Nafn: Arite Fricke
Nokkur hlutverk: Flugdrekahönnuður, grafískur hönnuður, kennari, nemandi og mamma
Hjúskaparstaða: Gift
Börn: Magnús 10 ára og Heiðrún 8 ára.

Hver er þinn náms og starfsferill?

Ég lærði skiltagerð og lauk sveinsprófi árið 1997 í Þýskalandi og útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 2001 frá Fachschule für Werbegestaltung í Stuttgart. Ég vann aðallega sem grafískur hönnuður bæði á auglýsingastofum og heima sem freelance hönnuður. Árið 2010 hlaut ég postgraduate diploma í International Hospitality Management og vann bæði á hótelum og ferðaskrifstofum til 2013. Ég fór síðan aftur í skóla árið 2013 og kláraði meistaranám í hönnun frá LHÍ árið 2015. Undanfarið hef ég verið að kenna skapandi flugdrekagerð og klára diplomanám í listkennslu frá LHÍ og útskrifast þaðan í júni 2016.

Það er fyrirhugað að ég muni kenna sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Listasafni Árnesinga og í Búðardal núna næsta sumar, svo það verður mikið um að vera hjá mér á næstunni!

Hvernig tekst þér að sameina foreldrahlutverkið vinnunni?

Það krefst mikils skipulags og hæfileika til að vera í núinu. Vera vakandi fyrir því hvað er nauðsynlegt og hverju má sleppa. Við deilum áhuga á  flugdrekum sem fjölskylda. Það er verið að pæla í eðlisfræðilegum lögmálum þegar flugdrekinn er smíðaður, prófa ný efni eða liti eða bara að vera úti og velja besta flugdrekan fyrir vindinn þann daginn. Í sumarfríinu förum við lika saman að veiða og ætlum að reyna að vera að minnsta kosti eina viku í sumar í tjaldvagni. Svo er Magnús oftast úti með vinum sínum á þeim fótboltavöllum sem eru nærri miðbænum. Heiðrún er hestaáhugastelpa og er hún á námskeiði einu sinni í viku.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum virkum degi?

Við borðum alltaf saman morgunmat, svo fer ég gangandi eða hjólandi í skólann ef veður leyfir. Ég er að klára námið og þarf að skrifa mikið. Svo er ég lika að pæla mikið í flugdrekunum, að reyna finna minn eigin stíl. Ég mun halda sýningu í lok maí svo það er nóg að gera! :-).  Seinni partinn eða eftir klukkan fjögur á daginn kem ég heim og er með krakkana. Þá er smá leiktími heima svo er lestur eða annar heimalærdómur. Á kvöldmatartíma eldum við mat og eftir matinn er svo fljótlega farið í rúmið til að lesa fyrir svefninn. Við hjónin horfum oft saman á bæði íslenskar og þýskar fréttir á netinu þar sem við erum ekki með sjónvarp. Stundum horfum við líka á þýska spennuþætti en ég fer eiginlega aldrei seint að sofa. Nægur svefn er mér mjög mikilvægur.

Hvað finnst ykkur gaman að gera um helgar?

Við höfum byggt okkur hús í sveitinni. Það er bara frábært að hafa þann möguleika að skreppa úr bænum og breyta til. Þarna er ýmislegt hægt að gera. Við erum mikið fuglaáhugafólk og bíðum spennt eftir vorinu, og t.d. núna í vetur höfum við séð uglu og ref á sveimi. Við förum mikið í sund og erum úti eins mikið og hægt er, t.d. við smíðar, í gönguferðum eða bara í frjálsum leik.

Geturðu lýst í stuttu máli muninum á þínum uppvexti og svo uppvexti barnanna þinna?

Heiðrún með hestana sína tvo sem hún sinnir vel

Þegar ég var að alast upp í sósialísku ríki Austur-Þýskalands var mikill agi og lögð áhersla á að uppfylla reglur og væntingar samfélagsins. Það þótti ekki gott að tjá sig um eða hafa eigin skoðanir á ákveðnum málum ef þær stönguðust á við stefnu stjórnvalda. Í náminu minu undanfarin þrjú ár gekk ég í gegnum þá mikilvægu og stundum erfiðu vinnu að finna “sjálfa mig” og mitt hlutverk utan heimilis og hvað mig langaði virkilega að gera.

Við sem foreldrar leggjum hinsvegar mikla áherslu á að leyfa börnunum að rækta sín áhugamál og byggja upp sjálfstraust og góða sjálfsmynd. Mér finnst mikilvægt að virkja þau til að hugsa sjálfstætt og finna lausnir og svör við ýmsum spurningum sjálf í staðinn fyrir að við sem foreldrar séum að mata þau. Einnig kennum við þeim að bera virðingu fyrir öðrum og skoðunum þeirra, en standa samt með sjálfum sér.

Hvað er framundan hjá þér?

Ég er að þróa áfram meistaraverkefni mitt Hugarflug eða Playful Workshops. Ég mun kenna á ýmsum stöðum í vor og sumar eins og í Gerðubergi, Listasafni Árnesinga í Hveragerði, í Búðardal. Einnig verð ég með sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Ég fékk nýsköpunarstyrk fyrir hugmynd um náms- og kennsluvefinn Loft- og Vatn þar sem ég mun safna flottum verkefnum sem kennarar eru að vinna með nemendum sínum þar sem þeir nýta sér vind- eða vatnsorku. Þessi vefur á að veita innblástur fyrir kennara, nemendur og foreldra þar sem fræðsla og leikgleði sameinast.

Verkefnin eru mörg en spennandi og snúast um það sem mér þykir skemmtilegast að gera. Ég er þakklát fyrir það.

DSCF4143

Vefur Arite: hugarflug.net

Viðtal tók: Helga Óskarsdóttir
Ljósmyndir: Una Haraldsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This