Í kringum Berglindi Hreiðarsdóttir ríkir sjaldan lognmolla. Þessi ofurkona er gift Hermanni Hermannsyni verkfræðing og saman eiga þau þrjár dætur. Berglind stundar mastersnám í verkefnastjórnun í HR af fullum krafti auk þess að vera heima í fæðingarorlofi með yngstu dóttur þeirra hjóna þessa mánuðina. Hún starfar í mannauðsdeild Vodafone og í hjáverkum rekur hún fyrirtækið Gotterí og gersemar sem heldur úti uppskriftarsíðunni www.gotteri.is. Á þeirri síðu er að finna alls kyns uppskriftir og fróðleik sem snýr að bakstri og kökuskreytingum.

Berglind er einnig þekkt fyrir sínar guðdómlegu veislur og ég held að það sé með sanni hægt að segja að hinn íslenski arftaki Martha Stewart sé hér með fundinn! Það er nú kannski ekki skrítið að veislurnar hennar séu hver annarri fallegri enda eru veislur, bakstur, kökur og kökuskreytingar hennar ást og yndi. Berglind heldur námskeið í kökuskreytingum fyrir þá sem hafa áhuga á því að heilla gesti sína uppúr skónum með fallegum og vel skreyttum kökum í veislum! Aðsóknin hefur verið mjög góð á námskeiðin að sögn Berglindar. 

Berglind á þrjár dætur á aldursbilinu 5 mánaða til 14 ára. Þessar tvær eldri eru duglegar í tómstundum, auk þess sem hún stundar mastersnám í verkefnastjórnun, rekur sitt eigið fyrirtæki og er í fæðingarorlofi. Hvernig gengur að sameina þetta allt saman…eru ekki örugglega bara 24 tímar í þínum sólarhring?!

“Eigum við ekki bara að segja að það sé ekki að ástæðulausu að mastersnám í verkefnastjórnun heillaði mig, hahaha! Ég hef alla tíð verið mjög skipulögð, eiginlega einum of og kann hreinlega ekki að gera ekki neitt. Eftir því sem ég eldist og þroskast þá átta ég mig samt betur og betur á því að ætla mér ekki um of þó svo ég sé enn að læra það.”

Eins og margar konur nú til dags þá ertu að eignast þriðja barnið þitt að nálgast fertugt. Finnst þér öðruvísi að koma með barn á fertugsaldri en þrítugsaldri, ef já hvað finnst þér öðruvísi?

“Það er bara einhvern vegin miklu afslappaðra, við Hulda Sif erum bara að knúsast og njóta, fara út í göngutúra og ekkert að stressa okkur á hlutunum. Ég er ekkert að spá í þyngd, tanntöku, nýjustu barnatískunni, mömmuklúbbum og öllu þessu. Horfi bara á hana og sé henni líður vel og það er eina sem skiptir máli. Ég veit hún mun fá tennur, fara að ganga og allt þetta. Hún er síðan bara svo yndisleg og afskaplega tillitssöm við „aldraða“ móður sína. Hún sefur vel og brosir allan daginn þess á milli svo mamman lærir á meðan prinsessan sefur og leikur við hana öðrum stundum.”

Hvernig hugar þú að heilsunni?

“Ég elska að ganga á fjöll, fara í göngutúra, út að skokka og undanfarin ár hef ég verið meira fyrir jóga, pilates og þess háttar umfram aðra líkamsrækt innandyra. Ég verð samt að viðurkenna að ég mætti samt alveg vera duglegri að hugsa um sjálfa mig, það er þó klárlega eitt af núverandi markmiðum mínum og er ég meira að segja að byrja á pilates námskeiði í lok september.”

Hvenær byrjaðir þú að hafa ástríðu fyrir matargerð og bakstri?

“Síðan ég man eftir mér og þetta hefur bara ágerst með árunum og hausinn á mér ætíð uppfullur af hugmyndum svo to-do listinn í eldhúsinu klárast aldrei!”

Viltu segja okkur frá því hvernig hugmyndin kviknaði af www.gotteri.is?

“Við fjölskyldan bjuggum í Bandaríkjunum í nokkur ár og fór ég þar á fjölmörg kökuskreytingarnámskeið. Vinkonur mínar byrjuðu að grínast í mér að ég ætti að fara að hafa námskeið í þessu og einhvern vegin gerðist þetta alveg óvart og áður en ég vissi sátum við Heiða mágkona mín og útbjuggum heimasíðu og þá var ekki aftur snúið.”

Hvað er framundan hjá Gotterí og gersemum?

“Það sem er framundan eru haustnámskeið fram í nóvember. Það er nýtt námskeið á dagskrá sem kallast „Nútímalegar kökuskreytingar“ og hlakka ég mikið til að hafa fyrsta slíka námskeiðið nú í lok september. Gotterí var einnig að hefja samstarf við Gott í matinn og síðan er fleira skemmtilegt á prjónunum á  næstunni.”

Hvað er gott að hafa í huga þegar skipuleggja á veislu, varðandi fjölda gesta og magn af veitingum. Getur þú gefið okkur góð ráð varðandi skipulagningu þegar góða veislu gjöra skal, hvort sem um ræðir afmæli, fermingu, brúðkaup eða nafnaveislu?

“Það hefur reynst mér vel að skipuleggja veislu í tíma, átta mig á fjölda gesta, hvað á að bjóða upp á og þess háttar. Síðan skrifa þetta niður og stilla upp nokkurs konar verkáætlun. Hvað er hægt að gera í tíma, t.d kaupa skraut, baka í frystinn o.þ.h á móti því sem þarf að gerast kortér í veislu. Ég fermdi einmitt í vor og þá gerði ég góðan tékklista fyrir smáréttaveislu svo það er hægt að kíkja þangað til að átta sig á magni fyrir slíkt.”

 

Viltu gefa okkur uppskrift af þínum uppáhalds rétt eða þinni uppáhalds köku?

“Ohhh það er svo erfitt að velja, á ekki neitt eitt uppáhalds! Þrátt fyrir að mér finnist gaman að útbúa flóknar kökur og dúlla mér við kökuskreytingar klukkutímum saman þá er það oft einfaldleikinn sem kallar. Ef ég á að mæla með einhverju þá er það líklega Oreo ostakakan góða sem sló heldur betur í gegn á blogginu á sínum tíma.”

Oreo ostakaka

Botn

  • 1 ½ pakki súkkulaði Oreo kex

Ostakaka

  • 200gr suðusúkkulaði
  • 50ml rjómi
  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 300gr Philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
  • 1,5 dl flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar
  • ½-1 pk Oreokex – gróft mulið (með kökukefli)

Skraut

  • 300ml þeyttur rjómi
  • Oreokex (heil til að stinga í)

Aðferð

  1. Myljið kexið sem fer í botninn fínt niður í matvinnsluvél/blandara og geymið.
  2. Bræðið saman suðusúkkulaði og rjóma og kælið á meðan þið útbúið ostakökuna sjálfa.
  3. Þeytið 500ml af rjóma og setjið til hliðar á meðan þið þeytið saman rjómaost, flórsykur og vanilludropa.
  4. Vefjið því næst um 1/3 af rjómanum við ostablönduna varlega með sleif og svo allri restinni.
  5. Skiptið ostablöndunni niður í 3 skálar, um helmingur fer í eina og svo c.a ¼ og ¼ í næstu tvær (ef þið viljið sleppa hvíta laginu og gera bara hvítt með Oreomylsnu og svo brúnt lag þá má skipta 3/4 og 1/4).
  6. Hrærið gróft mulda Oreo kexinu saman við helminginn af blöndunni (3/4 ef þið sleppið hvíta laginu).
  7. Geymið ¼ (til að hafa hvítt lag) – (eða sleppa og hafa meira af hinu með Oreobitunum).
  8. Hellið kældu súkkulaðiblöndunni saman við ¼ og vefjið vel saman – kælið áfram.

Samsetning

  1. Setjið um 2 kúfaðar teskeiðar af Oreo mylsnu í botninn á hverju glasi (fer í 10-12 glös eftir stærð).
  2. Setjið ¼ hvíta hlutann í sprautupoka/zip-lock og skiptið jafnt á milli glasanna. Þetta er frekar þunnt lag og gott að ýta því að köntum glassins þegar búið er að skipta á milli á sem snyrtilegastan hátt (eða bara hinu beint ef þið skiptuð 3/4).
  3. Sprautið því næst blöndunni með gróft mulda Oreo kexinu á milli glasanna og sléttið úr líkt og með hvíta svo það fylli vel út í hliðar glassins (þetta laga amk helmingi þykkara en það  hvíta).
  4. Hellið súkkulaði-ostablöndunni yfir síðasta lag og er hún svipað þykk og hvíta lagið (súkkulaðiblandan er þó töluvert meira fljótandi en hinar tvær).
  5. Kælið þar til súkkulaðiblandan tekur sig (2-3 klst eða yfir nótt)
  6. Þeytið 300ml af rjóma og setjið í sprautupoka/zip-lock, sprautið í spíral sem skraut á hverja ostaköku og stingið Oreo kexi í hliðina.

Innskot Mamman.is. Þessi fallegu nafnaskilti sem eru á kökunum hjá Berglindi fást á www.hlutprent.is, þau er einnig að finna á Facebook HÉR.

Við þökkum Berglindi kærlega fyrir spjallið og óskum henni alls hins besta!

Auður Eva Ásberg 

 

Pin It on Pinterest

Share This