Þessi skemmtilegi réttur vakti  mikla lukku á mínu heimili um daginn og fannst mér því upplagt að deila honum með ykkur. Hann er bæði einfaldur og fljótlegur og alveg einstaklega bragðgóður.

Uppskriftin

 • 4 kjúklingabringur
 • ¼ tsk salt
 • ¼ tsk svartur pipar
 • 1 msk kókosolía
 • 1 rauðlaukur (hakkaður)
 • 1 rauður chili (ef vill)
 • 1 bolli kjúklingasoð
 • 1 lime
 • 1 msk ferskt kóríander (hakkað)
 • ½ tsk chiliflögur
 • ½ dós kókosmjólk
 • maizena jafnari (ef vill)

 

Aðferð

Saltið og piprið kjúklingabringurnar og léttsteikið á pönnu í kókosolíunni og leggið svo til hliðar.

Steikið rauðlaukinn þar til hann er orðinn mjúkur og bætið við chili ef þið ætlið að nota hann. Bætið þá við kjúklingasoðinu, limesafanum, kóríander og chiliflögunum og látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann og látið malla í um það bil fimm mínútur. Bætið þá við kókosmjólkinni og látið suðuna koma aftur upp og lækkið svo aftur og látið malla í fimm mínútur. Ef þið viljið að sósan sé þykkari þá er tímabært að bæta maizena jafnaranum útí.

Bætið svo kjúklingabringunum út í sósuna og látið malla í um það bil tíu mínútur í viðbót eða þar til kjúklingurinn er orðinn eldaður í gegn.

Berið fram með hrísgrjónum eða blómkáls “hrísgrjónum”.

 

Bon apetit!

Karlotta Jónsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This