Ilmkjarnaolíur verða sífellt vinsælli og almennari í notkun. Þær gefa bæði góðan ilm og geta veitt aukna slökun og að auki gert andrúmsloftið meira kósí.

Skynsamleg notkun ilmkjarnaolía á meðgöngu og í fæðingu getur haft góð áhrif og notkun þeirra er nokkuð auðveld. Það er hægt að spreia þeim út í andrúmsloftið, nota til innöndunar, blanda í nuddolíu eða setja út í baðið. Ilmkjarnaolíur skal ætíð blanda við grunnolíu áður en þær eru settar á húð til dæmis vínberjaolíu (grapeseed), möndluolíu eða sólblómaolíu. Mikilvægt er að nota hreinar ilmkjarnaolíur því gerviangan gefur aðeins lykt en gerir ekkert annað gagn.

Sumar ilmkjarnaolíur henta betur en aðrar á meðgöngu og aðrar á beinlínis að forðast að nota. Athuga skal að ilmkjarnaolíur innihalda virk efni og oft er ekki mælt með því að nota þær nema í litlu magni fyrsta þriðjung meðgöngunnar.

Almennt er talið óhætt að nota Lavender, Bergamot, Chamomille roman, Neroli, Geranium, Rose, Jasmin og Ylang Ylang.

Ef ég ætti að nota aðeins tvær olíur á meðgöngu og í fæðingu myndi ég velja Lavender og Bergamot (Rose er svo dýr að það er óþarfi að velja hana). Lavender tæki ég því hún er góð alhliða olía, græðandi og slakandi fyrir huga og líkama. Hún dregur úr höfuðverk og hefur almennt góð áhrif á líðan á meðgöngu og ekki er óalgengt að konur taki hana með í fæðingu.
 Bergamot er góð gegn kvíða og depurð, er verkjastillandi, og getur hjálpað til við að undirbúa fæðingu og halda uppi baráttuþrekinu á erfiðum stundum..

Yfirleitt nota ég sprei eða bý til nuddolíu. Góð sprei-blanda er t.d. 50 ml vatn, 4 dropar lavender og 1 dropi bergamot sett í spreibrúsa, hrist og spreiað. Það er frískandi, róandi og gott.

Höfundur

Soffía Bæringsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This