Una Haraldsdóttir fagnar 23 ára afmælsideginum sínum í dag. Hún er einnig nýbökuð móðir lítillar stúlku sem hún eignaðist með unnasta sínum Orra Eiríkssyni fyrir um mánuði síðan. Litla stúlkan var plönuð en margir urðu hissa á því hvers vegna þau drifu sig í barneignum, enda kornungt parið enn að mennta sig og “nægur” tími til barneigna eða hvað?

Hún Una skrifaði pistil og birti á Facebook síðu sinni í gær. Ég fékk góðfúslegt leyfi hennar til að birta færsluna í heild sinni. Þar kemur berlega í ljós að stundum þarf að breyta forgangsröðinni í lífinu til þess að verða þess aðnjótandi að eignast barn og ganga með. Takk fyrir að deila þessari lífsreynslu með okkur og gangi þér vel í nýja hlutverkinu.

Hér er færslan hennar Unu.

Á morgun verð ég 23 ára. Í stóra samhenginu er það sjálfsagt ekki hár aldur en eggjastokkarnir mínir virðast ekki vera alveg á sama máli.

Fyrir rúmu ári síðan lenti ég á tali við stelpu sem var nokkrum árum eldri en ég. Hún átti barn sem hún hafði eignast 22 ára. Þar sem framtíðarplan mitt og flestra sem ég þekkti voru nokkurn veginn á þennan veg: klára nám (án þess svo sem að vita þá hvað ég vildi læra), fá góða vinnu (án þess að vita hvað ég vildi vinna við), finna mér maka (var reyndar vel sett í þeim málum), kaupa fallegt hús (svo fjarlægt markmið að það glitti ekki einu sinni í það) og þegar allt þetta væri komið á hreint; eignast börn, þá fékk ég það út að það hlyti að vera mjög ópraktískt að vera eitthvað að rugla í kerfinu og færa barneignir framar í röðina. Ég skildi ómögulega hvernig hún hefði farið að því að ná sér bæði í gráðu og góða vinnu og stússast í að ala upp krakka á meðan. Ég gerðist svo djörf að spyrja hana hvort barnið hefði verið planað eða hvort hún hefði “óvart” orðið ólétt. Hún sagði mér að hún hefði farið í blóðprufu sem sagði til um eggjafjölda hennar og komist að því að hún hefði ekki mörg ár til þess að eignast börn. Þess vegna ákváðu hún og kærastinn hennar að drífa í því á meðan þau gætu. Hún sagði mér líka að hún hefði ekki séð eftir því einn einasta dag.

Þessi umrædda blóðprufa sat í mér í marga daga á eftir. Ég losnaði ekki við þá tilfinningu að ég ætti að láta athuga þetta hjá mér en þar sem ég get státað mig af ansi skrautlegri sjúkrasögu fannst mér ekkert svo ólíklegt að það gæti hafa haft áhrif á eggjabúskapinn. Verandi glasabarn sem á tvö ættleidd systkini vissi ég líka að frjósemi er ekki sjálfsagður hlutur og að í mörgum tilvikum koma börnin alls ekki af sjálfu sér. Ég fékk tíma hjá lækni sem skoðaði mig í bak og fyrir og þrátt fyrir vægt legslímuflakk leit allt eðlilega út. Þegar ég nefndi blóðprufuna voru fyrstu viðbrögð læknisins að hún væri óþörf, ég væri bara 21 árs og það væri að öllum líkindum engar áhyggjur að hafa. Það endaði með því að ég fór samt í hana og 3 vikum seinna hringdi læknirinn og sagði að niðurstöðurnar væru aðrar en við hafði búist. Að ef ég ætlaði mér að eignast börn þá ætti ég ekki að bíða lengi með það, helst bara sem styst.

Þetta var ákveðið áfall, barnahlutinn hafði nú einu sinni verið rúsínan í pylsuenda hinnar fullkomnu framtíðaráætlunar. Ég var ekki einu sinni byrjuð í draumanáminu, hvað sem það þá yrði. Mér varð hugsað til stelpunnar, hún hafði aldrei séð eftir þessu og aðlagaði líf sitt og áætlanir bara að því að eiga barn í stað þess að láta það stöðva sig í einhverju. Eftir að hafa svoleiðis baðað höfuðið í bleytu komst ég alltaf að sömu niðurstöðunni. Hún var sú að af öllum áföngum plansins var bara einn þeirra sem ég var 100% viss um – og það var að einn daginn myndi ég vilja börn.

Ég var svo heppin að eiga mann sem stóð sem klettur við bakið á mér í gegnum allan tilfinningarússíbanann og var ekki lengi að gúddera uppkastið að hinu nýja plani. Stuttu seinna tók við 13 vikna gubbuveisla með öllu tilheyrandi, sem við tókum heldur betur fagnandi. Flestir fögnuðu með okkur en þó var fólk héðan og þaðan sem tilkynnti mér að það hefði nú verið sniðugt að bíða með þetta þar til eftir háskólanám. Barnlaust fólk væri nefnilega frekar ráðið í vinnu, svo ekki væri minnst á að spara fyrir fasteign, það væri nánast ómögulegt með barn eins og staðan væri í dag. Þetta voru nákvæmlega þau sömu, þröngsýnu sjónarmið og ég sjálf hafði haft nokkrum mánuðum áður (þó ég hefði kannski sleppt því að messa þeim yfir aðila sem á von á barni). Það er nefnilega þannig að nútímasamfélagið okkar er ótrúlega litað af þessari fyrrnefndu röð aðgerða, sjálf sá ég enga aðra leið fyrr en ég var svo gott sem þvinguð til þess. En mikið er ég þakklát stelpunni sem sagði mér frá blessaðri blóðprufunni því að án hennar hefði mér örugglega ekki dottið í hug að hætta á pillunni fyrr en eftir mörg ár, þegar það hefði að öllum líkindum orðið of seint fyrir mig að ganga með barn. En að sama skapi finnst mér sorglegt að í báðum tilvikum hafi smár tímarammi haft áhrif á ákvörðun okkar um að eignast barn á þessum aldri, en ekki það að okkur hafi langað það af fyrra bragði og þorað að fylgja þeirri tilfinningu.

Í dag er ég 22 ára og við Orri eigum 1 mánaðar gamlan sólargeisla sem glæðir lífið svo sannarlega nýjum tilgangi. Og viti menn, ég kláraði önn í arkitektúr kasólétt og hlakka til að halda áfram að vinna í framtíðarplaninu góða samhliða því að vera mamma.

En nú er þessi pistill orðinn alltof langur, upprunalegi tilgangur hans var að reyna að vekja athygli á því að þessi blóðprufa væri möguleiki fyrir hvaða konu sem er, því að mér finnst allt of lítið talað um hana. Einnig vona ég að ef einhver les þetta sem hefur framtíðina jafn meitlaða í stein og ég gerði, gefi sér tóm til að breikka sjóndeildarhringinn og sjái að það eru fleiri en ein braut sem maður getur fetað í gegnum þetta líf. Ég vona allavega að þessi skrif hafi einhver áhrif, þó svo það væri ekki nema að þau breyti einhverju fyrir eina manneskju sem er í sömu stöðu og ég fyrir rúmu ári.

Ljósmyndir Einar Rafnsson.

Pin It on Pinterest

Share This