Mistök sem foreldrar leikskólabarna eiga til að gera

Stundum er erfitt að eiga barn á leikskólaaldri…viðurkennum það bara. Þau kunna að ýta á alla takkana okkar og við missum þolinmæðina. Örvæntið ei, því þið eruð ekki ein! Leikskólakrakkar vilja vera sjálfstæð og það getur reynt á taugar foreldranna. Börnin vilja samt sem áður athygli og ást ykkar, það verður ávallt að hafa í huga.

Michele Borba, höfundur bókarinnarThe Big Book of Parenting Solutions, segir: „Þessi aldur (3-5) er athafnasamastur og getur valdið hvað mestum árekstrum í uppeldinu.“

Hér eru átta mistök sem foreldrar gera í uppeldi þessara barna.

Að gefa eftir rútínuna

Stöðugleiki og festa er afskaplega nauðsynleg fyrir leikskólabörn. Ef rútínan fer forgörðum eiga börnin til að verða óróleg, ringluð og geta farið að sýna óæskilega hegðun, eða getur það ýtt undir bræðisköst. Þau skilja ekki að stundum má eitthvað og stundum ekki.

Ef mamma leyfir barninu að leika í 10 mínútur áður en farið er í leikskólann, en daginn eftir þarf það að fara beint út í bíl, eða mamma las sögu fyrir svefn í gærkvöldi en ekki í kvöld, þau eiga mjög erfitt með að skilja slíkt.

Lagaðu það: Vertu samkvæm sjálfri/sjálfum þér eins og þú getur – hvort sem um er að ræða aga, svefnvenjur eða matartíma. Ef þú heldur rútínu 90% tímans og barninu líður vel, þá líður þér einnig vel og það er í lagi að gefa smá slaka.

Einbeita sér að því neikvæða

Það er auðveldara að sjá neikvæða hegðun barnsins – t.d. öskur og læti – og sjá ekki hið góða. Foreldrar kynna að einbeita sér að því sem þeir vilja ekki að barnið geri. Þeir segja: „Ekki lemja. Ekki öskra. Ekki segja „kúkur.““

Lagaðu það: Taktu eftir því þegar barnið hegðar sér vel og verðlaunaðu góða hegðun. Þú getur hrósað barninu, faðmað það eða kysst. Það virkilega gleður börn á þessum aldri. Þú getur líka sagt: „Þetta var flott hjá þér, hvernig þú sast kyrr og hlustaðir,“ eða: „Það var fallegt að sjá hvað þú varst góð/ur við barnið á rólóinum.“

Að taka ekki eftir viðvörunareinkennum

Foreldar eiga það til að reyna að eiga við börnin sín þegar þau eru í bræðiskasti með því að segja: „Slakaðu á, róaðu þig,“ en þú gætir alveg eins reynt að kenna gullfiski eitthvað. Þú hefur tækifæri áður en kastið á sér stað, ekki þegar reiðin tekur öll völd. Þá heyrir barnið ekki neitt.

Lagaðu það: Fylgstu með barninu þínu, sjáðu fyrir hvaða aðstæður barnið á erfitt með að höndla. Oft eru hættumerki hungur, þreyta og leiði. Ekki taka barnið í búðir nema það hafi tekið blund eða borðað áður.

Að hvetja vælið

Ef þú kannast við að væl barnsins fari í taugarnar á þér, t.d. ef þú ert að búa til matinn og barnið fer að skæla og segist vilja fara í heimsókn til vinar síns eða í tölvuna. Oft gefa foreldrar eftir til að kaupa sér frið en sá stundarfriður er dýrkeyptur, því börnin sjá að þetta virkaði og ýtir þetta undir slíka hegðun. Barnið er eldsnöggt að sjá veiku punktana og ýtir á þá aftur og aftur. Það er að átta sig á hvernig hlutirnir virka.

Lagaðu það: Hunsaðu vælið. Svo lengi sem það er ekki alvarlegur grátur, meira væl og kvabb, er betra að hunsa það. Ef þú gefur þig ekki mun barnið að lokum hugsa: „Jæja, þetta virkaði ekki.“

Of mikið að gera

Foreldrar ætla börnum sínum stundum um of. Þeir skrá þau í fótbolta, danstíma og fleira. Svo verða þeir hissa þegar barnið fer ekki upp í rúm og steinsofnar eftir athafnamikinn dag. Vandinn er að þau eru enn upptrekkt og þurfa tíma til að ná sér niður og róast. Öll börn þurfa þess, sérstaklega leikskólabörn. Það er líka áreiti og erfitt að vera í leikskóla í marga klukkutíma á dag.

Lagaðu það: Ekki láta barnið hafa allt of mikið að gera eða skutla því í athafnir, hverja á fætur annarri. Gefðu barninu tíma til að ná sér niður þegar það kemur heim úr leikskólanum.

Að vanmeta mikilvægi leiksins

Mörgum foreldrum finnst að þeir ættu að hafa barnið í einhverskonar „prógrammi“ til að þau fái forskot á lífið. Það er hinsvegar ekki alltaf raunin. Það sem gefur þeim einna mest er frjáls leikur. Það á við um hermileiki, þykjustuleiki og ærslaleiki. Þannig þroskast heili þeirra best. Börnin læra afskaplega mikið í leikjum, bæði um sig sjálf og aðra.

Lagaðu það: Gefðu barninu tíma og rými til að leika sér. Leyfðu því sjálfu að ráða leiknum.

Að láta daglegt áreiti ná yfirhöndinni

Barnið þitt kann að leika sér sjálft og unað sér. Það þarf samt athygli þína. Ef það er eitthvað sem þau þrá er það að mamma eða pabbi setjist á gólfið og leiki við þau. Margir foreldrar vinna heima, gleyma sér í símanum eða sjónvarpsgláp og það kemur niður á samverustundum með barninu.

Lagaðu það: Settu tíma sem þú ætlar að verja með barninu og vertu með því allan tímann. Bara hálftími á dag af slíkum leik þar sem barnið fær óskipta athygli þína getur gefið ykkur mjög mikið. Það er betra en allur dagurinn þar sem foreldrar eru með hugann annarsstaðar.

Að bregðast harkalega við lygum

Stundum verða foreldrar reiðir þegar barnið lýgur. Foreldrar ættu frekar að horfa á slíka hegðun sem tilraunastarfsemi hjá barninu frekar en alvarlegt siðferðisbrot. Þegar börn fara að ljúga er það þroskamerki. Það er bæði spennandi en líka ógnvænlegt. Þau fá ýmsar tilfinningar. Þegar foreldrar „fríka út“ yfir því og halda að barnið endi sem glæpamaður, verða þau að hugsa sig aðeins um, því flest börn gera eitthvað svipað á einhverjum tímapunkti.

Lagaðu það: Ekki bregðast of harkalega við. Að segja ósatt á köflum er eðlilegur hluti þroska barns. Ekki hanga í lyginni sjálfri. Ef barnið neitar að hafa sullað niður geturðu einfaldlega sagt: „Þér líður illa yfir þessu og ég skil það.“

Að vera foreldri tekur tíma, þolinmæði og ást. Það þarf alltaf að hafa hugfast að breytingar eiga sér ekki stað yfir nóttu. Ef það tekst ekki í fyrstu tilraun, reyndu aftur. Og aftur.

 

Heimild: WebMd

 

Pin It on Pinterest

Share This