„Sykur fer mjög illa í skapið á minni stelpu“
Læknaneminn Álfhildur Ösp Reynisdóttir býr í Álaborg í Danmörku og mun hún ljúka læknisfræði næsta vor. Hún og unnusti hennar keyptu sér íbúð á Íslandi sem þau ætla að gera upp í sumar og flytja svo heim á næsta ári.
Dóttir Álfhildar verður þriggja ára eftir tvær vikur og er henni er umhugað um að hún fái sem næringarríkasta og holla fæðu. Álfhildur heldur úti síðunni Barnabitar á Instagram þar sem hún sýnir foreldrum uppskriftir sem henta börnum, enda eru þær fallegar, einfaldar og fljótlegar.
View this post on Instagram
Þegar dóttir Álfhildar var þriggja, fjögurra mánaða fór brjóstagjöfin að ganga brösuglega að sögn Álfhildar og hún virtist óánægð og ekki vera að fá nóg: „Sama hvað ég reyndi að gera – borða meira, drekka mikið vatn, drekka mjólkuraukandi te og prófaði öll ráðin í bókinni þá gekk þetta bara ekki. Ég tók þetta mikið inn á mig, sem er ábyggilega ástæðan fyrir því að ég lagði strax svona mikið púður í matinn hennar. Ég hafði lesið mér mikið til og lærði að það sem skipti mestu máli (með fjölbreytni) væri að vera staðfastur og bjóða það sama aftur og aftur og aftur. Ég ákvað þess vegna, til að skora á sjálfa mig og á sama tíma mögulega að veita innblástur, að búa til Instagramsíðu með matnum hennar. Viðtökurnar urðu mjög hratt svo ótrúlega góðar að það varð ekki aftur snúið!“
Álfhildur leggur mikið upp úr því að maturinn sem hún setur inn sé ekki bara næringarríkur heldur líka fljótlega gerður: „Seinnipartinn þegar orkan á heimilinu er ekki alveg sú mesta, er þægilegt að geta gripið í einfalda hluti og á sama tíma gefið góða næringu.“ Instagramsíða Barnabita er dásamlega falleg og maturinn afskaplega girnilegur. Er maturinn alltaf svona? „Það er auðvitað ekki meginatriði að maturinn sé fallega framreiddur, aðalatriðið er innihaldið. Stelpan mín hefur samt ótrúlega gaman af þessu og oft verið mun spenntari fyrir matnum, þegar hann er skemmtilega lagður á borðið.“
Hversu mikilvægt er að foreldrar gefi sér tíma að elda mat fyrir barnið/börnin, að þínu mati?
„Ég er mjög meðvituð um það á sama tíma að vera einlæg og setja ekki pressu á mæður – mér finnst hún nóg nú þegar. Þetta eru bara mínar hugmyndir og ber ekki að taka sem heilögum. Mæður þekkja sín börn best og börn eru eins misjöfn og þau eru mörg.“
Sérð þú mun á þínu barni eftir því hvað það borðar?
„Ég sé mikinn mun á stelpunni minni eftir hvað hún borðar. Það er auðvitað misjafnt eftir börnum, en mikill sykur fer mjög illa í skapið á minni stelpu.“
View this post on Instagram
Hvert er svo næsta skref? Bók kannski? „Ég veit ekki alveg sjálf hversu langt ég geng með síðuna. Nokkrir góðir í kringum mig hafa ýtt í mig og bent mér á að ég ætti að gera bók. Ég veit sjálf ekki hvort ég leggi í það, með læknisfræðinni og móðurhlutverkinu – en hver veit, það væri ótrúlega gaman!“