Hver kannast ekki við það að vakna upp úr sælgætis- og ofátsdái? Oftar en ekki á þetta sér stað á sunnudagskvöldi þegar “nammidagurinn” hefur teygt anga sína töluvert lengra en ætlunin var! Þá fara menn að girða sig í brók og taka ákvörðun um að næsta vika verði betri. Oftar en ekki springur maður á “limminu” áður en vikan er hálfnuð. Ó, þú auma sælgætis- löngun!
Svo þegar tekist hefur að halda út megnið af vikunni í hollustunni kemur oft upp sú hugsun að nú ætti vel við að veita sjálfum sér verðlaun! Þá er ferðinni heitið á næsta skyndibitastað með viðkomu á nammibarnum. Einnig eigum við til að gera slíkt hið sama þegar kemur að börnunum, við verðlaunum þau með sælgæti!
Hvers vegna gerum við það? Við erum að “verðlauna” okkur og börnin með óhollustu sem getur stuðlað að verri heilsu í framtíðinni!
Margir gera sér ekki grein fyrir því að í dag er svo mikið úrval af hollum og spennandi mataruppskriftum sem veita okkur vellíðan. Því oftar en ekki veldur óhollt matarræði okkur líkamlegri vanlíðan í marga daga.
Ég er ofboðslegur sælkeri, elska að borða, elda og tala um mat af öllu tagi. Ég lofa að það er svo sannarlega hægt að njóta án þess að gera sér illt. Það er auðveldlega hægt að elda og baka á hollari máta án þess að maturinn verði verri. Uppskriftir sem virka oft flóknar á pappír eru það yfirleitt ekki þegar betur er að gáð.
Hér kemur uppskrift dagsins.
Í dágóðan tíma hef ég fylgst með írskum bloggara sem heitir Ursula. Hún gengur undir nafninu momfitnessdiary á snapchat og er með bloggið momfitnessdiary.blogspot.ie Hún er með eindæmum dugleg að elda hollan og góðan mat og passar uppá að enginn matur fari til spillis.
Þessa uppskrift frá henni, af gómsætum bananapönnukökum, prófaði ég og þær er hægt að fá sér í morgunmat án nokkurs samviskubits. Þessar pönnukökur innihalda aðeins nokkur hráefni sem leynast gjarnan í eldhússkápnum allan ársins hring og eru auðveldar í bakstri.
Bananapönnukökur:
1 banani
½ bolli hafrar (hægt að kaupa glútenlausa hafra í næstu verslun)
1 egg
½ tsk lyftiduft (vínsteins lyftiduft fyrir þá sem ekki þola glúten)
½ tsk vanilludropar
¼ bolli mjólk (má að sjálfsögðu vera soja-, möndlu-, eða önnur mjólk)
kanill (eftir smekk, má sleppa)
Aðferð:
Byrjið á að setja hafrana í blandarann og búa til hafrahveiti (þetta er lykilatriði því annars sitjið þið bara uppi með blauta hafraklessu á pönnunni)
Bætið svo restinni af hráefnunum út í og blandið vel. Ef blandan er of þykk þá er alltaf hægt að bæta meiri mjólk út í en passið að hún verði ekki of þunn því þá verður erfiðara að fá pönnukökurnar til að haldast saman.
Svo er bara að spreia smá olíu á pönnu og baka pönnsurnar.
Þessi uppskrift dugar, í frá tveimur velþykkum og stórum, upp í sex litlar pönnukökur.
Það er ekkert mál að baka mikið magn og frysta. Því eru þessar pönnukökur upplagðar í máltíðaundirbúning (mealprep).
Ég set fersk ber, valhnetur og smá (og þá meina ég smá) hunang á pönnukökurnar eða smyr þær með ca. hálfri teskeið af möndlusmjöri.
Ég fjárfesti í vöru um daginn sem heitir Sweet Freedom en hún fæst aðeins í Holland & Barrett í Englandi. Ég pantaði mér nokkrar dollur, en um er að ræða sýróp, bæði venjulegt og með súkkulaðibragði sem kemur í stað venjulegs hunangs eða sýróps og inniheldur færri kaloríur og minni sykur. Þetta er sjúklega gott á pönnukökurnar.
Að baka þessar pönnukökur og eiga þegar nammipúkinn bankar upp á er snilldin ein.
Vonandi njótið þið vel og hafið fundið þarna lítið leyndarmál til þess að halda sætindalönguninni í skefjum án þess að tæma nammibarinn.
Höfundur:
Karlotta Ósk Jónsdóttir