Hvað er auðveldara en að elda spagettí þegar mikið er að gera og lítill tími fyrir undirbúning á kvöldmatnum. Þessi réttur tekur án gríns jafnlangan tíma og það tekur fyrir spagettíið að sjóða og kemur virkilega skemmtilega á óvart þrátt fyrir einfaldleikann.
Ég nota lífrænt spagettí sem inniheldur kínóa sem er próteinrík súperfæða en að sjálfsögðu hentar hvaða spagettí sem er. Uppskriftin af sósunni dugar vel fyrir stóran fjölsylduskammt og það er hægt að frysta afganginn ef einhver verður og nota síðar.
Uppskriftin:
- 2 hvítlauksgeirar
- 1 avocado (vel þroskað)
- 2 stórar lúkur ferskt spínat
- ½ bolli Pecan hnetur
- ¼ bolli ferskt basilikum
- 1 tsk sítrónusafi
- ¾ bolli pastavatn
- sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
- Kínóa spagettí
Aðferð:
- Látið vatn í pott með smá ólífuolíu út í og bætið spagettíinu við þegar vatnið byrjar að sjóða. Sjóðið spagettíið eins lengi og umbúðirnar segja til um, ca 10 mín. Ég nota allan pakkann af spagettíinu enda er ég að elda fyrir sex manns.
- Á meðan spagettíið sýður þá er avocadóinu, spínatinu, pecan hnetunum, basilíkuminu og sítrónusafanum blandað saman í blandara eða matvinnsluvél (ég nota blandara því ég á ekki matvinnsluvél).
- Þegar spagettíið er tilbúið þá tekur maður ¾ bolla af pastavatninu og bætir því út í avocado blönduna og blandar þar til sósan er orðin vel rjómakennd. Smakkið til með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar.
- Sósunni er svo hellt yfir spagettíið og ef áhugi er fyrir hendi þá er meiriháttar að rífa yfir góðan slatta af ferskum parmesan.
- Fyrir þá sem vilja bæta um betur og fá aðeins meira prótein í máltíðina þá er ekkert því til fyrirstöðu að bæta við grillaðri kjúklingabringu en það lengir eldunartímann talsvert ef maður er óundirbúinn.
- Ég er oft búin að grilla fimm til sex bringur fyrir vikuna sem ég á tilbúnar inni í ísskáp fyrir hina ýmsu rétti og í nesti og þá er minnsta mál að skella þeim í örbylgjuofninn eða í augnablik á pönnu til að hita upp og skella yfir spagettífjallið.
Bon apetit!
Höfundur:
Karlotta Ósk Jónsdóttir