18 Rauðar rósir er falleg og rótgróin blómabúð staðsett í Hamraborg í Kópavogi. Didda, eigandi versluninnar, og Inga Víðis, starfsmaður þar eru blómaskreytar og óhætt að kalla þær fagmenn með græna fingur. Þær fylgjast vel með nýjustu tískustraumum í blómaskreytingum. Ég kíkti í búðina til þeirra og viðmót þeirra var hlýlegt og vingjarnlegt. Ég fann strax að þarna væri ég í góðum höndum við val á brúðarvendinum mínum og skreytingum í veisluna en brúðkaup er framundan hjá mér. Þær hlustuðu á þær hugmyndir sem ég hafði og það var nánast eins og þær læsu hugsanir mínar því þær skildu alveg um leið hvað ég hafði í huga. Þær sýndu mér myndir og blóm sem hæfðu þeim hugmyndum sem ég var með og fljótlega vorum við komnar að niðurstöðu um hvernig við myndum hafa þetta.

18rosir

Inga og Didda reyndust mjög hjálplegar þegar kom að því að velja réttu blómin og litasamsetningu í brúðarvöndinn.

Mig langaði líka að forvitnast um tískustrauma í skreytingum, hvort miklar breytingar séu ár frá ári og einhverjir ákveðnir litir allsráðandi á tímabilum. Einnig lék mér forvitni á að vita muninn á sumar- og vetrarbrúðarvöndum og öðrum skreytingum eftir árstíðum. Hér fáum við nokkur góð ráð frá þeim stöllum sem gott er að hafa í huga þegar valinn er vöndur fyrir stóra daginn.

 

 

Með hve miklum fyrirvara er gott að panta skreytingar og brúðarvönd fyrir brúðkaupsdaginn?

Það er alltaf gott fyrir brúðina að velta vel fyrir sér hvernig hún vilji hafa vöndinn sinn og taka þá líka tillit til hvernig kjóllin er. Gott er að skoða á netinu, í blöðum og mynda sér skoðun um liti og lag. Kíkja svo til okkar með frumhugmyndir sínar og við förum yfir málin í sameiningu. Stundum þurfum við að panta blóm erlendis frá svo gott er að geta gert endanlega pöntun með tveggja til þriggja vikna, eða jafnvel lengri, fyrirvara. Auðvitað reddum við eftir bestu getu, því sem hægt er, þó fyrirvarinn sé styttri.

Eru einhverjir ákveðnir litir áberandi í skreytingum og vöndum þetta sumarið?

Bleikt er alltaf mjög vinsælt á sumrin og hvítt sem og allir bjartir sumarlitir. Um þessar mundir eru áberandi svona”gammel” rómantískur bleikur litur og ferskjulitur.

Eru aðrir litir einkennandi fyrir vetrarbrúðkaup?

Brúðarvendir eru frekar klassískir en ef eitthvað er þá er aðeins meira um einlita vendi á veturna, þá einna helst rauða og hvíta.

Hvernig vendir eru vinsælastir? (stórir, kúptir, langir, litlir) Verðið þið varar við að það sé mismunandi eftir aldri brúðarinnar eða stærð brúðkaupsins?

Undanfarin ár hafa kúluvendir verið lang vinsælastir þ.e.a.s handbundnir kringlóttir vendir í nettari kantinum, þó aðrar útfærslur séu einnig áberandi. Eldri konur, sem eru jafnvel ekki að gifta sig í fyrsta sinn, kjósa yfirleitt frekar einfaldari og nettari vendi.

Hvað þarf að hafa í huga þegar salurinn er skreyttur með blómum?

Þegar blóm eru notuð til skreytinga á veisluborðum kemur vel út að nota háa glervasa og skreyta ofan í þá, þannig njóta blómin sín best. Oftast eru brúðhjónin búin að ákveða litaþema og þá er gott að halda sig við þá liti í skreytingum líka. Allir litlu hlutirnir skipta máli t.d servíettur og kerti setja ótrúlega mikinn svip á heildarmyndina á salnum. Handbundnu kúluvendina er hægt að setja í vasa og leyfa vendinum að njóta sín í veislunni t.d skreyta háborðið með honum, muna bara að hafa stilkana bera neðst í vatni

 Hvernig er hægt að halda vendinum sem lengst ferskum?

Til að láta blómin endast sem lengst skal passa að hafa hreinan vasa og skipta reglulega um vatn, gott er að geyma vöndinn á frekar dimmum stað og ekki láta sólina skína á hann.

Er hægt að gera eitthvað við vöndinn eftir brúðkaupið?

Það fer eftir því hvernig blóm eru í honum og hvernig þau þurrkast en best er að  þurrka rósir.

Við hjá mamman.is þökkum stelpunum hjá 18 Rauðum rósum fyrir frábær ráð. Falleg blóm og skreytingar geta svo sannarlega hjálpað til við að skapa fallegar minningar á brúðkaupsdeginum sem og öðrum viðburðum á lífsleiðinni.

Í blómabúðinni 18 Rauðar rósir í Hamraborg má finna mikið af fallegum gjafavörum.

Pin It on Pinterest

Share This