Eins og fyrr hefur komið fram bauð ég mínum heittelskaða eiginmanni í óvissuferð um norðurlandið nú á dögunum. Eitt af því skemmtilegasta sem við gerðum í þessari ferð var að fara í hvalaskoðun með North sailing eða Norðursiglingu á Húsavík. Við mættum þangað í blíðskaparverðri á laugardeginum og þar sem ég er alin upp í litlu sjávarþorpi til níu ára aldurs er ég ekki óvön því að það syndi af og til hvalir inn í fjörðinn. Því var þessi ferð svona meira hugsuð fyrir manninn minn til að sjá og njóta en sú varð síðan alls ekki raunin. Ég naut hennar engu  síður en hann en hér kemur ferðasagan okkar.

Við áttum bókaða ferð með Norðursiglingu eins og fyrr segir og lögðum af stað frá bryggju kl 13:30, ferðin tók í allt þrjá klukkutíma. Um borð var boðið uppá hlýja kraftgalla svo enginn þurfti að kvarta undan kulda en hitastigið út á sjó er alveg töluvert lægra en í landi. Við vorum ekki búin að sigla lengi þegar við rákumst á hóp höfrunga sem syntu í kringum bátinn hjá okkur líkt og þeir væru hoppandi glaðir því mikill asi var á þeim. Svo var ferðinni haldið áfram lengra út á haf því sést hafði til hnúfubaks.

Þegar nær dró, slökkti skipstjórinn á vélinni á bátnum og dauðaþögn ríkti um borð. Ég er alveg viss um að það mátti heyra saumnál detta svo mikil var þögnin. Hópur af fólki stóð sem styttur í bátnum og starði á hafið bíðandi eftir að hvalurinn kæmi upp til að anda. Svo allt í einu birtist þessi stóra tignarlega skepna og var svo nálægt að manni leið næstum eins og hægt væri að snerta hana.

auhvalMaður heyrði klárlega andrardrátt hans og svo synti hvalurinn undir bátinn. Svona gekk þetta nokkrum sinnum, hann kom upp dró andann og hvarf síðan ofan í hafdjúpið. Ef ég ætti að lýsa mómentinu betur þá leið mér næstum því eins og ég væri á magnþrunginni spennumynd í bíó svo mikil var eftirvæntingin eftir að hann kæmi upp aftur. Aftur var haldið af stað og nú sást til hrefnu lengra frá og það var sama sagan, skipstjórinn drap á vélinni, og eftirvæntingin var sú sama þegar hann lét sjá sig. Magnaðar skepnur alveg hreint, stórar tignarlegar og gaman að sjá með berum augum. Um borð voru nokkrir starfsmenn Norðursiglingar, auk skipstjórans, sem klifruðu upp í möstrin með kíki til að finna hvalina á miðunum í kring. Einn þessara starfsmanna var fararstjóri sem fór yfir öryggisatriðin í bátnum og fræddi farþegana um hvalategundirnar sem við gætum séð og umhverfi Húsavíkur sem var mjög áhugavert. Hann tók einnig skýrt fram að við værum ekki komin í dýragarð, hvalirnir kæmu ekki eftir pöntun en í flestum tilfellum sjást hvalir í þessum ferðum, enda hafa þeir unnið við hvalaskoðanir í fjölda mörg ár og vita hvar á að leita.

Mér fannst sjóferðin sem slík mjög skemmtileg, yndislegt veður, sólin skein og það var léttur andvari þó svo að komið sé fram í miðjan október. Hreina íslenska loftið fyllti lungun af súrefni. Útsýnið út á hafið og til nærliggjandi eyja var ofsalega fallegt. Við vorum svo sannarlega í okkar eigin heimi og oft leið mér eins og við værum bara tvö á þessum báti því maður gleymdi sér svo auðveldlega í þessum fallegu aðstæðum.

hvalurhusavik

Á heimleiðinni var boðið uppá heitt súkkulaði og kanilsnúð sem var svo sannarlega kærkomið eftir alla útiveruna. Ég mæli sannarlega með því að fara í hvalaskoðun með Norðursiglingu á Húsavík. Það tekur ekki nema klukkutíma að keyra til Húsavíkur frá Akureyri og hægt er að fá gistingu, á Húsavík eða við Mývatn, bæði á hótelum og bændagistingu fyrir þá sem vilja kannski staldra við og skoða meira. Svo er skemmtilegt hvalasafn á Húsavík sem við reyndar kíktum ekki á í þetta sinn. Stutt er að keyra á Mývatn frá Húsavík þannig að hægt er að slá tvær flugur í einu höggi og enda hvalaskoðunarferð á heimsókn í Jarðböðin á Mývatni eins og við gerðum. Það tekur ekki nema um 40 mínútur að keyra frá Húsavík yfir á Mývatn, 58 kílómetrar. Jarðböðunum svipar til Bláa lónsins en í þeim er heitt kísilvatn sem kemur úr jörðinni. Baðaðstaðan er til fyrirmyndar og útsýnið úr lóninu er yfir Mývatnið. Við vorum þarna snemma kvölds og horfðum á sólina setjast við vatnið og nutum þess síðan að horfa á stjörnubjartan himininn. Það er svo margt skemmtilegt hægt er að sjá og upplifa sem landið okkar hefur uppá að bjóða og ég hlakka til að upplifa meira af því í hlutverki ferðamanns. Ég vona svo sannarlega að ég geti miðlað sem flestu til ykkar.

Pin It on Pinterest

Share This