Soffía Bæringsdóttir: „Sumum samböndum er ekki ætlað að endast”

Soffía Bæringsdóttir er reyndur fjölskyldufræðingur og doula. Hún rekur fyrirtækið Hönd í hönd sem sinnir fjölskyldu- og parameðferð ásamt fæðingarstuðningi.

Soffía á þrjár stúlkur og er gift.

Við höfðum áhuga á að vita meira um starf Soffíu og þá sérstaklega pararáðgjöfina og var Soffía svo indæl að svara nokkrum spurningum.

Aðspurð segir Soffía að sennilega sé best fyrir pör að leita ráðgjafar þegar þau ná ekki að útkljá mál sín ein, en hvenær sé besti tímapunkturinn sé einstaklingsbundið: „Reynslan sýnir að því fyrr sem gripið er inn,í því líklegra er að náist að leysa málin. Einhverjar rannsóknir segja að pör komi í parameðferð sex árum eftir að þau átta sig á því að þau geta ekki leyst málin sjálf en mér finnst það oft vera frekar í kringum þriðja árið.

Soffía segir fólk ekki hrætt við að leita sér ráðgjafar: „Í dag eru pör og fjölskyldur líka nokkuð öflug í að leita ráðgjafar áður en að málin verða vandi sem er ánægjulegt svo það er allur gangur á þessu.“

Eru einhver pör útsettari en önnur til að upplifa erfiðleika í samskiptum?

„Mér finnst þetta erfið spurning því það er ekki gott að skipta fólki í flokka og öll pör geta lent í erfiðleikum, sambönd ganga í gegnum tímabil eins og flest í lífinu,en það eru ákveðnar áskoranir sem eru meira krefjandi, svo sem: Samsettar fjölskyldur, þegar annað eða bæði glíma við persónulegar áskoranir svo sem þunglyndi og svo reynsla fólks úr lífinu, uppeldi og fyrri samböndum.“

Er á einhverjum tímapunkti nauðsynlegt fyrir fólk að skilja og halda í sitthvora áttina og slíta samvistum?

„Já, tvímælalaust, sumum samböndum er ekki ætlað að endast og ástæðurnar fyrir því að best sé að halda hvort í sína áttina geta verið margar, frá því að upprunalega hafi verið stofnað til sambandsins á veikum grunni, fólk hafi vaxið í sundur, ítrekuð svik sem ekki er hægt að laga og ofbeldissambönd.“

Soffía Bæringsdóttir, fjölskyldufræðingur og doula

Hvað enda mörg sambönd/hjónabönd með skilnaði?

„Á Íslandi er talað um að allt að 40% sambúða sé slitið, 20% para slíta samvistum á fyrsta æviári barns.“

Áttu góð ráð fyrir pör sem er að vinna sig úr erfiðleikum til að byggja upp samband sitt?

„Fyrsta skrefið er að ná að taka skref til baka og kortleggja aðstæður sínar, samskiptamynstur og líðan. Fyrsta skrefið er að ná að fara úr vörn eða átökum og skoða hvað er í gangi, flestir sjá þá fljótt að samskiptamynstrið er mjög svipað,þó ný málefni komi upp. Um leið og maður áttar sig á að maður dettur í mynstur er hægt að byrja að vinna í því að brjóta mynstrið upp og meðvitað bregðast við á annan hátt.

Annað gott ráð er að gefa sér tíma og byrja á því að setja fókusinn á hvað það er sem maður sjálfur getur lagt í betra samband frekar en að bíða eftir því að makinn breytist,“ segir Soffía en tekur fram að taka verði ofbeldissambönd út fyrir rammann hér.

Hún heldur áfram: „Mörgum pörum hefur reynst vel að taka fyrir ákveðið þema eða efni og lesa/hlusta/horfa á saman og endurspegla út frá sínum samskiptum. Á íslensku má finna góð hlaðvörp, greinar hér og hvar og svo er nóg til að bókum um samskipti og sambönd. Lykillinn er að bæði taki þátt í verkefninu!“

Hvað eru óheilbrigð samskipti og hvað eru heilbrigð samskipti?

„Heilbrigð samskipti pars byggja á jafnræði og virðingu. Í heilbrigðu sambandi ná styrkleikar hvors um sig að skína, traust ríkir og parið leggur sig fram um að sýna gagnkvæman skilning og virðingu. Í heilbrigðu sambandi talar fólk oft um að makinn sé besti vinur þeirra, þau viti að þau geti fengið stuðning og hægt er að ræða málin. Langanir og þarfir beggja eru uppi á yfirborðinu og virtar og mörk og þörf fyrir prívatlíf virt.“ Hvað óheilbrigð samskipti varðar segir Soffía: „Óheilbrigð samskipti geta birst á ólíkan máta en í þeim er ekki jafnræði, andúð og niðurbrjótandi tal og oft miklar sveiflur.“

Er fólki einhver greiði gerður að halda sambandi áfram vegna barnanna?

„Ég held að heilt yfir sé fólk sammála um að börnum er ekki greiði gerður að foreldrar þeirra séu í sambandi þeirra vegna. Það setur mikla og óþarfa ábyrgð á börn. Þegar fólk á börn saman er það þeirra skylda að skoða samband sitt vel og bera ábyrgð á því til að sjá hvort það geti gengið- barnanna vegna en þegar ljóst er að svo er ekki er það ábyrgð og skylda foreldra að fara hvort í sína áttina. Mín reynsla er að fólk með börn hefur ítarlega og vandlega hugsað málið hvort sambandsslit séu besti kosturinn og komist að því að svo sé.“

Getur fólk byrjað á núllpunkti eftir heiftúðleg rifrildi og langvarandi deilur?

„Allt er hægt,“ segir Soffía, „en eftir langvarandi deilur er oft komin djúp gjá á milli fólks þar sem tengingin er farin og traustið lítið. Við hvert rifrildi verður sárið stærra og gjáin dýpri og lengra á milli fólks en með því að staldra við, með góðri aðstoð, miklum vilja og sjálfsvinnu er það hægt og fólk þarf að gefa sér tíma í það.“

Er eitthvað annað sem þú vilt koma áleiðis?

„Takk fyrir þína góðu vinnu!“

 

Pin It on Pinterest

Share This