Nafn: Aníta Briem
Búseta: LA
Starf: leikkona
Hjúskaparstaða: gift
Börn: Mia tveggja ára
Aldur: 33 ára
Greinin hefur verið leiðrétt og uppfærð.
Á fallegum vordegi í apríl hitti ég Anítu Briem leikkonu á Korpúlfsstöðum í úthverfi Reykjavíkur. Þessi fallega smágerða unga kona kom einstaklega vel fyrir, létt í bragði gaf hún mér hlýlegt faðmlag þó þetta væri í fyrsta sinn sem ég hitti hana en við höfðum áður verið í tölvupóstsamskiptum. Ástæðan fyrir komu hennar til landsins er útgáfa bókarinnar “Mömmubitar”, sem hún og Sólveig Eiríksdóttir vinna saman. Bókin er virkilega falleg og ætluð konum á meðgöngu en hugmyndin að bókinni kviknaði einmitt þegar Aníta gekk með sitt fyrsta barn, Miu sem er nýorðin tveggja ára gömul.
Nú ertu að gefa út bók sem ber nafnið Mömmubitar, viltu segja okkur frá því hvernig hugmyndin að bókinni kviknaði.
Ég hef verið að byggja mig upp og venja mig á heilsusamlegt mataræði og svoleiðis og þegar ég var var ólétt fannst mér alveg ofboðslega erfitt að hugsa um mat. Mér fannst erfitt að fara inn í búðir og reyna að velja mér eitthvað til að borða. Ég var svo meðvituð um hvað maður þarf að fá fjölbreytta næringu yfir daginn og ákveðin vítamín sem eru nauðsynleg fyrir fóstrið til að það þroskist eðlilega. Mér fannst þetta svo ofboðslega mikil vinna, mér var óglatt, ég var orkulaus og ég þurfti að hafa svo mikið fyrir því að finna rétta fæðið. Mér fannst allar bækur sem ég las vera svo neikvæðar, þær næringafræðibækur sem voru sérstaklega fyrir meðgöng fjölluðu allar um það sem er vont, hættulegt og skaðlegt. Ég var alltaf að leita mér að lítilli léttri bók sem myndi gefa mér hugmyndir og ég fann hana aldrei. Þannig að þegar langt var liðið á mína meðgöngu þá var ég búin að finna mér fullt af litlum “trixum” sem virkuðu mjög vel við hinum ýmsu einkennum meðgöngu. Ég byrjaði að skrá þetta niður og allt í einu sá ég þetta fyrir mér sem þessa bók sem ég var alltaf að leita að. Ég fékk Sollu Eiríks í lið með mér til þess að gera uppskriftirnar og þar á meðal voru litlir naslpokar sem voru undirstaða hjá mér. Í þá setti ég hnetur og þurrkaða ávexti og var alltaf með þá í veskinu og í bílnum. Bara þessi litla hugmynd varð til þess að ég borðaði reglulega, þannig varð mér síður óglatt og það hjálpaði gríðarlega mikið við orkuleysinu og ég vissi að barnið væri alltaf að fá reglulega næringu. Við ritun bókarinnar bjuggum við Solla til miklu betri poka en ég hafði gert. Innihaldið var allt valið útfrá þeirri rannsóknarvinnu sem ég er búin að stunda um það hvaða næringarefni koma úr hverju hráefni fyrir sig. Ákveðnir þurrkaðir ávextir og hnetur eru ofsalega góð fæða og næring bæði fyrir þig og fóstrið.
Blaðamaður tekur undir það hvað þessir naslpokar séu girnilegir, enda búin að skoða bókina og hafði verið einstaklega hrifinn af þeirri pælingu að hafa poka í bílnum til að grípa til í staðinn fyrir einhverja óhollustu.
“Allvega mín reynsla var sú að heilinn bara í frí. Ég gat hreinlega ekki hugsað um mat, langaði ekki í neitt að borða þannig að þegar mér datt í hug að blanda einhverju saman í poka þá notaði ég mikið af afar einföldum mat. Það kannski virðist auðvelt að setja saman svona litla poka eða velta fyrir sér hvernig er hægt að gera það áhugavert að drekka vatn. Á meðan ég var ófrísk hugsaði ég um hvernig hægt væri að hafa matinn einfaldan, hollan og góðan því það var það sem ég þráði svo mikið á meðgöngunni. Ég er með eitt innskot í bókinni sem er bara hugmyndir að einföldum mat sem þú getur keypt í næstu búð og haft í ísskápnum og þarft ekki að elda. Ef þú ert eins og ég og ert með geðveikan valkvíða þá er tilbúinn innkaupalisti í bókinni sem hægt er að nota ef þú lendir í vandræðum.
Snúum okkur nú að öðru. Nú býrðu í Los Angeles og ert leikkona. Getur þú sagt okkur frá dæmigerðum degi í þínu lífi?
Það er eiginlega ekkert sem heitir hinn dæmigerði dagur hjá mér, það eru einhvern veginn allir dagar ólíkir, fer eftir því hvar ég er, í hvaða ferli. Ef ég er í tökum t.d þá er þetta 12 tíma törn á dag á settinu og svo vakna ég einum til tveimur tímum áður en ég þarf að mæta aftur. Venjulega tekur smá tíma, eftir tökur, að ná mér niður á meðan dregur úr adrenalínframleiðslunni og svo fer ég að sofa. Svo eru aftur á móti tímar á milli þar sem ég er annað hvort að funda, þróa eitthvað eða undirbúa mig undir verkefni, þau tímabil eru mjög ólík. Mér finnst alltaf rosalega gott á að byrja daginn á því að fara í jóga, mér finnst það vekja mig upp á svo góðan hátt og koma huganum á svo gott ról. Í LA eru svo miklar vegalengdir, að þegar maður er að fara á fundi, þarf oft að keyra klukkatíma eða einn og hálfan, hvora leið til að komast á einn fund. Svo eru líka margir fundir og atburðir á kvöldin, formlegir eða óformlegir eða partý, frumsýningar eða eitthvað svoleiðis þannig að þetta er svo margþætt. Stundum er ég bara heima að undirbúa karakter eða verkefni og þá er ég bara í jogginbuxunum að brjóta niður handrit og prófa mig áfram með hitt og þetta.
Hvernig fer þessi vinna saman við móðurhlutverkið?
Það er svolítið erfitt því að líf mitt er svo ofboðslega óútreiknanlegt og venjulega veit ég varla hvaða dagur eða mánuður er og stundum veit ég ekki hvaða ár er, því að það skiptir eiginlega engu máli. Ég er alltaf að gera mjög mismunandi hluti alla daga, það er aldrei þannig að á sunnudögum geri ég þetta og fimmtudögum geri ég hitt, sem hentar illa þar sem börn þurfa rútínu. En við vorum bæði sammála, ég og maðurinn minn, um að börnin okkar yrðu að falla inn í okkar lífsstíl, við myndum ekki gjörbreyta lífi okkar þó það væru komin börn. Ég gæti aldrei hugsað mér að vera bara heima því ég er ekki þannig týpa. Núna er Mia í leikskóla því þegar þú lifir svona listamannslífi þá þarftu að vera svolítið agaður og taka tíma fyrir þig því þetta er allt undirbúningur. Ef þú ert ekki í einhverju sérstöku verkefni t.d í tökum, þá ertu að halda við þínu verkfæri, líkama og huga, það er svo mikilvægt. Þannig að hún byrjaði á leikskóla fyrir um sex mánuðum síðan. Hún var alveg tilbúin til þess að fara og hún nýtur þess svo mikið að vera með öðrum krökkum og við erum komin í ákveðna rútínu sem fjölskylda sem er gott því það kemur sér vel fyrir okkur öll.
En þú segir börn, eru frekari barneignir á döfinni?
Að sjálfsögðu, ég myndi elska að eignast fleiri börn, en ég tel það mjög erfitt fyrir mig að eignast annað barn nema ég fái barnfóstru í fulla vinnu. Ég bara sé það ekki gerast núna því það er búið að vera svolítið erfitt að vera með eitt barn. Það var svolítið sjokk fyrir mig, sérstaklega út af vinnunni, af því ég treysti svo mikið á hugann og á ímyndunaraflið og hjartað og líkamann, að vera allt í einu með hugann stanslaust hjá barninu. Það þurfti að gefa henni að borða og sjá um allar hennar þarfirog allt í einu hafði ég ekki tíma til að fara eitthvað til að fá innblástur. Þetta var rosalega krefjandi fyrir mig og það hafa komið ákveðnir tímapunktar þar sem ég hef virkilega fundið fyrir því að alveg helmingurinn af mér er hjá henni. Mér finnst ég rétt núna vera að endurheimta sjálfa mig. Vissulega er það dásamleg upplifun, það eru algjörir töfrar að fá að upplifa svona en mér fannst þetta líka bara mjög krefjandi sem kvenmaður.
Nú er fjölskylda þín öll á Íslandi, finnst þér ekki erfitt að hafa ekki þetta tengslanet í kringum þig?
Jú, en ég held að ég hafi ekki alveg áttað mig á því til að byrja með af því ég leit svo mikið á mömmu og pabba, sem eru bæði tónlistarfólk, sem fyrirmynd. Hvernig ég ólst upp. Þau bara tóku mig með sér og ég var bara sofandi á stúdíógólfinu klukkan fjögur um nótt og það var bara ekkert mál eða þannig allvega mundi ég eftir þessu. Þegar ég var að hugsa um að eignast börn, hugsaði ég, ég vil gera þetta nákvæmlega svona, frjálslegur lífsstíll. Ég gleymdi að athuga það að auðvitað höfðu þau mikinn stuðning frá ömmum, öfum, frænkum, frændum og vinafólki. Það var rosalegt stuðningsnet. Systir mín býr reyndar með okkur úti og það hefur hjálpað rosalega mikið því hún hefur passað fyrir okkur. Við förum oft út á kvöldin með stuttum fyrirvara og að hafa hana hefur gert okkur það mögulegt. Það er vissulega erfitt að geta ekki leitað til annarra og líka auðvitað leiðinlegt að dóttir mín geti ekki að vera hjá afa og ömmu á hverjum degi. Fái ekki að sjá þau og þroskist með þeim daglega.
Nú hefur komið fram í öðrum miðlum að þú hafir glímt við fæðingarþunglyndi. Hvernig tókstu á við það?
Ég tæklaði það ekkert rosalega vel af því að ég held að ég hafi verið byrjuð að finna fyrir því þegar hún hefur verið um fjögurra mánaða. Ég hélt bara að þetta væri útaf því hvað þetta var erfitt , svefnleysi og það hvað þetta var rosaleg breyting. Ég var ekki farin að vinna aftur og mér fannst það ofboðslega erfitt, mér líður illa þegar ég er ekki að vinna. Þannig að ég hélt að þessi vanlíðan væri bara blanda af þessu öllu og það er ekki fyrr en á tíunda mánuði sem ég áttaði mig á því að það væri ekki allt í lagi. Þegar maður situr grátandi á klósettgólfinu út af engu þá er maður komin á vondan stað. Þá áttaði ég mig og hringdi í lækninn minn, fór svo til hennar, settist niður og tárin bara flæddu. Ég hágrét, gat ekki einu sinni talað og hún sagði bara já já, ég sé hvað er í gangi hérna. Hún mælti með því að ég tæki inn lyf en ég fór að lesa mér til um þau og þar sem ég var ennþá með hana á brjósti þá vildi ég ekki hætta á það. Ég vildi frekar finna einhverjar aðrar leiðir og ég byrjaði að stunda jóga daglega. Það hjálpaði mér alveg rosalega mikið. Hreyfing leysir serotonin úr læðingi og þetta vellíðunarhormón hjálpar rosalega mikið. Ég veit ekki alveg hvort jógað var nóg. Ég djöflaðist í gegnum þetta en hefði ábyggilega getað fengið meiri og betri aðstoð. Ef þetta myndi koma fyrir mig aftur þá held ég að ég gerði hlutina öðruvísi. Hugurinn er svo áhugaverður og ég held að það hugsi mjög fáir “ég er með fæðingarþunglyndi”, þú hugsar bara allt er ömurlegt og ég vildi að hlutirnir væru betri og þú sérð ekki ljósið. Það tók mig ofsalega langan tíma að átta mig á því að það gæti verið eitthvað svoleiðis í gangi. Í rauninni ætti maður að hugsa um þetta á meðan á meðgöngu stendur. Ég hugsaði alltaf meðgangan er allt, meðgangan er það sem er erfitt og þú ert þreytt og þér er óglatt og kannski gerist þetta, þetta og þetta. Ég hafði bara svo miklu minna heyrt um og kynnt mér hvað gerist eftir að barnið kemur í heiminn. Ég held að það sé gott að hafa í huga hversu mikilvægt það er fyrir nýbakaða móður að fá smá tíma, hvort sem það eru tuttugu mínútur eða klukkutími á dag, til að vera ein. Hvort sem hún vill fara á kaffihús með vinkonum sínum, fara í bað, út að labba, fara í jóga eða hvað sem er sem veitir henni smá frið. Líkaminn er í hormónarússíbana alla meðgönguna sem svo húrrar niður þegar barnið er fætt og auðvitað hefur það áhrif á andlega vellíðan. Við brjóstagjöf fara líka ýmsir hormónar af stað og hafa sitt að segja um líðan manns. Ef eða þegar ég geri þetta næst þá mun ég hugsa um fyrstu mánuðina í lífi barnsins eins og þeir séu partur af meðgöngunni því hægt er að líkja þessu við að líkami þinn sé í rosalegu ferðalagi þennan tíma. Þetta hættir ekkert bara þegar barnið fæðist , það heldur áfram í marga mánuði eftir á. Manni ber að vera meðvitaður um þetta því þá held ég að það sé auðveldara að sjá hlutina eins og þeir í rauninni eru. Það hefði breytt miklu fyrir mig að vita betur þegar ég var búin að eyða mörgum, mörgum mánuðum í að hugsa hvað allt væri hrikalega erfitt og hvað mér liði illa. Það hefði verið svo miklu auðveldara fyrir mig, ef ég hefði getað leitað mér hjálpar fyrr með þetta, eða ef ég hefði fattað þetta fyrr.
Að lokum hvað er á döfinni hjá Anítu Briem?
Ég er búin að ráða mig í nokkur verkefni og er að bíða eftir upplýsingum um hvenær þau fara af stað. Svo var ég að taka upp mynd með leikstjóranum Werner Herzog sem var mikill heiður. Einnig ætla ég að taka mér tíma í að þýða bókina mína svo að hún geti komið út erlendis líka. Svo er ég búin að vera að dunda mér í tónlist og ýmislegt fleira. Ég er alltaf að bralla eitthvað.
Hvað ertu að gera í tónlist, ertu líka söngkona?
Ég hef verið að dútla við að að syngja, notað sönginn sem þerapíu fyrir sjálfa mig. Hef líka verið að semja og notað það sem leið til að þróa karaktera eða koma mér í eitthvað ákveðið hugarástand áður en ég fer í tökur. Svo fór ég að spila fyrir leikstjóra sem ég er að vinna með, fannst þetta vera eitthvað fallegt til að deila með öðrum. Einn af þeim leikstjórum bað mig um að semja tónlist fyrir kvikmyndina sína, sem kom út á síðasta ári með Miru Sorvino og Dakota Johnson. Ég hef sungið nokkur lög með breskum DJ sem er svona klúbbamúsik og svo, eins og ég sagði áðan, hef ég verið að semja mína eigin músik. það er svolítið gott að hafa þetta þó ekki væri nema bara fyrir sálarlífið en mér finnst gaman að skapa og gott að hafa eitthvað sem fylgir minni pressa en leiklistinni.
Er plata í vændum?
Sjáum til segir Aníta létt í bragði og hlær sínum dillandi hlátri, kannski, kannski ekki, við sjáum til.
Ljósmyndir: Krissý
Fatnaður: AndreA Boutique og Ziska Art
Förðun: Harpa Rún
Viðtal
Auður Eva Auðunsdóttir