Poppskálin frá Lékué sem seld er í Dúka er algjör snilld sem ég kynntist um daginn. Ég hef verið að hreinsa til í mataræði mínu og hef því reynt að hafa fæðuna sem hreinasta og umfram allt þá vil ég vita hvað ég er að setja ofan í mig. Ég elska popp og hef í gegnum tíðina verið stór styrktaraðili framleiðenda örbylgjupopps sem er kannski ekki það hollasta sem til er og eins getur verið erfitt að átta sig á innhaldsefnunum í því. Ég hef hreinlega verið löt við að poppa mér sjálf popp í potti og ef ég hef brett upp ermarnar og gert slíka tilraun þá hef ég yfirleitt brennt poppið við og endað á því að þurfa að loftræsa íbúðina og henda viðbrenndu poppinu í ruslið. Þess vegna varð ég svo glöð þegar ég uppgvötvaði þessa snilldarpoppskál frá Lékué sem er úr platínum silikoni. Það eru mælieiningar í botninum sem sýna magnið af poppmaísnum og svo þarf smáklípu af smjöri eða olíu, ég t.d nota yfirleitt kókosolíu á mitt popp því hún gefur svo góðan keim, hendi svo skálinni inní örbylgjuofn í 2-3 mínútur og voila, hollt og gott popp tilbúið án aukaefna!

Eins er hægt að prófa alls konar útfærslur af poppi. Mér finnst æði að setja Herbamare kryddblöndu yfir. Í henni er hafsalt með kryddjurtum þannig að hún er einstaklega góð með poppi. En hér ætla ég að láta fylgja eina uppskrift af poppi með karrí.

Bollywoodpopp

  • poppmaís + olía eða smjör
  • 20 g  smjör
  • Tæplega 1 tsk karrí
  • 15 gr kókosmjöl stráð yfir

Poppaðu eina skál af poppi með Lékué skálinni þinni. Bræddu smjörið og blandaðu karríinu saman við. Þegar poppið er tilbúið hellir þú karríblöndunni og kókósmjölinu yfir poppið og þá er karrípoppið tilbúið. Njótið!

Þessi færsla er ekki kostuð.

 

Pin It on Pinterest

Share This