Eyrún Eggertsdóttir er stofnandi Róró, fyrirtæki sem hannar dúkkuna Luladoll. Lúlla dúkkan er hönnuð þannig að hún myndar djúpan andardrátt og hjartslátt sem gengir m.a því hlutverki að hjálpa börnum með almennar svefnraskanir að sofa betur og auka vellíðan barna. Dúkkan hefur farið sigurför um heiminn og hjálpað fjölmörgum börnum á alls konar hátt og að sjálfsögðu svefnavana foreldrum að öðlast betra líf. Eyrún er með BS í sálfræði frá Hí og diploma frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún er í sambúð með Þorsteini Otta Jónssyni grafískum hönnuði. Saman eiga þau þrjú börn Jökull Otta 10 ára, Bjart Otta 7 ára og Freyju Rún 7 vikna. Eyrún er því í fæðingarorlofi þessa dagana og á meðan hefur hún látið af stöðu framkvæmdarstjóra fyrirtækisins sem hún hefur gengt síðan 2011 og tekið sér stöðu Vörumerkjastjóra á meðan. Við fengum Eyrúnu til að svara nokkrum spurningum fyrir okkur á Mamman.is.

Hver er þinn bakrunnur?

Ég er með BA próf í Sálarfræði frá HÍ. Ég hef einnig Diplóma frá Myndlistarskóla Reykjavíkur en þar var ég í eitt ár í fornámi í hönnun og myndlist. Flest störf sem ég vann áður en ég stofnaði Róró snéru annaðhvort að vinnu með fólki eða hönnun og teikningu.

Viltu segja okkur söguna á bak við Lulladoll, hvernig hugmyndin að dúkkunni kviknaði?

Þegar strákarnir mínir voru litlir var ég meðvituð um þær rannsóknir sem ég hafði lesið í þroskasálræði um jákvæðu áhrif sem nærveru og vellíðan hefur á ung börn. Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að þegar börn eru nálægt foreldrum sínum og geta heyrt hljóðin í hjartslætti þeirra og andardrætti þá stilla þau sig inn á sama takt sem að verður til þess að líðan þeirra og svefmynstur verður stöðugra. Þau ná að sofa lengur í senn, þau gráta minna, þyngjast hraðar, taugaþroski eykst, hjartsláttur og andarráttur verður stöðugri og það minnkar jafnvel líkur á magakveisu. Það var svo þegar vinkona mín átti stelpuna sína fyrir tímann og þurfti að skilja hana eftir á spítalanum á næturnar í nokkrar vikur sem að hugmyndin að Lúllu kviknaði. Ég fór að leita á netinu eftir vöru á sem að líkti eftir nærveru sem að gæti hjálpað stúlkunni litlu sem var óróleg á nóttunni og átti til að taka öndunarhlé. En mér til mikillar furðu þá var leitin árangurslaust og ég fann enga vöru sem sameinaði þá þætti sem ég taldi mikilvæga – sem eru mjúkt efni sem getur flutt lykt frá foreldri (og sem má þvo), og náttúruleg hjartsláttar og öndunarhljóð foreldris í slökun og langur spilunartími hljóðs. Þetta eru grunnþættir Lúllu dúkkunar. (meira um dúkkuna, reynslusögur og fréttir á lulladoll.com)

Hvert er hlutverk Lulladoll?

Lulla doll er hönnuð til að líkja eftir nærveru við aðra manneskju og með því stuðla að bættari svefni og aukinni vellíðan.

Hún á ekki að koma í staðinn fyrir raunverulega samveru -sem er alltaf best- heldur að hjálpa á þeim stundum sem að hún er ekki möguleg. Fólk notar hana á misjafna hátt eftir aldri barns, og sínum persónulegu þörfum og venjum. Sumir nota hana sérstaklega til að svæfa, önnur börn eiga til að vakna oft á næturnar eða taka slitrótta daglúra og hefur hún hjálpað mörgum að ná samfelldari svefni, hún getur hjálpað til að róa börn sem eiga erfitt með bílferðir og nokkur taka hana með í hvíldina í daggæslu. Við höfum heyrt dæmi þess að einhverf börn sem eiga erfitt með snertingu við aðra finnist gott að hafa dúkkuna og hún hjálpi börnum með ADHD að róast og útiloka truflandi áreiti í umhverfinu. Einnig hefur hún verið notuð fyrir aldraða með heilabilanir og við höfum fengið nokkrar sögur af gæludýrum sem hafa tekið ástfóstri við Lúllu.

Hvernig náðuð þið að fjármagna fyrstu framleiðslu?

Við fjármögnunum fyrstu framleiðslu bæði með framlagi frá fjárfestum og svo hópfjármögnun. Við völdum platformið Indiegogo sem er alþjóðlegur vettvangur og keyrðum það í einn mánuð í lok árs 2015. Það var mjög skemmtilegur en á sama tíam mjög strembinn mánuður þar sem við djöfluðumst við að gera allt og ekkert sem okkur datt í hug til að ná markmiðinu. Þann mánuðinn hélt ég meðal annars fimm fyrirlestra um hin ýmsu málefni, var í þremur útvarpsviðtölum, birtist í Kastljósi og Íslandi í Dag, við héldum partý, sendum greinar og innslög útum allan heim með hinum ýmsu áherslum, hringdum í vinnustaði, leigðum bás í Kringlunni og það fyndnasta var held ég þegar við birtumst í stuttu innslagi á hip-hop stöð í Bandarísku útvarpi.

Lulladoll hefur hlotið viðurkenningar og umfjallanir á heimsvísu, viltu segja okkur frá þeim?

Lúlla náði fyrst mestum vinsældum í Ástralíu svo að þegar seinna upplagið af henni var tilbúið um haustið 2016 þá seldist hún upp á mjög skömmum tíma. Þá var enn mikil eftirspurn og reynslusögurnar um “kraftaverkadúkkuna” eins og hún var kölluð voru byrjaðar að breiðast út. Nokkrir einstaklingar settu stakar dúkkur á uppboð á Ebay og hófst þó tilboðs-stríð en dýrasta eintakið sem við sáum var selt á yfir 600 dollara. Einn fréttamiðill í Ástralíu orðaði þetta svona “A SLEEP-INDUCING doll has parents waging Game of Thrones-style battles on eBay, all in the name of a good night’s sleep.”

Þessi uppboð vöktu svo athygli heimspressunar og fréttir að Lúllu birstu m.a. í Daily Mail, US Weekly, Good Housekeeping, Huffington, Daily Telegraph, Sun, Yahoo, Babyology, Today Show Australia og Today Show USA.

Þetta varð til þess að öll seinni framleiðslan okkar sem taldi 30 þúsund stykki seldist upp á tveimur vikum.

Síðan þetta hefur Lúlla einnig fengið viðurkenningar fyrir hönnun, og sem besti “huggarinn” (comforter) og svefnhjálpartæki frá Íslandi, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Englandi.

Hvað eruð þið margar sem starfið hjá fyrirtækinu?

Við erum fjórar í fullu starfi, Framkvæmdarstjóri, ég (vörumerkjastjóri) og tvær sem sjá um markaðsstarf og þjónustu við viskiptavini og svo eru tveir hönnuðir í hlutastarfi. Einnig vinnum við með teymi í Kanada sem sér um framleiðslu og sendingar, og svo höfum við sölu- og dreifingaraðila víða um heim sem við erum í nánu samstarfi við.

Nú ert þú í fæðingarorlofi, sinnir þú fyrirtækinu samhliða orlofinu? Ef já hvernig gengur að sameina þessi hlutverk?

 Ég er strax aðeins farin að kíkja í vinnuna – við Freyja erum búnar að fara nokkrar ferðir í á skrifstofuna og svo er ég alltaf eitthvað að stússast og pæla. Það hefur bara verið skemmtilegt og ég get ekki hugsað mér að vera alveg útúr í lengri tíma. Það er svo frábært að hafa gott teymi til að treysta á svo að ég get tekið þessu með ró og gert eins mikið og ég treysti mér til.  Þetta fer líka vel saman við að vera með lítið barn, þ.e.a.s fókusin á barnavörur, umræðu, málefni og trend.

Viltu deila með okkur reynslu sögu af Lulladoll?

 Við höfum fengið svo ótalmargar góðar sögur. Það hreyfir mest við mér að heyra þegar dúkkan hefur haft jákvæð áhrif á börn og foreldra sem eru í virkilega erfiðri stöðu. Sumir foreldrar hafa verið vansvefta mánuðum saman og við höfum ósjaldan fengið send mjög tilfinningarík skilaboðin á borð við- “takk fyrir að bjarga lífi mínu”, “áhrifin eru ótrúleg (amazing) og ein kona sagði “mér líður loksins eins og manneskju aftur”.

Hvar er hægt að kaupa dúkkuna?

Við ákváðum að selja ekki dúkkuna sjálf í netverslun hér á Íslandi en setja það í hendur nokkurra vel valinna verslana. Nú er hægt að kaupa dúkkuna hjá Petit, Tvö Líf, Póley og einnig í verslun Duty Free.

Hvað er framundan hjá Lulladoll?

Við stefnum á að stækka hluta okkar á Bandaríkjamarkaði en stelpurnar eru einmitt á leiðinni til LA á sýningu í lok þessa mánaðar. Svo er frekari vöruþróun framundan, en þá er planið að stækka vörulínuna hennar Lúllu og allar vörur frá okkur munu eiga það sameiginlegt að snúa að svefni og vellíðan.

Hér er listi söluaðilla Lúlladúkkunar á Íslandi: Petit, Tvö líf, Iglo+Indi, I am happy og Póley í Vestmannaeyjum, auk Duty Free á Keflavíkurflugvelli.

 

Við þökkum Eyrúnu kærlega fyrir spjallið og óskum henni og Lúlla dúkkunni góðs gengis í framtíðinni.

Auður Eva Ásberg 

 

Pin It on Pinterest

Share This