Ekki fyrir svo löngu síðan gekk ég með mitt þriðja barn og eignaðist son haustið 2014. Fyrir átti ég tvo syni annan á tíunda ári og hinn fimmtán ára. Ég fann töluvert meira fyrir þessari meðgöngu en mínum fyrri, enda orðin þrjátíu og fimm ára en ekki rúmlega tvítug lengur.
Ýmislegt annað hafði breyst en aldur minn og meira erfiði á þessari meðgöngu. Þar á meðal það upplýsingaflæði sem Internetið hefur uppá að bjóða því árið 2005 var netið ekki nema brot af því sem það er í dag. Engu að síður rak ég mig á að það var ekki til vefur á íslensku sem fjallaði um málefni sem snúa að okkur konum. Vefur þar sem hægt væri að leita upplýsinga um meðgöngu, fæðingu, líðan eftir fæðingu, samlíf para, börnin okkar, hvort sem um hvítvoðunga eða óharðnaða unglinga væri að ræða eða breytingaskeið kvenna. Hvar fengist t.d meðgöngusundfatnaður og hvar gæti ég lesið um og skoðað nýjustu barnafatatískuna svo eitthvað sé nefnt.
Mig langaði einnig að lesa um mömmur sem væru að gera góða hluti,því ég velti oft fyrir mér, hvernig sumar konur fara eiginlega að því að sjá um stórt heimili, verandi í fullri vinnu, krefjandi námi eða með sinn eigin rekstur. Eru þetta ofurkonur eða eru þær bara nett kærulausar? Er líf þeirra eitt “excelskjal” þar sem hver einasti viðburður er skipulagður í þaula?
Það er ekkert launungamál að það hefur reynst feðrum auðveldara að vera í þessum sporum því þrátt fyrir jafréttisbaráttu liðinna áratuga hvílir ábyrgð heimilisins meira á okkur konunum. Þó svo að mikil breyting hafi orðið til batnaðar. Ég fann fyrir vöntun á svona síðu fyrir mig, þar sem hægt væri að sækja sér upplýsingar, um málefni kvenna. Þannig að ég settist niður og velti fyrir mér hvað svona vefur gæti heitið. Það kom nokkuð fljótt og auðveldlega til mín, Mamman skyldi hann heita enda er það hlutverk sem fylgir okkur flestum stóran hluta af lífinu. Hvers konar mömmur við erum, er svo til í alls kyns útfærslum. Við getum verið stjúp- eða fósturmæður eða fætt okkar eigin börn en eitt er víst að við erum mæður allt til dauðadags. Flestallar reynum við að gera okkar allra besta í því hlutverki.
Eftir að hafa setið námskeið Nýsköpunarmiðstöðvar, Brautargengi sem er fyrir konur með viðskiptahugmyndir, einu sinni í viku, með barn á brjósti, þróaðist þessi hugmynd mín. Á endanum varð úr að stofna vef fyrir konur/mæður sem fjallar um brennandi málefni líðandi stundar. Ekkert er okkur óviðkomandi og alltaf munum við hafa lausnir og jákvæðni að leiðarljósi. Ég sá fram á að geta ekki unnið alla þessa vinnu ein og í eitt og hálft ár, með lítið sem ekkert fjármagn til að starta þessu, leitaði ég leiða til að gera þennan draum að veruleika. Mig langaði stundum að gefast upp og á einum tímapunkti reyndi ég að selja lénið mamman.is því mig langaði til að ýta þessu frá mér.
Þetta var eins og löng og erfið fæðing, en ég varð að komast í gegnum þetta.
Á endanum fann ég tvær frábærar konur sem voru tilbúinar til að koma að þessu með mér og nýta sína menntun og reynslu. Þær sáu sömu möguleika í þessu verkefni og ég..
Við þrjár, mjög ólíkar, með mismunandi bakgrunn en samt svo líkar, allar konur, allar mæður, allar hoknar af reynslu sem við vildum miðla .
Þarna voru fyrstu skref Mömmunar tekin og framundan er langt og skemmtilegt ferðalag sem spennandi verður að upplifa og fylgjast með. Ég hlakka til að þróa Mamman.is með ykkur öllum og tek glöð á móti ábendingum um áhugaverð efni. Við viljum kynnast mömmum sem eru að gera góða hluti, vantar upplýsingar um hvaðeina sem snýr að mæðrahlutverkinu. Sumar væri jafnvel hægt að fá í viðtal til okkar. Allar ábendingar má senda á netfangið audur@mamman.is.
Ást&friður
mamman
Auður Eva Auðunsdóttir