Mig hefur alltaf dreymt um að gefa út barnabók

Helgu Arnardóttir þarf vart að kynna en hún hefur unnið sem fjölmiðla- og þáttagerðakona í mörg ár. Helga gengur með sitt annað barn um þessar mundir auk þess var hún að gefa út sína fyrstu barnabók um hana Nínu óskastjörnu, ekki nóg með það heldur er hún einnig að leggja lokahönd á sína aðra þáttaröð af Lifum lengur þar sem hún fjallar um lykilinn að langlífi og ferðast til langlífustu svæða í heiminum.

Mig langaði að forvitnast aðeins um þessa duglegu konu, fallegu bókina hennar um Nínu óskastjörnu, meðgönguna og hvernig sampil er á milli frama- og fjölskyldukonunnar Helgu.

Hver er Helga Arnardóttir?

Helga Arnardóttir er nú vön því að vera kynnt sem fjölmiðlakona en er nú allt í einu að stíga inn á annað svið í fyrsta skipti og það er bókaútgáfa.  Ætli Helga sé ekki einshvers konar múltítasker um þessar mundir.

Hvernig varð hugmyndin að barnabókinni um Nínu óskastjörnu til?

Mig hefur alltaf dreymt um að gefa út barnabók og svo fæddist lítil saga í huganum fyrir nokkrum árum þegar ég bjó við Elliðavatn sem er algert töfravatn. Mig langaði alltaf að skrifa um sterka stelpu sem hefur einhver áhrif og ég settist niður og úr varð þessi skemmtilega ævintýrasaga. Sagan fjallar um Nínu óskastjörnu sem dvelur mikið í sveitinni hjá ömmu sinni og einn daginn lendir amma í vanda og Nína ákveður að koma henni til hjálpar með hjálp álfa og huldufólks.  Það getur oft verið lítið svigrúm til skapandi skrifa þegar maður er í fréttaflutningi öllum stundum þess vegna hefur mér oft fundist smá hvíld í því að skrifa eitthvað bara fyrir mig.  Ég hélt auðvitað allan daginn að sagan færi bara rakleiðis ofan í skúffuna mína og myndi safna ryki þar, mögulega fyrir barnabörnin að lesa þegar farið yrði í gegnum dánarbúið mitt. En ég var svo heppin að senda hana á Sölku útgáfu og þær vildu gefa hana út og ég fékk frænku mína og listateiknara Ylfu Rún Jörundsdóttur til að vinna myndirnar fyrir söguna sem eru hreint út sagt einstakar.

Fyrir hvaða aldurshóp er bókin?

Ég var að fá þær fréttir úr fjölskyldunni að sagan hefði ríghaldið 4 ára og 6 ára barni þegar hún var lesin fyrir þau og svo hafa 11 til 12 ára börn í fjölskyldunni lesið hana líka með miklum áhuga þannig að þetta er ansi breytt aldursbil. Og fyrir bæði stelpur og stráka.

Nú ertu ólétt að þínu öðru barni, ert að klára aðra þáttaröð af þáttunum þínum “Lifum lengur”, sem hafa verið sýndir í Sjónvarpi Símans og hefjast aftur eftir áramót, ert að gefa út barnabók og það allt á einni meðgöngu! Hvernig gengur þetta upp, eru fleiri klukkustundir í þínum sólarhring heldur en hjá okkur hinum?

Guð ef ég byggi yfir fleiri klukkustunum í mínu lífi þá væru hlutirnir aðeins einfaldari. Ég get alveg játað það að þetta er búið að vera mikil törn, ég er komin 32 vikur á leið og er nú þegar búin að fara í 20 flug á meðgöngunni vegna vinnu. Ég er að vinna sjónvarpsþætti um langlífi og hef þurft að ferðast ólétt til þriggja landa til að hitta langlíft fólk á svokölluðum BLUE ZONES sem eru langlífustu svæði heims. Það hefur alveg tekið á og ég myndi ekki óska neinum þess að ferðast svona mikið á meðgöngu. Sem betur fer hef ég verið ótrúlega heilsuhraust og ekki undan neinu að kvarta til dagsins í dag.

Hvernig gengur að samtvinna atvinnu og einkalífið, ertu með einhver töfraráð fyrir uppteknar mæður?

Eftir að hafa verið að vinna hjá öðrum þá fann ég svo að maður ræður ekki tíma sínum sjálfur. Það að vinna hjá sjálfum sér breytir öllu í því samhengi þótt að sjálfsögðu allir eigi ekkert kost á því. Ég og maðurinn minn Bragi Þór Hinriksson leikstjóri erum svo lánsöm að geta framleitt þessa þætti saman og það hefur gengið ótrúlega vel.

Maður þarf samt alltaf að passa skilin milli vinnu og einkalífs og það gerum við með því að leigja okkur atvinnuhúsnæði til að aðskilja heimili og vinnu.  Að fara út að vinna og koma svo heim úr vinnunni er mikilvægt atriði í mínum huga.

 

Að lokum hvenær áttu von á þér og hvernig sérðu fyrir þér fæðingarorlofið?

Ég er sett á nýársdag, 01.01.20 þeim skemmtilega degi þannig að það verður spennandi að sjá hvorum megin við áramótin barnið kemur.  Líkur eru á að ég gangi yfir eins og á síðustu meðgöngu en það getur alltaf breyst.   Ég sé fæðingarorlofið fyrir mér í hillingum þótt að sjálfsögðu það sé mikil vinna, einskonar fæðingarvertíð eins og Björk Eiðsdóttir blaðamaður komst að orði.   Það er samt eitthvað dásamlegt við það að fá þennan tíma til að vera eingöngu með krílinu sínu og þurfa ekki að gera neitt annað nema maður vilji það. Ég sé svo auðvitað fyrir mér að geta skrifað eitthvað og gert eitthvað skapandi, við sjáum nú til með það. Mögulega verður maður bara þrotaður og þreyttur langt fram á næsta ár.

Ég óska Helgu innilega til hamingju með fallegu bókina sína og óskum henni alls hins besta!

Auður Eva Ásberg

 

Pin It on Pinterest

Share This