Ég vil hafa hlutina frekar einfalda í kringum mig, það sést kannski best á því að ég kann best við mig í gallabuxum, svörtum “plane” bol eða peysu og jakka, alltaf! Ég á frekar erfitt með að klæða heimilið mitt í gallabuxur og bol en myndi eflaust gera það ef ég gæti og því myndi ég lýsa heimilinu mínu sem frekar látlausu á smartan hátt þó. Ég elska samt sem áður að skreyta heimilið með einföldum og fallegum hlutum í minimalískum stíl.

Þegar ég var að pæla í skreytingum í salinn fyrir brúðkaupið mitt var því enginn vafi á því að ég vildi hafa fáar og einfaldar skreytingar. Ekkert of áberandi og litaþemu valdi ég út frá brúðarvendinum mínum. Stelpurnar í Blómabúðinni 18 Rauðar rósir sáu um blómaskreytingarnar fyrir mig þannig að þegar við hittumst og fórum yfir málin komu þær með frábærar hugmyndir að blómaskreytingum. Ég var með þrjú stór hringborð og mig langaði að hafa fallega hringlaga blómaskreytingu í miðjunni á hverju borði. Þær áttu ofsalega fallega hringlaga vasa sem þær skreyttu með sömu blómum og voru í brúðarvendinum mínum og einu hvítu kerti. Ég heyrði það fyrir mörgum árum síðan að þegar dekkuð væru borð fyrir brúðkaup og aðrar veislur þyrfti að hafa í huga að ef blómaskreytingar væru á miðju borði þá mættu þær alls ekki vera það háar að þær takmörkuðu yfirsýn yfir borðið því þá ætti fólk erfitt með að halda augnsambandi í samræðum sín á milli. Þessar skreytingar voru því fullkomnar og hentuðu að öllu leyti á hringborðin.

Brúðartertan sem var frá Sætum syndum stóð sér á borði þannig að hún fengi að njóta sín sem best. Hún var ótrúlega vel heppnuð, einföld, hvít, og skreytt með nokkrum bleikum sykurrósum. Til að ná sama lit á rósirnar og voru í blómaskreytingunum sendi ég henni Evu Maríu hjá Sætum syndum mynd af rósunum í vendinum og þannig náði hún nákvæmlega sama lit. Kakan var á þremur hæðum og var ekki bara fullkomin í útliti heldur líka einstaklega bragðgóð. Hægt er að nálgast upplýsingar um pantanir og verð á Facebooksíðu Sætra synda. Kökuborðið og þrjú há hringborð skreytti ég með fallegu handmáluðu keramiki frá Dagnýju Gylfadóttur keramikhönnuði en hún hannar vörur sínar undir merkinu DayNew. Hönnun DayNew og þessa fallegu vasa og kertastjaka er hægt að kaupa í Stíg á Skólavörðustíg, Litlu hönnunar búðinni Strandgötu Hafnarfirði, í Kastalanum Selfossi, Listfléttunni á Akureyri og Húsi handanna á Egilsstöðum. Þessar skreytingar voru svo fallegar, í mildum og rómatískum litum og áttu svo sannarlega sinn þátt í því að gera daginn fullkominn í alla staði. Ég mæli eindregið með að fá aðstoð hjá fagfólki sem lifir og hrærist í skreytingum og getur fullkomnað þær hugmyndir sem þú þegar hefur fyrir stóra daginn.

Auður Eva Auðunsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This