Sumarið er tími samverustunda fjölskyldunnar sem oftar en ekki eru nýtt til þess að ferðast saman bæði hérlendis og erlendis. Ég elska að nýta sumarið í að ferðast innanlands og er þegar búin að fara einu sinni hringinn í kringum landið það sem af er sumri. Ég á Vestfirðina þó alveg eftir og stefnan er að skoða það landsvæði í sumar. Langar bílferðir geta reynt á þolinmæði barna og þá er gott að hafa góða afþreyingu í bílnum fyrir þau á milli áfangastaða. Hér eru nokkur ráð sem reynst hafa okkur vel í löngum bílferðum.
Hafðu nóg að drekka í bílnum.
Hafðu nóg af vatni í brúsa með þér því loftið í bílnum getur orðið þurrt sem getur leitt til þess að allir verða mjög þyrstir. Oft geta börn orðið mjög pirruð í bíl og á því getur verið einföld skýring, þorsti. Ég hef einnig með mér eplasafa líka því að hann er mjög stemmandi og getur róað maga ef börn finna fyrir bílveiki.
Stoppaðu oft.
Ekki flýta ykkur of mikið. Börn elska að stoppa og hlaupa aðeins um eftir að hafa setið dágóða stund í bíl. Fyrir þeim er tíminn miklu lengur að líða og getur oft tekið á. Þá er gott að finna góða áfangastaði til að stoppa á, njóta náttúrinnar og leyfa þeima að hlaupa um.
Gulur bíll!
Það eru margir skemmtilegir leikir sem hægt er að fara í með barninu eins og Gulur bíll, sem er einfaldur og skemmtilegur leikur sem allir ættu að þekkja. En fyrir þá sem ekki þekkja hann þá gengur hann út á það að sá sem sér fyrstur gulan bíl hrópar “gulur bíll!” og fær fyrir það stig, bílstjórinn getur t.d verið stigavörður. Eins er gaman að fara í Frúin í Hamborg og aðra gamla góða leiki.
Vertu með snjalltæki fullhlaðinn.
Okey ég verð að segja það að ég er ekkert rosalega hrifin af því að nota mikið af snjalltækjum og það er gott að takmarka tölvu/símatíma sem barnið hefur en stundum er bara svo gott að kaupa sér smá frið. Ég fann þessa síðu á Facebook sem heitir “Viðmið um skjánotkun” ágæt er að nota hana svo að skjánotkun fari ekki úr böndunum. (Smellið á linkinn til að fara inná síðuna).
Bækur til að skoða.
Gott er að taka með skemmtilegar bækur til að skoða. Ég mæli með harðspjaldabókum sem skemmast ekki svo auðveldlega.
Stoppaðu í sundi.
Ef íslendingar geta státað sig af einhverju þá eru það fallegar sundlaugar um land allt. Jafnvel í hinum minnstu bæjarfélögum eru glæsilegar sundlaugar sem skemmtilegt er að heimsækja. Ég mæli með því að taka sunddótið með og stoppa í næstu laug, oft taka börnin góðan lúr eftir skemmtilega sundferð.
Skemmtilegur lagalisti á Spotify
Það eru nokkrir skemmtilegir lagalistar á Spotify sem börn hafa gaman að hlusta á. En ef þú leitar t.d eftir “Barnalög” þá kemur upp lagalisti sem samanstendur af skemmtilegum barnalögum, eins er að finna leikrit eins og Ávaxtakörfuna og fleiri spennandi leikrit og lög.
Að lokum óska ég ykkur góðrar ferðar og njótið sumarsins!
Auður Eva Ásberg