Fiskur er eitt af því besta sem ég fæ og finnst mér mjög gaman að prófa mig áfram með hinar og þessar uppskriftir af fiskréttum. Einnig finnst mér gaman að gera eitthvað alveg upp úr sjálfri mér. Nýlega greindist þriggja mánaða dóttir mín með mjólkurofnæmi og er ég því að læra að borða upp á nýtt. Mjólk leynist í ótrúlega mörgu og því finnst mér mikilvægt að gera sem flest sjálf frá grunni. Sigrún Þorsteinsdóttir heldur úti vefsíðunni www.cafesigrun.com , þar er hægt að haka í þá ofnæmisvalda sem þú vilt forðast og finna alls konar flottar uppskriftir. Einnig eru allar þær uppskriftir sem ég hef skoðað með tillögu að öðru hráefni sem hægt er skipta út. Ég rakst á fiskrétt frá henna á dögunum sem ég ákvað að prófa og kom hann skemmtilega á óvart. Ég mæli algjörlega með þessum en til gamans má geta að tveggja ára dóttir mín sem er nú ekki sú duglegasta að borða bað tvisvar um ábót.

 

 Fiskur með kókosflögum og basil

  • 175 g kirsuberjatómatar skornir í tvennt (ég notaði ca eitt box sem var farið að slá örlítið í)
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 450 g ýsa (bein- og roðlaus)
  • 25 g kartöflumjöl eða spelt
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • smá svartur pipar
  • 1 tsk kókosolía
  • 2 msk rautt, thailenskt karrímauk (mér fannst þetta heldur sterkt og mun nota 1 tsk næst)
  • 1 msk fiskisósa
  • 250 ml léttmjólk eða undanrenna (ég notaði möndlu-kókosmjólk)
  • 2 msk kókosflögur
  • 20 fersk basil blöð, skorin í ræmur eða rifin (ég átti ekki fersk svo ég notaði smá þurrkað basil)

Skerið fiskinn í meðalstóra bita og veltið upp úr kartöflumjölinu (kryddið mjölið með smá salti og pipar). Hitið kókosolíu á stórri pönnu og léttsteikið fiskinn. Blandið saman hvítlauk, karrímauki, fiskisósu og mjólk, hellið því næst blöndunni yfir fiskinn og hitið að suðu. Bætið þá tómötunum við og látið krauma í 5 mínútur. Dreifið að lokum basilblöðunum og kókosflögunum yfir og berið fram. Gott er að hafa hrísgrjón með en ég hefði viljað hafa ferskt salat líka og mun því bæta úr því næst.

fiskur2

Þessi réttur hentar vel fyrir uppteknar húsmæður þar sem það tók aðeins 20 mínútur að gera hann.

 

Njótið <3

Elsa Kristinsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This