Börn þroskast á mishratt og yfirleitt er ekki ástæða til að hafa áhyggjur þó að þau séu seinni til, á sumum sviðum, en jafnaldrar þeirra. Hins vegar er mikilvægt að vera með augun opin og vera óhræddur við að viðurkenna að mögulega sé vandamál til staðar. Það þarf ekki að leggja sleggjudóm á foreldra eða barn þó að það sé seinþroska á einhverjum sviðum. Snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum fyrir barnið og því mikilvægt að vera tilbúinn til að þiggja þá aðstoð sem er í boði.

Ég er móðir barns með slakan málþroska, hann fékk málþroskatöluna 82 sem er töluvert undirmeðaltali og þegar hann var rúmlega þriggja ára þá var hann með orðaforða á við rúmlega tveggja ára barn. Sem betur fer uppgötvaðist þetta snemma en það vöknuðu áhyggjur í tveggja og hálfs árs skoðuninni og var málið þá strax sett í ferli.

Það er þó áhyggjuefni að biðtími í talþjálfun á einkareknum stofum er u.þ.b. 12-20 mánuðir en það er alltof langur tími þegar svona ung börn eiga í hlut. Það segir sig sjálft að það munar mjög miklu fyrir barnið að komast í talþjálfun þriggja ára frekar en nær fimm ára þegar það er augljóslega vandamál til staðar. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands reynir þó að brúa bilið að einhverju leyti en það þarf að gera betur í þessum málaflokki.

einstein

Albert Einstein var seinn til máls og var af kennara sínum í barnaskóla álitinn tossi.

Við vorum svo heppin að fá átta tíma hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og heyrði ég mikinn mun á barninu eftir hvern tíma. Talmeinafræðingurinn greinir líka hluti sem ég áttaði mig ekki á að þyrfti að vinna með (enda er ég ekki talmeinafræðingur). Það er mjög fróðlegt að fylgjast með þessu og mikilvægt að halda áfram að vinna með þessa þætti þegar heim er komið. Við höfum nýtt okkur efni sem við fáum með okkur heim úr talþjálfuninni auk þess sem ég hef notað „Lærum og leikum“ forritið í iPadinum. Einnig hefur verið mælt með að nota„Lubbi finnur málbein“, en ég hef ekki enn komist í að kaupa þær bækur en ekki er ósennilegt að ég muni fjárfesta í þeim einhvern daginn. Það kemur þó ekkert í staðinn fyrir að lesa fyrir barnið, spjalla við það og jafnvel spila alls kyns spil. Við förum töluvert í samstæðuspil og „Sequence for kids“.

Mikilvægt er að gagnrýna barnið ekki, heldur að endurtaka orð og setningar rétt þannig að það heyri hvernig þau hljóma. Ef maður er stöðugt að leiðrétta barnið er hætta á að það veigri sér við að reyna og það muni hafa slæm áhrif á sjálfsmynd þess og sjálfstraust.

Börn sem eiga á hættu að verða svolítið undir eru þau sem lenda á gráu svæði þ.e, börn sem eru ekki nógu slök til að fá niðurgreidda talþjálfun. Fyrir marga er ekkert grín að þurfa að borga rúmlega 6000.- krónur fyrir hvert skipti. Skólakerfið hefur að sama skapi fá úrræði til að hjálpa þessum börnum.

Þessi klausa er ansi áhugaverð og sýnir kannski hvað best hvað snemmtæk íhlutun er mikilvæg:
„Þegar þessir einstaklingar hefja skólagöngu hafa þau frá fyrsta degi minni möguleika á að tileinka sér námsefnið en skólafélagarnir því þau hafa ekki það vald á máli og tali sem miðað er við að sex ára börn hafi. Mörg þessara barna eiga erfitt með að læra að lesa vegna frávika í málþroska og eiga því íerfiðleikum við að ná undirstöðuatriðum lesturs. Þar með er hafinn ferill neikvæðara upplifana í skólanum. Þeim gengur illa að læra að lesa sér til gagns og ánægu og eiga þá jafnframt erfitt með að tileinka sér námsefnið. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt að þessi hópur stendur sig illa á samræmdum prófum í íslensku í 4. Bekk.“ (tekið af malefli.is).

Hérna er svo ítarlegri skilgreining á málþroskaröskun: hér

Á heimasíðu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar (hti.is) er líka gátlisti sem er ágætt að hafa til hliðsjónar um það hvað barnið á að geta á hverju aldursskeiði fyrir sig.

Við megum ekki gleyma því að við foreldrarnir erum sérfræðingar í eigin börnum og ef við höfum áhyggjur þá eigum við að bera okkur eftir því að fá hjálp. Við erum þau sem eigum að gæta hagsmuna barna okkar á meðan þau geta það ekki sjálf. Kannski eru áhyggjurnar óþarfar en það er þá gott að fá það staðfest. Stundum þarf þó að grípa inn í og það er engin skömm að því að þurfa að þiggja aðstoð fyrir barnið sitt.

Að sama skapi er mikilvægt að horfa líka á styrkleikana hjá barninu og vera dugleg að hrósa og styrkja þá eiginleika. Það er enginn góður í öllu en það eru allir góðir í einhverju!

Höfundur
Bjarney Bjarnadóttir
íþróttafræðingur, grunnskólakennari og móðir

Pin It on Pinterest

Share This