Íslands í þessari viku.

Viltu segja okkur frá því hvernig hugmyndin að fyrirtækinu þínu Platome Líftækni kviknaði og frá þeirri starfsemi sem þú stýrir?

Fyrirtækið byggir á margra ára rannsóknarvinnu sem að hófst í kringum 2010. Óli, sem er meðstofnandi, var þá nýlega kominn aftur heim til  Íslands eftir að hafa lokið doktorsprófi í stofnfrumu- og ónæmisfræði í Osló og var að vinna í Blóðbankanum. Hann fór að kanna möguleikann á því að nýta blóðhluta, sem blóðbankinn getur ekki notað og fékk mig til liðs við sig. Ég kom því inn í verkefnið strax að lokinni B.Sc. gráðu í lífeindafræði og stækkaði verkefnið seinna í doktorsverkefni. Samstarf okkar hefur verið mjög farsælt og við vorum meðal annars fyrst til að sýna fram á að hægt er að nýta útrunnar blóðflögur frá blóðbönkum til að rækta stofnfrumur. Við áttuðum okkur stuttu síðar á verðmæti þessarar hugmyndar og í kjölfarið ákváðum við að stofna fyrirtæki, Platome Líftækni. Ég tók strax við sem framkvæmdastjóri og hefur fyrirtækið gengið vonum framar. Við erum orðin sjö talsins og fluttum nýlega í nýtt skrifstofuhúsnæði. Þá erum við bæði með innlenda og erlenda viðskiptavini. Það hefur verið virkilega gaman og krefjandi að fara í gegnum þetta ferli, að stofna eigið fyrirtæki, en ég hef á skömmum tíma þurft að læra mikið af nýrri þekkingu enda liggur minn bakgrunnur ekki í viðskiptum heldur vísindum.

Nú ertu mikil framakona, og ert að verja doktorsritgerðina þína samhliða því að reka fyrirtæki og heimili. Mikil umræða hefur verið upp á síðkastið þar sem rætt er um að starfsframi foreldra sé oft á kostnað barnanna og þeirra tengslamyndunar sem börn eiga við foreldra sína. Upplifir þú fordóma í þinn garð vegna þíns frama og finnst þér fólk efast um færni þína sem móðir?

Það þarf ekki að vera samansem merki á milli þess að rækta eigin starfsframa og sinna ekki fjölskyldulífi. Það að vilja ná langt í lífinu þýðir ekki endilega að maður gefi sér ekki tíma fyrir börnin. Það hefur komið mér á óvart hvað fólk er tilbúið að segja við mig og lætur stundum út úr sér hluti sem virðast til þess eins fallnir að vekja hjá mér sektarkennd. Ég hef meðal annars verið spurð að því hvort að dóttir mín kalli mig ennþá mömmu, hvort að hún þekki mig ennþá og svo er mjög vinsælt að spyrja: Og hvar er barnið þitt? Maðurinn minn fær ekki þessar sömu spurningar, hann er engu að síður mjög metnaðarfullur og í góðu starfi. Ég sinni mörgum verkefnum og það er aldrei nægur tími í sólarhringnum til að komast yfir allt. Þess vegna geri ég mér vel grein fyrir því hve dýrmætur tíminn er og ég reyni að nýta hverja stund sem best. Það á sérstaklega við um þann tíma sem ég á með dóttur minni. Frá því að hún byrjaði á leikskóla hefur aldrei neinn annar en foreldrar hennar sótt hana. Fjölskyldur okkar beggja búa úti á landi og því þurfa allir í litlu fjölskyldunni minni að standa saman. Alltaf. Þegar ég fer að sækja dóttur mína þá slekk ég á netinu í símanum til að geta verið með henni og notið þess. Við gerum alltaf eitthvað saman eftir leikskóla, förum á bókasafnið, í göngutúr eða erum heima að knúsast. Á föstudögum er alltaf kósíkvöld, það er heilagt. Þá tökum við eitthvað skemmtilegt á leigu á bókasafninu og horfum öll saman í sófanum. Þetta eru stundir sem dóttir mín hlakkar til alla vikuna, og ég líka. Þegar dóttir mín er komin í háttinn á kvöldin, þá get kveikt aftur á netinu og haldið áfram að vinna. Auðvitað er álagið misjafnt, ég hef til dæmis þurft að ferðast mikið þetta ár og því fylgir töluverð streita. Maðurinn minn vinnur líka mikið en gefur sér alltaf tíma til að sinna fjölskyldunni og er verkaskiptingin á okkar heimili mjög jöfn. Það ganga allir í öll verk. Annars myndi þetta ekki ganga upp, við þurfum að hjálpast að. Enda er það eðlilegt. Það tekur tíma, áræðni og dugnað að byggja upp frama og sækja sér menntun. Maður þarf að fórna ýmsu. Það að vera ungt foreldri að byggja upp frama þýðir samt ekki endilega að maður velji að fórna tímanum með fjölskyldunni. Kannski velur maður bara að fórna einhverju öðru. Mér finnst því alveg ótrúlegt þegar ég sé aðra alhæfa um að fólk sem að ætlar sér að ná langt í lífinu gleymi að rækta tengslin við börnin sín, líkt og það gangi yfir alla. Ég hreinlega get ekki verið sammála og mér finnst að unga fólkið okkar eigi betra skilið en að vera ásökuð um að vera slæmir foreldrar. Mér finnst það skjóta skökku við að í samfélagi þar sem við metum jafnrétti og jöfn tækifæri séum við að hnýta í þá sem kjósa að lifa eftir gildum þess og sækja sér bæði menntun og frama. Það hefur lengi verið krafa að auka hlut kvenna í ýmsum öngum okkar samfélags. En ef við viljum raunverulega breyta hlutunum þá þurfum við að vera þær fyrirmyndir sem við hefðum viljað sjá þegar við vorum yngri. Þetta á að sjálfsögðu ekki bara við um konur, þetta á við um alla. Mér finnst dóttir mín eiga það skilið að alast upp hjá foreldrum sem hún getur tekið til fyrirmyndar og ég reyni því að vera eins sterk og góð fyrirmynd og ég get. Fyrir hana. Ef það þýðir að ég þurfi að sýna kjark og synda á móti straumnum, þá geri ég það. Ég er ekki verri móðir fyrir vikið.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Hjá mér er enginn dagur dæmigerður. Einn daginn er ég að kenna í háskólanum, þann næsta er ég að einangra erfðaefni á rannsóknarstofunni og þann þriðja er ég flogin á viðskiptafundi í Bandaríkjunum. Ég þarf að vera mjög sveigjanleg því hlutirnir og plönin breytast hratt og þá þarf ég að geta brugðist við. En svona að jafnaði þá fer ég á fætur 6:30 og græja mig fyrir vinnu, klæði og sinni dóttur minni ef hún er vöknuð en annars sér faðir hennar um það. Ég reyni að komast út um 7:15 til að ná að vera á undan umferðinni og vera komin til vinnu fyrir kl. 8:00. Ég er klárlega morgunmanneskja og ég elska að vera mætt fyrst í vinnuna, fá mér gott kaffi og ná að vinna í þögninni áður en aðrir mæta. Síðan sinni ég þeim verkefnum sem liggja fyrir hvort sem það er fyrir framan tölvuna, þeysast á milli funda eða rannsóknarvinna. Ég legg af stað heim kl 15:30 til að geta náð í dóttur mína á leikskólann. Þá tekur við samvera með henni, elda mat og sinna húsverkum. Þegar dóttir mín er farin í háttinn eru húsverkin kláruð, hellt uppá kaffi og komið sér fyrir í  sófanum með tölvuna. Ég miða við að vinna helst ekki lengur en til kl 11 og horfa svo kannski á einn þátt með manninum mínum áður en við förum að sofa. Síðan er bara repeat. Þetta er dagskrá sem að hentar mér vel og mér finnst ekki erfitt að vinna á kvöldin því ég elska það sem ég geri. Ég gæti þess þó að vinna ekki öll kvöld því þá brennur maður út. Fríkvöldunum eyði ég með manninum mínum og/eða vinum. Ég fer líka stundum út að hlaupa, spila á píanóið eða les góða bók til að ná mér niður eftir daginn og fylla á orkuna.

Hugar þú vel að heilsunni, stundar þú einhverja hreyfingu?

Ég tel mig hugsa vel um heilsuna en það eru margir þættir sem stuðla að góðri heilsu fyrir utan hreyfingu. Í gegnum tíðina hef ég verið mikið í íþróttum og er meðal annars með svarta beltið í Taekwondo. Núna reyni ég að fara út að hlaupa eins oft og ég get, kannski 2-3 í viku. Þess á milli er ég með app í símanum sem heitir Fitstar og tengist við Fitbit úrið mitt. Í því eru 30 mín blandaðar æfingar sem ég set í gang og get gert heima áður en ég fer að sofa. Fyrir mér er svefn lykillinn að góðri heilsu. Það fann ég sérstaklega þegar dóttir mín var yngri en hún var mjög krefjandi ungabarn. Ég sef aldrei minna en sex tíma og stilli oft klukku til að segja mér að fara að sofa. Svo erum við hjónin mikið áhugafólk um mat og elskum að elda góðan mat. Góður matur úr ferskum hráefnum getur ekki annað en gert mann hamingjusaman, og hamingja hlýtur að vera mjög góð fyrir heilsuna.

Nú hefur þú sérstaka ástríðu að hvetja og efla ungt fólk til dáða, viltu gefa ungum framakonum gott ráð hvernig best er að sameina frama og fjölskyldulíf?

Árangur gerist ekki bara, það þarf að vinna fyrir honum. Maður þarf oft að vera tilbúinn að leggja gríðarlega mikið á sig til að ná að skara framúr og uppskera eftir því. Það er því ágætt að vita áður en lagt er af stað á framabrautina hvar mörkin manns liggja og hvert maður stefnir. Að sameina frama og fjölskyldulíf er erfitt. Það krefst mikils skipulags, góðrar tímastjórnunnar og samvinnu allra á heimilinu. Maður þarf að finna sitt tempó sem að virkar og fylgja því. Ef maður ætlar að troða sér í einhvern ómögulegan farveg og líða illa mun það koma niður á öllu, vinnunni og fjölskyldunni. Maður þarf að vera tilbúinn að forgangsraða og sleppa því sem að skiptir minna máli og hafa sjálfstraust til að standast pressuna. Ég myndi segja að góð tímastjórnun væri líklega það mikilvægasta. Einbeita sér að vinnunni þegar maður er að vinna og ekki eyða tímanum í rugl. Vera svo með fjölskyldunni eftir vinnu og vera þá með virka nærveru en ekki nefið í símanum. Þá getur maður sleppt því að vera með samviskubit gagnvart fjölskyldunni þegar maður er að vinna, eða samviskubit gagnvart vinnunni þegar maður er heima.  Stundum ætlar maður sér um of, þess vegna er líka mikilvægt að læra að þekkja sín mörk og hika ekki við að biðja um hjálp þegar þarf.

Hvað finnst þér skemmtilegast við móðurhlutverkið?

Þegar ég varð móðir fannst mér skemmtilegast að fá að kynnast ást uppá nýtt. Það getur verið svo ljúfsárt að elska. Upplifa ást sem virðist breiða úr sér líkt og alheimurinn eftir miklahvell en á sama tíma vera svo hrædd um að missa. Þetta er eiginlega alveg einstök tilfinning. Mér finnst líka skemmtilegt að fá að upplifa heiminn uppá nýtt í gegnum dóttur mína. Hlutir sem eru fyrir löngu orðnir sjálfsagðir fyrir mér eru hún að sjá í fyrsta skipti og ef maður leyfir sér að staldra aðeins við getur maður fengið að taka þátt í þeirri upplifun. Það hefur veitt mér nýja sýn á lífið og umhverfið. Þá elska ég að fylgjast með dóttur minni læra nýja hluti, mynda sér skoðanir og leyfa mér smátt og smátt að sjá hver hún er. Ég er viss um að hún verður sjálfstæð og ákveðin ung kona eftir nokkur ár sem fer sínar eigin leiðir. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með Söndru á samfélagsmiðlum, þá er hún með Instagramsíðuna sandriculous.

Auður Eva Ásberg

 

Pin It on Pinterest

Share This