Skordýrafælni barna: Hvað er til ráða?
Það kemur ekki á óvart að mörgum börnum (og fullorðnum reyndar líka) líkar ekki við skordýr. Þegar okkur bregður við, hugsum við ekki um hvaða hlutverki köngulær eða skordýr gegna í umhverfinu. Þess í stað eru þessi litlu kvikindi oftast óvelkomin og geta framkallað allskonar viðbrögð, frá öskrum til gráturs.
Hvað gerist samt þegar þessi litlu dýr valda meira en bara litlum viðbrögðum?
Þegar einhver hefur ótta við eitthvað sérstakt og það hefur áhrif á daglegt líf, getur það verið fælni. Þessi ótti er semsagt eitthvað meira en ætlast mætti til í aðstæðunum. Barn sem hefur skordýrafælni, ótta við pöddur eða köngulær kann að forðast algerlega aðstæður sem það gæti séð eða hitt slíkt dýr, eða orðið skelfingu lostið í návist þeirra. Það vill oft verða svo að þegar fólk er haldið slíkri fælni, skannar það oft umhverfi sitt til að athuga hvort það finnur sökudólginn, og oft finnur það einmitt hann.
Ef þú ert að hugsa: „Hverjum líkar við skordýr- og er þetta í raun vandamál?“ er það í raun rétt spurning. Fullt af krökkum líkar ekki við geitunga eða flugur, til dæmis, en geta samt leikið sér úti eða farið í tjaldferðalag, þau hreinlega færa sig ef þau sjá þetta tiltekna skordýr. Það kann að vera að þau komist í uppnám, en um leið og dýrið er farið, heldur barnið áfram að leika sér eða heldur áfram því sem það var að gera. Það hugsar ekki um það mikið á eftir heldur.
Börn sem haldin eru fælni stjórnast hinsvegar af þessum ótta og heimur þeirra minnkar. Til dæmis gæti barn sem haldið er fælni við pöddur ekki getað farið í tjaldferðalag, eða veigrar sér við að fara út að leika. Slík fælni getur sett allt á annan endann í fjölskyldunni, til dæmis ef ræða þarf það í þaula að fjölskyldan ætli í sumarbústað eða tjaldvagninn og eitt barnið er algerlega sannfært um að þar muni pöddur vera og neitar algerlega að fara. Eða brotnar alveg niður þegar mætt er á staðinn.
The National Institute of Mental Health áætlar að 5-12% Bandaríkjamanna séu haldnir einhverskonar fælni, og 7-9% barna hafi ákveðna fælni, s.s. við dýr, blóð, veður eða eitthvað sem tengist vatni, en þetta þróast allt á unga aldri. Lofthræðsla og annað þróast oft síðar meir á lífsleiðinni.
Líkt og með kvíða styrkir forðun óttann. Því meira sem barn forðast pöddur eða kringumstæður þar sem það gæti séð þær, því minna kvíðið verður það – og það er algerlega rökrétt. Hinsvegar, þegar slíkt gerist missir barnið af tækifæri til að læra í raun hvernig það getur höndlað kringumstæðurnar. Þegar um geitung er að ræða, flýr barnið eða foreldrið verndar það og barnið þarf ekki að höndla ástandið. Ef svo ólíklega vildi til að geitungurinn myndi stinga barnið, yrði í lagi með það (ef það er ekki með ofnæmi).
Ef foreldri myndi athuga baðherbergið á hverjum degi til að athuga hvort þar leyndust pöddur myndi barnið finnast það öruggt, en það myndi senda þau skilaboð að í hvert einasta skipti þyrfti foreldrið að vera með barninu og það ýtir undir kvíðann.
Hvað ætti foreldri að gera?
- Viðurkenndu óttann
- Sýndu hvernig á að höndla kringumstæðurnar án kvíða
- Hjálpaðu barninu að horfast í augu við óttann
- Breyttu til smátt og smátt
Að viðurkenna óttann
Þetta er mjög mikilvægt þegar kemur að fælni því barnið er oftast mun óttaslegnara en foreldrið. Það er auðvelt að segja: „Hún er svo lítil!“ eða „Hafðu ekki áhyggjur af þessu,“ en betra er að láta barnið vita að þú sjáir hversu hrætt það er og skiljir að þetta sé erfitt fyrir það. Segðu: „Ég veit að fljúgandi skordýr hræða þig mikið,“ hjálpar barninu.
Að höndla kringumstæðurnar
Börnin þín fylgjast með þér, þó þú áttir þig kannski ekki á því. Börn sjá foreldrana sem fyrirmyndir og það er mikilvægt að þú leiðir með dæmum. Leitaðu að tækifærum til að sýna hvernig þú bregst við. M.ö.o. ef eitthvað hendir þig sem veldur þér kvíða, láttu barnið vita: „Ég verð að viðurkenna að ég var hrædd/ur um að flensusprautan myndi meiða mig. Svo var þetta bara miklu minna mál en ég hélt.“ Vertu hreinskilin/n og áttaðu þig á að þegar þú deilir slíku með barninu gefur það góða mynd af því hvernig höndla eigi ótta á réttan hátt.
Hjálpaðu barninu að horfast í augu við óttann
Við getum óafvitandi styrkt forðun. Þ.e.a.s. við hjálpum oft börnunum okkar að forðast það sem hræðir þau, og það gerir óttann sterkari. Í stað þess að kjósa borð inni þar sem engin skordýr kunna að vera, veldu borð við gluggann eða úti og segðu: „Ég veit þetta er erfitt, en ég veit þú getur þetta.“
Gerðu breytingar smátt og smátt
Ef barnið þitt hefur átt við mikinn ótta í marga mánuði eða ár, er ekki líklegt að það höndli þriggja daga útilegu úti í náttúrunni. Einnig, ef þú hefur leitað að skordýrum fyrir barnið á hverjum degi geturðu ekki hætt því án áætlunar. Byrjaðu á smáum skrefum. Stundum bara að tala um skordýr eða skoða myndbönd er góð byrjun. Að fara í 10 mínútna göngu í garði er svo frábært næsta skref. Æfing, æfing, æfing.
Það tekur mikla æfingu að gera eitthvað sem maður hefur áður forðast – barnið þarf mikla nánd til að komast yfir óttann. Það þarf að búa til kringumstæður til að horfast í augu við óttann og þola hann. Barnið þarf ekki að elska skordýr, en það þarf að fá æfingu í hvernig það er að vera nálægt þeim án þessara sterku viðbragða sem það hafði áður. Ef þessi ráð duga ekki og ótti barnsins er farinn að hamla ýmsu, s.s. útiveru eða ferðalögum er ráð að leita til fagmanna. Það eru til meðferðir til að höndla óttann og það er mikilvægt að bregðast fljótt við til að lífsgæði barnsins (og fjölskyldunnar) fari ekki dvínandi.