Sigga Birna: Armbönd gerð af hlýju frá konu til konu

Sigga Birna er athafnakona sem heldur úti síðunni armbönd.is kynntist fyrirtækinu Nepali Vibe sem framleiðir afar falleg armbönd fyrir um fjórum árum síðan þar sem hún bjó í Kaupmannahöfn. Aðspurð hvernig hún kynntist þessum fallegu armböndum segir Sigga: „Ég sá konu þar á róló á Islandsbrygge og hún var með eitt af mínum uppáhaldsarmböndum á hendinni. Ég spurði hana hvar hún fékk það og hún skrifaði miða sem á stóð nafnið á Instagramsíðu Nepali Vibe og setti ég hann í veskið mitt. Ég var ekki með Instagram og kunni ekkert á það en gat ekki hætt að hugsa um hversu fallegt mér fannst armbandið. Svo fékk ég mér bara Instagram svo ég gæti haft samband við stelpuna sem var með þessi armbönd. Þannig byrjaði þetta allt saman hjá mér. Ég pantaði mér nokkur fyrst, svo gat ég ekki hætt! Svo þegar ég flutti heim til Íslands og var á leikskólanum að sækja krakkana mína þá sá ein stelpa þau á hendinni minni og alltaf þegar ég mætti henni spurði hún um armböndin!”

Sigga Birna

Sigga ákvað svo í júní 2019 að panta 200 armbönd og prófa þetta til gamans, en vinkona hennar plataði hana í það: „Fyrst var þetta bara til gamans og aðallega fyrir vini mína og fjölskyldu en svo varð áhuginn meiri og ég ákvað að gera eitthvað meira í þessu.“

Armböndin eru afskaplega falleg, til í öllum litum og hægt er að leika sér að því að setja þau saman og vera með eins mörg og fólk vill á hendinni. Nepali Vibe er nafn armbandanna og segir Sigga Birna að boðskapurinn sé: „Fallegur hugur, gert með hlýju frá konu til konu.“

Fyrirtækið sjálft hóf starfsemi fyrir sjö árum síðan í litlu fjallaþorpi í Nepal. Christina, sem er stofnandi og rekur fyrirtækið í Danmörku bjó í fimm ár í Kína þegar hún var að læra. Þar kynntist hún stelpu frá Nepal. Þegar hún heimsótti svo Nepal sjálf sá hún konur á götunum vera að perla svona falleg armbönd saman og varð strax svo hrifin af þeim. Þegar Christina kom aftur til Danmerkur ákvað hún að stofna fyrirtæki í Nepal til að styrkja konurnar og selja armböndin í Danmörku.

Vinkona hennar sá um að finna konur í vinnu, en þær voru sex heimavinnandi húsmæður, systur, frænkur og vinkonur. Þær hittust tvisvar í viku til að perla. Fengu þær bönd og perlur frá Nepali Vibe og algerlega frjálsar hendur, þær þurfa ekki að taka við skipunum frá neinum.

Nepali Vibe armbånd from Thomas Friis on Vimeo.

Sigga segir: „Þetta er svo gaman, við fáum alltaf allskonar munstur sem þær eru að hanna að vild, alltaf eitthvað nýtt. Þetta er handavinnan þeirra, í hverju armbandi eru yfir 1000 glerperlur og sum eru lausari, önnur fastari o.s.frv. Þau passa á allar hendur.“

Fyrirtækið er nú orðið sjö ára og hefur stækkað töluvert, enda nú 44 konur sem starfa hjá því. Þær fá um 30-40% af heildarsölunni. Nota þær peningana til að mennta börnin sín og komast af.

Armbönd.is

Pin It on Pinterest

Share This