Nú eru jólin framundan og eins og vanalega er bókaflóðið mikið og margar bækur sem heilla. Ég verð að segja fyrir mína parta að þegar ég heyrði af þessari bók, Eldhús grænkerans varð ég strax mjög heilluð og hún er mjög ofarlega á mínum lista. Ég hef verið að minnka kjötát og hallast alltaf meira að því að gerast grænmetisæta. Ég mæli með þessari bók ef þú ert líka í þessum hugleiðingum því hún er svo sannarlega þess virði. Þú þarft svo sem ekkert að vera grænmetisæta eða langa til þess að gerast slík til að fjárfesta í þessari bók. Það eitt er nóg að vilja innleiða meira grænt og hollt inní þitt líf. Ég náði tali af Katrínu Rut sem er ein þriggja kvenna sem kom að því að gera þessa bók að veruleika. Höfundarnir eru þrjár grænmetisætur, Hanna Hlíf Bjarnadóttir, Rut Sigurðardóttir og Katrín Rut Bessadóttir þær vinna þessa bók saman af alúð, Eldhús grænkerans.

Hver er forsaga Eldhúss grænkerans?

Við Hanna kynntumst fyrir fyrir mörgum árum á Akureyri en leiðir okkar lágu síðan alltaf saman aftur og aftur fyrir algera tilviljun. Ég byrjaði síðan að vinna á Gestgjafanum árið 2013 og okkur vantaði lausapenna til að gera mat fyrir grænmetisætur. Þá hafði ég samband við Hönnu og hún sló til! Rut byrjaði síðan á ljósmyndadeild Birtíngs. Þegar við Hanna vorum komnar af stað með hugmyndina höfðum við samband við Rut, sem er líka grænmetisæta, og hún var strax til í verkefnið. Síðan töluðum við við stelpurnar í Sölku sem tóku strax vel í bókina og þá fór boltinn að rúlla og nú ári síðar er bókin komin út!

stelpur

Eruð þið allar vinkonur og grænmetisætur?

Já við erum vinkonur 🙂

Ég hætti að borða kjöt um síðustu áramót, Rut hefur verið grænmetisæta í 3 ár og er næst okkur því að vera vegan. Hanna hefur verið grænmetisæta í meira en 30 ár. Við Rut höfum óbilandi matarást á Hönnu svo hver tökudagur var þvílík veisla. Hanna eldaði allan matinn og er höfundur uppskrifta, ég hélt utan um textann og var stílisti.

Hér er finna uppskrift úr bókinni, ein af mörgum girnilegum.

Graskerssúpa með reyktum keim

Fyrir 4.

 • 1 lítið grasker (butternut), u.þ.b. 300 grömm
 • 1 msk. olía
 • 3 msk. smjör eða vegansmjör
 • 1 laukur, saxaður
 • 2 msk. grænmetiskraftur eða 1-2 grænmetisteningar
 • 200 ml vatn
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 tsk. malaður pipar
 • 2 tsk. hot madras karrí
 • 1 ½ tsk. reykt paprika
 • 1 tsk. kanill
 • 1 tsk. turmerik
 • 400 ml kókosmjólk (1 dós)
 • 1 dl Smokey Mesquite BBQ-sósa frá Stubbs (getið notað hvaða BBQ sósu sem er en þessi gefur mjög gott reykt bragð)
 • 50 g reyktur ostur, eða sterkur cheddar – eða veganostur að eigin vali
 • 150 ml rjómi eða veganrjómi
 • 1-2 msk. tamarisósa
 • 4-5 msk. rifinn appelsínubörkur

Hitið ofninn í 230°C. Skerið graskerið í tvennt, smyrjið sárið með olíu og bakið í ofni í u.þ.b. 40 mín. eða þar til kjötið er orðið mjúkt. Bræðið smjör í potti við meðalhita og mýkið lauk í 2-3 mín. Skafið kjötið úr graskerinu og bætið í pottinn ásamt grænmetiskraftinum og vatni. Setjið hvítlauk og annað krydd saman við ásamt kókosmjólkinni. Bætið BBQ-sósunni og ostinum við og látið samlagast við vægan hita í um 10 mín. Hellið þá rjómanum út í og hitið að suðu. Lækkið hitann. Rífið appelsínubörk yfir, smakkið til með pipar. Berið fram með sýrðum rjóma og krydduðum kjúklingabaunum.

 

Paprikukryddaðar kjúklingabaunir

 • 150 g kjúklingabaunir, soðnar
 • 1 msk. olía
 • ½ tsk. sjávarsalt
 • 1 tsk. reykt paprikuduft
 • ½ tsk. chiliduft

Skolið og þerrið baunirnar. Setjið þær á bökunarpappír, hellið olíu yfir og veltið þeim upp úr olíunni. Stráið salti, paprikudufti og chilidufti jafnt yfir baunirnar. Bakið í u.þ.b. 20 mín, snúið baununum við og bakið í 15 mín. til viðbótar eða þar til þær eru orðnar stökkar.

Njótið!

bokarkapa

 

Pin It on Pinterest

Share This