Á sumrin langar mann oft í eitthvað létt og frískandi og þessi réttur er það einmitt. Það er ekki venjulegt pasta í þessum rétti heldur svokallað kúrbítspasta sem er bara eintómur kúrbítur sem búið er að skera í ræmur með spíralskera. Spíralskerar fást í flestum verslunum sem selja áhöld til matargerðar en það er hægt að nota rifjárn í staðinn fyrir þá.

Eins og sést á fyrirsögninni er þetta svo einfalt að það tekur enga stund að skella í þennan holla og bragðgóða rétt. Hægt er að hafa „pastað“ eitt og sér eða bæta við það grilluðum kjúklingi, skinku eða öðru kjöti eftir smekk hvers og eins.

Uppskrift: (Þessi uppskrift miðast við 6 manns)

  • 1 dós Philadelphia rjómaostur með hvítlauk og jurtum
  • 1 dl mjólk
  • 4 spíralaðir Kúrbítar
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 4 kjúklingabringur bakaðar í ofni (ég nota cajun krydd á kjúklinginn)
  • Ferskur parmesan ostur

Aðferð:

  • Byrjið á að skella kjúklingnum í ofninn og steikið hann þar til hann er tibúinn.
  • Á meðan kjúklingurinn er eldaður er upplagt að spírala kúrbítinn.
  • Setjið rjómaostinn og mjólkina í pott og hrærið vel saman og hitið þar til osturinn er orðinn að sósu. Passið upp á hitann, það er betra að hafa stillt á miðlungshita svo osturinn brenni ekki við.
  • Kúrbíturinn léttsteiktur á pönnu í 2-3 mínútur og svo er sósunni hellt yfir.

Berið þetta fram með kjúklingnum (eða öðru kjöti), saltið og piprið eftir smekk og rífið góðan slatta af ferskum parmesan yfir. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og/eða fersku salati. Yndislega léttur og góður réttur fyrir sumarið.

Bon apetit!

Karlotta Ósk Jónsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This