Sjö mikilvægar ástæður þess að börn eiga að drekka meira vatn
Langflestir vita að vatn er nauðsynlegt öllum lifandi verum, og eru börn þar engin undantekning. Allir krakkar þurfa að drekka nægilegt vatn til að næra líkamann og vaxa á heilbrigðan hátt. Líklegt er að barnið þitt drekki fullt af mjólk, djús og gosi en þessir drykkir koma ekki í stað daglegrar vatnsinntöku. Allir þessir drykkir innihalda sykur sem hefur þurrkandi áhrif á líkamann. Vatn og aðeins vatn telur þegar kemur að vatnsinntöku. Reyndu að fá barnið til að drekka eins mikið vatn og mögulegt er, en börn á skólaaldri ættu að drekka sex til átta bolla af vatni á dag. Þumalputtareglan er einn bolli fyrir hvern aldur til átta ára aldurs. T.d. ætti fjögurra ára barn að drekka fjóra bolla af vatni á dag, sex ára sex bolla o.s.frv.
Svo er ekki nóg að skipa barninu fyrir! Foreldrar ættu að setja gott fordæmi og drekka vatn sjálfir. Gott er að kaupa t.d. flottan vatnsbrúsa fyrir barnið til að fá það til að drekka meira.
1.Vatn hjálpar meltingunni og virkni líffæra
samkvæmt Kids Health er vatns þörf fyrir alla virkni líkamans og líffæranna. Vel vökvaður líkami virkar alltaf betur og á auðveldari hátt. Vatn hjálpar líkamanum að melta matinn, sem er nauðsynlegt einnig til að skila honum út. Því meira vatn sem barnið drekkur, því betur skilar það matnum út og stuðlar að heilbrigðum þörmum. Börn verða að drekka vatn til að forðast hægðatregðu og tengd vandamál.
- Vatn hjálpar við svengdartilfinningu
Að drekka vatn hjálpar barninu að vera satt lengur og leiðir það til minni pirrings. Oft, þegar við höldum að við séum svöng, erum við í raun þyrst. Hungur og þorsti geta oft ruglast hjá börnum. Þegar barnið biður um snarl, bjóddu því vatn fyrst. Þú getur líka gert það milli mála eða ef ekki er langur tími síðan það borðaði síðast.
- Vatn dregur úr kvíða
Vatn er ekki eingöngu gott fyrir líkamann heldur einnig andlega og tilfinningalega heilsu. Börn sem þjást af kvíða ættu að drekka meira vatn.
Very Well Family útskýrir í grein að vatn hjálpar til við hormóna- og næringarefnaflutning líkamans, til líffæranna og heilans. Ef barn fær ekki nægilegt vatn getur virkni líkamans hægt á sér og hormónar fara ekki þangað sem þeir eiga að fara sem getur orsakað kvíða
- Vatn hressir
Þegar börn eru þyrst verða þau oft þreytt. Það er ofþornun að segja til sín og vatn getur í raun látið barnið vakna , því það hjálpar líkamanum við að framleiða orku og þegar börn drekka ekki nóg verða þau þreytt. Þetta á oft við í skólum ef vatn er ekki aðgengilegt hvar og hvenær sem er. Sendu barnið með vatnsbrúsa í skólann og passaðu að það drekki fyrir og eftir skóla og einnig um helgar
- Vatn kemur í veg fyrir ofþornun
Það skiptir miklu að börn hafi nægilegan vökvabúskap. Þau eru lítil og þorna fyrr upp en fullorðnir, sem þýðir: Of lítið vatn, líkaminn starfar ekki eðlilega. Ofþornun getur leitt til höfuðverkja, hægari brennslu og getur haft áhrif á skapið.
- Vatn hjálpar ónæmiskerfinu
Þegar vökvabúskapurinn er í lagi, er líkaminn í fullri virkni og er ekki uppspenntur eða í streituástandi. Ef ofþornun á sér stað mun líkaminn ná orku annars staðar frá til að halda áfram að virka. Þetta leiðir til álags á ónæmiskerfið. Þegar barn drekkur nægilega mikið vatn er það í góðum málum.
- Vatn heldur húðinni hreinni
Við höfum rætt að vatn sé mikilvægt öllum líffærum og þar er húðin talin með. Ef þú átt barn á gagnfræðaskólaaldri eða ungling sem er að byrja að fá bólur er nauðsynlegt að fræða þau um að vatn heldur húðinni hreinni. Það ætti að ýta undir vatnsdrykkju.
Heimild: KidsHealth.org