Morgun(eða kvöld- eða allan daginn-)ógleði getur verið leiðinlegur fylgifiskur þess kraftaverks sem meðgangan er. Talið er að 70 – 90 % kvenna þjáist af ógleði á meðgöngu. Ógleðin tengist auknu hormónamagni í líkamanum og jafnar sig yfirleitt eftir 14. viku meðgöngunnar þó það sé mjög mismunandi milli kvenna. En þar sem morgunógleði er svona algeng hjá verðandi mæðrum er ekki úr vegi að taka saman nokkra punkta sem eru taldir geta hjálpað til við að slá á mestu einkennin.

  1. Hvíldu þig

Það er mikilvægt að fá næga hvíld og stundum þarf hreinlega að leggja sig. Ekki gleyma því að þú ert með nýtt líf innan í þér og þú þarft að spara orkuna þína og ekki ofkeyra þig.

  1. Engifer

Engifer er mjög gott til að róa magann og er ein af þeim matartegundum sem iðulega er mælt með gegn morgunógleði. Hægt er að búa til te úr fersku engiferi, drekka kalt engiferöl, borða sykrað engifernammi, engifersultu, engiferkökur eða hvað sem þér dettur í hug.

  1. Þurrt saltað kex

Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi en það getur hjálpað að borða þurrt og saltað kex þegar erfitt er að koma nokkru öðru niður. Það eykur á ógleðina að vera með tóman maga og það er auðvelt að koma því niður. Auk þess sem salt bindur vökva í líkamanum. Með söltuðu kexi meinum við að sjálfsögðu líka saltstangir og þess háttar gúmmelaði.

  1. Drekktu nóg

Það er mjög mikilvægt að drekka nóg á meðgöngu þó það geti reynst sumum erfitt að koma vatninu niður. Það ýtir undir ógleði að drekka ekki nóg og því er tilvalið að reyna að finna leiðir til að koma í sig nægum vökva. Þó að vatn sé alltaf hollast þá má alveg reyna einhverja koffínlausa gosdrykki eða ávaxtasafa sem þú átt auðveldara með að koma niður. Svo er hægt að búa til íspinna úr hvaða drykk sem er, sem getur hjálpað mikið til, enda er oft auðveldara að koma köldum vökva niður.

  1. Hreyfðu þig

Það getur verið mjög erfitt að finna hvatann til að hreyfa sig þegar maður þjáist af morgunógleði en það hefur sýnt sig að hreyfing getur bætt líðan og slegið á ógleðina.

María Þórólfsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This